BÓKMENNTAGAGNRÝNANDINN SEM (ÁSTFANGIÐ) SVÍN
|
Í siðasta þætti Gísla Marteins komu gagnrýnendur til umræðu enda var Ingibjörg Iða, gagnrýnandi Kiljunnar, einn af gestunum. Annar gestanna, Benedikt Erlingsson, leikari, minntist á undirritaða í umræðum og eignaði ákveðin orð um gagnrýnendur. En samlíking gagnrýnenda við svín sem finna bestu jarðsveppina og grafa upp úr moldinni, er hins vegar komin frá Edward Albee og eru nokkuð þekkt. Benedikt hefur kannski lesið þessi grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins fyrir margt löngu:
ÁSTFANGIÐ SVÍN Innlegg í umræðu um gagnrýni og gagnrýnendur |
|
Fyrir nokkrum árum kom út hjá J. W. Cappelens Forlag í Noregi greinasafn um bókmenntagagnrýni sem vakti nokkra athygi á Norðurlöndunum. Bókin ber þann skemmtilega titil Samræður við svín (Samtale med et svin) og vísar titilinn til frægra orða Edwards Albees, sem sagði að það þyrfti svín til að leita uppi bestu jarðsveppina. Gagnrýnendur eru þá í hlutverki svínsins sem notað er til að þefa uppi hina gómsætustu sveppi. (Orðtakið „að kasta perlum fyrir svín“ kemur einnig upp í hugann.) Ritstjórar bókarinnar eru rithöfundarnir Sissel Lie og Liv Nysted og í formála velta þær upp spurningum um starf gagnrýnandans og eðli starfins í litlum samfélögum þar sem „allir þekkja alla“. Noregur er það „litla“ samfélag sem þær vísa til og vafalaust eiga hugleiðingar þeirra ekki síður við í enn minna samfélagi eins og á Íslandi. Lie og Nysted spyrja hvort gagnrýni í svo litlu samfélagi sé ekki annað en marklaust blaður sem grundvallist á nánum kynnum gagnrýnenda og höfunda. Kynnum sem valda því að gagnrýnandinn tekur aldrei nógu alvarlega á viðfangsefni sínu því hann vill ekki spilla sambandi sínu og höfundarins. Einnig velta þær fyrir sér hvort gagnrýnendur séu yfirhöfuð nógu færir til að taka á móti nýjungum og frávikum í bókmenntum, þar sem bæði þeir og lesendur almennt séu yfirleitt blindaðir af ríkjandi raunsæishefð í bókmenntum og listum.
Gagnrýni fyrir hvern? Til hvers ætlast lesendur af gagnrýnendum?, spyrja ritstjórarnir enn fremur. Vilja þeir fá efni bóka endursagt eða fræðilegar útleggingar og túlkanir? Vilja þeir lesa tilfinningaþrungnar lýsingar á lestrarreynslunni eða vilja þeir kannski að gagnrýnandinn veiti höfundinum tilsögn varðandi það sem betur mætti fara í viðkomandi texta? Allar þessar vangaveltur snúast í raun um spurninguna um það hverjum gagnrýnin er ætluð? Þótt undarlegt sé, virðist þessi spurning vefjast fyrir mörgum. Sá misskilningur virðist oft ríkjandi að gagnrýni sé ætluð listamanninum (rithöfundinum, leikskáldinu, leikaranum, leikstjóranum o.s.frv.) eða hans nánasta umhverfi (bókaforlaginu, leikhúsinu) og í slíkri skoðun hlýtur að felast að gagnrýnin eigi að vera leiðbeinandi. Slík skoðun er að mínu mati fráleit. Gagnrýnandinn á ekki og getur ekki sagt listamanninum til. Hann getur einungis lagt mat á það verk sem fyrir liggur, mat sem er grundvallað á hæfileika viðkomandi til að greina verkið og tengja það við hefð og samtíma, ásamt því að geta komið mati sínu á framfæri á skiljanlegu máli.
