SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir11. september 2017

LÍFIÐ, LEITIN, LISTIN. Svava Jakobsdóttir 1930-2004.

 

 

Þegar litið er yfir höfundarverk Svövu Jakobsdóttur blasir við að hún var hvort tveggja í senn vandað skáld og skapandi fræðimaður. Og þessi tvö svið ritverka hennar eru órjúfanlega tengd og saman slungin. Fræðin vekja skáldinu hugmyndir til listrænnar úrvinnslu, skáldlegur innblástur einkennir fræðimennskuna. Á báðum sviðum var Svava meistari; skáldverk hennar brjóta blað í íslenskri bókmenntasögu bæði hvað varðar yrkisefni og aðferð; fræðigreinar hennar eru mikill fengur fyrir íslenskar bókmenntarannsóknir, þær leiftra af hugmyndaflugi um leið og þær opna nýjar víddir til nýrrar skynjunar, nýs skilnings. Svava var (eins og hún orðaði það sjálf) „haldin forvitni ... síspyrjandi hvert orð, hvert atvik: hvaðan ertu, hvert er förinni heitið og hvers leitarðu?“.[1] Hún bendir sjálf á lykilorðin „líf og leit“ til að lýsa viðhorfi sínu til skáldskaparins og teflir fram þessum hendingum úr Hávamálum: „orð mér af orði / orðs leitaði“ sem sínum einkunnarorðum.[2] Því má halda fram um skáldið Svövu Jakobsdóttur að hún hafi spurt um merkingu orða af meiri ákafa en flestir. Hún vissi að orð ber að nota af varúð, því þau geta fleytt „nánast viðstöðulaust áfram hefðbundinni hugsun“.[3] Og ef tala má um að skáldskapur Svövu eigi eitthvert sérstakt erindi framar öðru, þá felst það kannski einmitt í andófi gegn hefðbundinni hugsun. Eins og Svava lýsir svo vel í greininni „Reynsla og raunveruleiki“ þá grefst hún fyrir um rætur orðanna, reynir að uppræta merkingu sem er samgróin stöðnuðum hugsunum og hún reynir að vekja orðunum ný merkingarsvið og stuðla þannig jafnvel að breyttu viðhorfi. Þetta á reyndar bæði við stórt og smátt í höfundarverki Svövu; hún varpar nýju ljósi á einstök orð og orðatiltæki og hún túlkar upp á nýtt bókmenntir fornar og nýjar – og jafnvel heilu goðsagnakerfin.

 

Á sviði skáldskaparins er Svava Jakobsdóttir ekki einhöm, hún skrifar innan margra bókmenntaforma en kannski er smásagan það form hún lagði einna mesta rækt við allt frá byrjun. Skáldsögur hennar urðu aðeins tvær, Leigjandinn og Gunnlaðar saga, sem eru eins ólíkar og dagur og nótt en hvor um sig einstætt verk. Leikrit Svövu og leikþættir eru líklega sá þáttur höfundarverksins sem minnst hefur verið kannaður og kemur meðal annars til af því að leiktextarnir eru fæstir aðgengilegir á prenti en vonandi verður gerð á því bragarbót áður en langt um líður.[4] Ógerlegt er að festa ákveðinn merkimiða á skáldskaparaðferð Svövu, sem sést best á því hversu margir og mismunandi þeir merkimiðar hafa verið í gegnum tíðina. Það er líkast því að skilgreiningarnar nái aldrei fullkomlega utan um aðferðina. Hér á eftir verður leitast við að gefa glögga en gagnorða yfirsýn yfir ævi hennar og höfundarferil.

* * *

Svava Jakobsdóttir fæddist í Neskaupsstað 4. október 1930. Hún var önnur í röðinni af fimm börnum þeirra Þóru Einarsdóttur og séra Jakobs Jónssonar. Þegar Svava var á fimmta ári fluttist fjölskyldan til Kanada, nánar tiltekið til Wynyard í Saskatchewan þar sem séra Jakob þjónaði sem prestur fyrir Vestur-Íslendinga. Tvítyngi varð því hlutskipti barnanna sem töluðu þó aðallega ensku þótt þau skildu að sjálfsögðu íslenskuna sem foreldrarnir töluðu. Sú staðreynd að enskan var aðalmál Svövu á þessum mótunarárum bernskunnar kann að hafa haft áhrif á það hvernig hún nálgaðist íslenskuna síðar meir; á gagnrýnni hátt en flestir sem lifa og hrærast í málinu frá blautu barnsbeini. Reynslu barns sem tekst á við nýtt tungumál hefur Svava lýst á eftirminnilegan hátt í sögunni „Fyrnist yfir allt“ (Undir eldfjalli, 1989). Frammi fyrir þeirri reynslu stóð hún ekki einu sinni heldur í tvígang, því þegar fjölskyldan flutti aftur til Íslands árið 1940 og settist að í Reykjavík talaði Svava, að eigin sögn, enga íslensku. Hún lýsir því í viðtali við Dagnýju Kristjánsdóttur frá árinu 1990 hversu erfitt það reyndist henni að aðlagast aftur íslensku máli og íslenskum aðstæðum eftir árin í Kanada.[5]

