SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir12. apríl 2025

Ljóð Bjargar Jónsdóttur

Ljóð Bjargar í sýnisbók rangæskrar ljóðagerðar á 20. öld

 

Holtsnúpur
 
Hver er hinn djarfi, stóri og sterki,
er stendur við alfaraleið.
Með litrófi allt í ljóssins merki
og lokkandi töfraseið.
Dulur á svip, er dökknar rjóður
og dimmir um tindaskörð.
Það er Holtsnúpur, hollur og góður,
sem heldur um byggðina vörð.
 
Ef gengur þú einn um götuna þreyttur,
er geymir þín fyrri spor,
í huga þínum er heimurinn breyttur
og horfið þitt bernsku vor,
þá líttu´ upp í brekkuna, ljósvakinn gróður
ljómar þar enn móti sól.
Það er Holtsnúpur, hollur og góður,
sem hvíld þér býður og skjól.
 
En þegar lýkur lífsins árum
og lagt er í hinztu för,
þú vindur upp segl, er vakir á bárum,
og veltur hinn smái knör,
og tekur mið af tindunum hljóður
á tindrandi stjarna her.
Það er Holtsnúpur, hollur og góður,
til himins sem bendir þér.
 
Mosinn
 
Ég er frjóið, sem festi rætur
undir fönnum á öræfaslóð.
Ég er mýktin við mannsins fætur,
er mæðir hann gangan hljóð.
Ég er grænkan, sem geislanum móti
glitrar í himinsins veig.
Ég er mosinn, sem grær á grjóti,
gullið í aldanna sveig.
 
Á fornum slóðum
 
Þar sem lækurinn niðar og lyngið grær
og laufvangann strýkur morgunblær
og yndistöfrum á engið slær
og álfaborgir á hjöllum.
Þar nam mín sál vorsins söngvamál
við sólris á norðurfjöllum.
 
Því leita ég enn á ljúfa slóð
um ljósar og fagrar nætur
og hlýði á straumsins léttu ljóð,
sem lágtónum hlær og grætur.
Þótt grói yfir spor, hið gullna vor
geymist við hjartarætur.
 
Jól
 
Í húsi mínu er hlýtt og rótt,
það húmar og líður á daginn.
Á kerti mínu ég kveiki hljótt,
því komin er heilög jólanótt
og bíð þér, Jesú , í bæinn.
 
Ljóðin hennar Björgu birtust í bókinni ,,Ljóð Rangæinga" 1968 sýnisbók rangæskrar ljóðagerðar á 20. öld
þar sem 68 höfundar eiga ljóð í bókinni. Goðsteinsútgáfan Skógum.