Að mínu mati er spurningunni um það hverjum gagnrýnin er ætluð auðsvarað. Hún er ætluð lesendum blaðsins (í tilviki blaðagagnrýnandans) eða öðrum viðtakendum þess miðils sem gagnrýnandinn vinnur fyrir (hlustendum útvarps, áhorfendum sjónvarps, o.s.frv.) Og gagnrýnin á að vera þannig framreidd að hinn almenni viðtakandi geti skilið hana og metið út frá eigin forsendum. Með það í huga verður krafan um að einungis leikhúsfræðingar eða menntað leikhúsfólk geti skrifað um leiksýningar jafn fráleit og að einungis bókmenntafræðingar eða rithöfundar geti skrifað um bókmenntir (ekki eru áhorfendur menntaðir leikhúsfræðingar upp til hópa, eða lesendur bókmenntaverka þjálfaðir bókmenntafræðingar). Hæfileikinn til að skilja, skynja og geta komið frá sér mati sínu á mannamáli, verður ekki mældur í háskólagráðum, þótt þær geti stundum treyst þann hæfileika, sem betur fer. Vonandi misskilur engin orð mín svo að ég sé andsnúin menntuðum gagnrýnendum. Að sjálfsögðu getur menntun haft mikið að segja fyrir þá hlið gagnrýninnar sem snýr að því að greina einstök verk og tengja þau við önnur verk - og tímann. En menntun er, í sjálfu sér, aldrei trygging fyrir því að gagnrýnandinn sé starfi sínu vaxinn.
Það sem að mínu mati skiptir meira máli hér er að gagnrýnandinn hafi vald á listinni að miðla á valdi sínu og að hann hafi ást á því listformi sem hann fjallar um. Hið fyrra hygg ég að sé ekki mjög umdeilanlegt; að gagnrýnandinn geti miðlað greiningu sinni og rökstuddu mati á viðkomandi verki á frambærilegri íslensku og þannig að auðskilið sé. Hið síðara er kannski erfiðara að rökstyðja. En að mínu mati verður gagnrýni að byggja á ást (helst ástríðu) eða í öllu falli á velvild í garð viðkomandi listgreinar. Ást, ástríða, velvild, ef einhver skilur þessi orð mín þannig að gagnrýni eigi undantekningarlaust að vera jákvæð, byggð á hrifningu og upphafningu, er það misskilningur. Að hafa ást á einhverjum eða einhverju felur í sér að sjá bæði kosti og galla - og geta bent á hvoru tveggja. Og umfram allt má ekki rugla saman ástinni á listinni og ástinni á listamönnunum; gagnrýnandinn ætti helst að vera gjörsneyddur hinu síðarnefnda.
Er gagnrýnandinn svín? En snúum okkur aftur að ofannefndum orðum Albees um gagnrýnandann sem svín. Í því sambandi má minna á aðrar en skyldar skilgreiningar á gagnrýnendum í gegnum tíðina. John Osborne líkti þeim við hunda sem míga utan í ljósastaura (og í því sambandi er vert að minna á skamman líftíma flestra ljósapera!). Oft er þeim líkt við nöðrur sem sæta færis að höggva eiturtungu sinni í höfunda og spýta í þá banvænu eitrinu. Svínslíkingin minnir mig einnig á orð eins ágæts íslensks rithöfundar þar sem hann líkti gagnrýnendum við ruslið sem hann neyðist til að klofa yfir á ferð sinni um götur New York borgar. Ég myndi snúa þeirri viðlíkingu við og benda á að svín þrífast, eins og menn vita, vel á úrgangi (rusli) og geta orðið feit og pattaraleg af slíkum kosti. Ef gagnrýnandinn er í hlutverki svínsins, lenda þá ekki bókmenntirnar í hlutverki úrgangsins? Víst er að oft þurfa gagnrýnendur að pæla í gegnum haug af „rusli“ til að finna eitthvað bitastætt. Mín vegna má vel líkja gagnrýnandanum við svín, hund eða nöðru, a.m.k. á meðan það leiðir til umræðu um starf hans og tilgang. En ég geri bara þá einu kröfu að svínið sem rótar sér í ruslinu geri það af áhuga og ástríðu, þá er til einhvers unnið. Soffía Auður Birgisdóttir Birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 18. október 1997 |