Svava Jakobsdóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík um vorið 1949 og veturinn eftir lagði hún stund á heimspekileg forspjallsvísindi við Háskóla Íslands meðfram vinnu. Haustið 1950 hélt hún til náms við Smith College í Northampton, Massachusetts í Bandaríkjunum þar sem hún lagði stund á enskar og amerískar bókmenntir, ásamt fornensku og miðaldabókmenntir. Hún hlaut fullan námstyrk við skólann og lauk þaðan A.B. prófi árið 1952. Um haustið hóf Svava nám í íslenskum miðaldabókmenntum við Somerville College í Oxford á Englandi. Það mun hafa verið ætlun hennar að skrifa doktorsritgerð um íslenskar miðaldabókmenntir en hún varð hins vegar að hverfa frá námi vegna augnsjúkdóms eftir fyrsta veturinn. Síðar átti Svava þó eftir að sökkva sér ofan í rannsóknir á þessu sviði eins og bæði skáldskapur hennar og ritgerðir bera vitni um. Formlegt nám innan veggja háskóla stundaði hún hins vegar ekki aftur að frátöldum vetrinum 1965-1966 þegar hún las sænskar nútímabókmenntir við háskólann í Uppsölum.

Þann 11. júní 1955 gekk Svava að eiga Jón Hnefil Aðalsteinsson og tæplega ári síðar, 7. maí 1956, fæddist einkasonur þeirra, Jakob S. Jónsson. Á fyrstu hjúskaparárum þeirra lagði Jón Hnefill stund á trúarbragðasögu og heimspeki við háskólann í Stokkhólmi. Fjölskyldan bjó þar til ársins 1958 og á þeim tíma starfaði Svava fyrir íslenska utanríkisráðuneytið. Jón Hnefill lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1960 og gegndi hann stöðu sóknarprests á Eskifirði á árunum 1961-1964 og starfaði Svava þar meðal annars við unglingakennslu. Árið 1965 fluttu þau aftur til Svíþjóðar, nánar tiltekið til Uppsala þar sem Jón Hnefill lagði stund á þjóðfræðinám og Svava las sænskar nútímabókmenntir, eins og áður er getið, en þetta sama ár birtist fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Tólf konur.

 

Með Tólf konum og næstu bók, smásagnasafninu Veizlu undir grjótvegg (1967), skipaði Svava sér strax í framvarðasveit íslenskra samtímaskálda. Sögur hennar vöktu mikla athygli enda frásagnaraðferðin nýstárleg og viðfangsefnið hitti í mark á tímum vaknandi vitundar kvenna um stöðu sína innan og utan veggja heimilsins. Dagný Kristjánsdóttir hefur orðað það þannig að með sögum Svövu komi nýtt viðfangsefni og ný viðhorf inn í íslenskar bókmenntir[6] og Ólafur Jónsson gagnrýnandi fagnaði harla síðbúinni komu nútímakonunnar inn í íslenskar nútíðar-bókmenntir.[7] Viðfangsefni Svövu í þessum fyrstu smásagnasöfnum varðaði hversdagslíf kvenna og barna; mjög oft líf eiginkvenna og heimavinnandi húsmæðra sem áttu erfitt með að finna lífsgleðina innan veggja heimilisins þótt allt væri þar skínandi fínt og enginn skortur á efnislegum gæðum. Þótt hlutskipti kvenpersónanna hafi vitaskuld verið í brennidepli í sögum Svövu – sem og í umræðunni um þær – má ekki gleyma því að hún skrifar líka um hlutskipti ungra eiginmanna sem þjást engu að síður í því hlutverki sem þeim var ætlað; að vinna þrotlaust fyrir dýrum húsmunum, parketi, flísum og grjótvegg úr ekta íslensku grjóti, helst austfirsku. Grjótveggurinn stendur síðan sem margrætt tákn í verkum Svövu. Á yfirborðinu er hann er stöðu- og virðingartákn en um leið er hann er tákn um neysluhyggju og ófrelsi, auk þess sem hann er tákn fyrir aðskilnað kynjanna. Síðast en ekki síst er hann tákn fyrir firrt líf þar sem náttúrugrjóti er þröngvað í skipulagt form innan steinsteyptra veggja í stað þess að íbúarnir reyni að njóta þess í sínu náttúrlega umhverfi.[8] Á þeim tíma sem Svava Jakobsdóttir skrifar þessar smásögur á sér stað mikil sprenging í húsbyggingum í Reykjavík og í mörgum tilvikum voru það fjölskyldurnar sjálfar sem stóðu í öllum framkvæmdum, sem setti vitaskuld mikið mark sitt á allt líf þeirra. Í viðtali við Fríðu Á Sigurðardóttur árið 1970 lýsir Svava því hvernig „einmitt þessi þáttur [fór] að leita á [hana] í ríkari mæli sem örlagavaldur og tákn þess lífs, sem við lifum í dag. Það hvernig húsið, heimilið, var orðið að sáluhjálparatriði, sem hefur það svo í för með sér, að konan festist æ meira í sínu hefðbundna hlutverki. Konan er eiginlega grafin í húsinu. Hún verður tákn hússins og þjónustar við eldavélina eins og æðsti prestur fyrir altari.“[9] Tæpum þrjátíu árum síðar, í viðtali við Gerði Kristnýju árið 1998, talar Svava aftur um þá kvöð sem lá á ungu fólki á Íslandi á 7. áratugnum, að byggja sér hús, og líkir henni við herskyldu.[10]

Þessi tákn útfærir Svava síðan til fullnustu í fyrstu skáldsögu sinni, Leigjandanum (1969) auk þess sem hún eykur þeim merkingu með því að reyna að endurskapa í textanum það andrúmsloft sem hún lýsir sem „sálsýki kalda stríðsins“.[11] Leigjandann má lesa meðal annars sem táknsögu um sambúð íslensku þjóðarinnar og bandaríska hersins á Miðnesheiði, eins og flestir kusu að gera á útgáfutíma verksins, en söguna má einnig lesa út frá öðru sjónarhorni; til dæmis sem viðvörun gegn efnishyggju og hefðbundnu hjónabandi; það má skilja hana sem lýsingu á ofsóknarkennd eða sem greiningu á því hvernig óttinn við ókunnuga getur leitt til einangrunar og sálsýki.[12] Einnig má túlka söguna í kristnu samhengi enda eru trúarleg tákn hluti af myndmáli verksins, líkt og gildir reyndar um flest skáldverk Svövu Jakobsdóttur. Í sögulok steinrennur handleggur húsmóðurinnar þegar hún ætlar að opna fyrir ókunna manninum sem knúið hefur dyra klukkan sex á aðfangadagskvöld og má sjá í þessari lokamynd sögunnar andstæðurnar efni (steinrunninn líkami) og anda (ókunni maðurinn sem tákn fyrir Krist). Lesandinn situr þá eftir með þá spurningu hvort efnishyggjan sé orðin svo ríkjandi þáttur af tilvist Íslendinga að þar sé ekki lengur rúm fyrir andlegt líf. Líklega á sá boðskapur ekki síður erindi á okkar dögum en á útgáfutíma verksins. Leigjandinn var tilnefndur af hálfu Íslands til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í tvígang, árin 1971 og 1972.

 

Ári eftir að Svava sendi frá sér Leigjandann var fyrsta leikrit hennar sett á svið í Reykjavík. Það var leikfélagið Gríma sem sviðsetti Hvað er í blýhólknum? Strax með þessu fyrsta leikverki Svövu varð ljóst að mikils mátti vænta frá henni á þessum vettvangi ekki síður en í sagnagerðinni. Leikritið vakti mikla athygli og var sýnt í Ríkisjónvarpinu árið 1971. Árni Ibsen segir að hér hafi kveðið „við nýjan tón og hafði ekki áður í íslenskum leikskáldskap verið fjallað jafn eindregið um þjóðfélagslega stöðu kvenna.“[13] Líkt og í mörgum sögum Svövu eru hér hjón í aðalhlutverkum og andstæðurnar karl og kona, úti (á vinnumarkaði) og inni (á heimilinu), liggja til grundvallar orðræðu sem er mjög fyndin um leið og háðið og hin undirliggjandi alvara fer ekki fram hjá neinum. Í þessu sambandi má vísa til eftirminnilegs samtals úr leikritinu þar sem karlmaðurinn talar um hvað hann þurfi að gera til eflingar fyrirtæki sínu en konan talar um vanda þess að skreyta lagskipta tertu:

 

 

INGÓLFUR: Ég geri stórfelldar áætlanir fram í tímann.
INGA: Ég skúra, skrúbba og baka tertur.
INGÓLFUR: Ég hef reiknað út, að ég geti sparað þjóðinni 10 milljónir af   gjaldeyri á ári.
INGA: Ég hef reiknað út að lögin geta orðið fjögur.
INGÓLFUR: [Lítur spyrjandi á hana.]
INGA: [Til skýringar.] á tertunni.
INGÓLFUR: Ég tel, að við ættum að geta aflað íslenzkum snyrtivörum markaða erlendis.
INGA: Ég tel að neðst eigi að vera öskulag.
INGÓLFUR: [Lítur undrandi á hana.]
INGA: Ég meina möndlulag ...
INGÓLFUR: Að minnsta kosti í Evrópu.
INGA: Þar næst svampur.
INGÓLFUR: Jafnvel í Ameríku.
INGA: Og svo marsípan.
INGÓLFUR: Eftir fimm ár ætti ég að vera kominn á toppinn.
INGA: Og efst er svo marengs.“
INGÓLFUR: Hvað – voðalega eyðirðu af peningum. Hvað kostar þessi terta eiginlega?
INGA: Heilt líf, Ingólfur minn, heilt líf.[14]

 

Samtal hjónanna er byggt upp á hliðstæðum sem um leið eru andstæður og draga fram vanda fyrirfram gefinna kynhlutverka sem íþyngja báðum aðilum hjónabandsins þótt á ólíkan hátt sé.

Þótt ritstörf væru vafalaust sú iðja sem átti hug og hjarta Svövu Jakobsdóttur var hún einnig virk á sviði félags- og stjórnmála auk þess sem hún starfaði um tíma við blaðamennsku sem og við dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið. Hún átti sæti í stjórn Rithöfundafélags Íslands á árunum 1968-71 og í Rithöfundaráði sat hún 1978-80 og síðar í stjórn Leikskáldafélags Íslands á árunum 1986-90. Árið 1971 var Svava kjörin á Alþingi Íslendinga fyrir Alþýðubandalagið og sat hún á þingi allt til ársloka 1979. Sem þingmaður beitti hún sér fyrir ýmsum félags- og menningarmálum og fyrir því að bæta kjör rithöfunda; hún átti meðal annars sæti í nefnd sem samdi frumvarp til laga um Launasjóð rithöfunda sem var formlega stofnaður árið 1975. Meðan Svava sinnti þingmennsku sendi hún ekki frá sér bækur en hins vegar birti hún stakar smásögur[15] og tvö ný leikrit eftir hana voru frumsýnd á tímabilinu.[16]

Eftir að Svava Jakobsdóttir lét af þingmennsku sneri hún sér alfarið að ritstörfunum. Árið 1980 var frumflutt eftir hana útvarpsleikritið Í takt við tímana; þriðja smásagnasafnið, Gefið hvort öðru..., kom út 1982 og árið eftir var leikritið Lokaæfing frumsýnt í Þórshöfn í Færeyjum og síðan sýnt í Þjóðleikhúsinu við mjög góðar undirtektir. Segja má að í Lokaæfingu komi einna greinilegastar fram þær andstæður sem haldið hefur verið fram að liggi sem rauður þráður gegnum allt höfundarverk Svövu: Frelsi og öryggi.[17] Í leikritinu má einnig sjá koma saman á einum stað flest þau þemu sem Svava vinnur með í sínum fyrri verkum og að mörgu leyti tekur hún þau hér fram á ystu brún. Í verkinu kynnumst við verkfræðingi sem hefur byggt rammgert kjarnorkubyrgi í kjallara húss síns, fyllt það vistum til nokkurra vikna dvalar og krefst þess af konu sinni að þau haldi „lokaæfingu“ í byrginu til að vera fullkomlega búin undir það versta. Með öðrum orðum þá læsa hjónin sig inni til að vera „örugg“ fyrir ímynduðum óvini og eins og við er að búast endar „æfingin“ með skelfingu. Árni Ibsen nær vel að lýsa stíl Svövu sem leikskálds þegar hann skrifar: „Svava er satíruskáld og vitsmunaskáld líkt og Guðmundur Kamban, verk hennar eru oft allegoríur í raunsæisumgerð sem er ætlað að benda á þjóðfélagsmein eða siðferðisvanda. Dramatísk greining hennar á efninu er jafnan óvægin, en rökföst atburðarásin gjarnan látin sýna í hve miklar ógöngur nútíma lífsstíll og hefðbundin hlutverkaskipting kynjanna leiðir okkur.“[18] Þessi orð mætti einnig heimfæra upp á sögur Svövu ekki síður en leikritin. Segja má að með Lokaæfingu hafi Svava Jakobsdóttir lokið ákveðnu skeiði á höfundarferli sínum því frá og með næsta verki, Gunnlaðar sögu, má merkja afgerandi breytingu á skáldskap hennar, breytingu sem varðar bæði efnisval og efnistök og ekki síst stíl.

 

Gunnlaðar saga hefst eins og flestar sögur Svövu Jakobsdóttur með frásögn sem er á yfirborðinu raunsæisleg en fljótlega kemur í ljós – líkt og í mörgum fleiri sögum þessa höfundar – að engin venjuleg raunsæisskilgreining nær utan um þann skáldskap sem hér er á ferðinni. Fyrr en varir hverfist frásögnin yfir í fantasíu og hin tvö snið bókarinnar, raunsæið og fantasían, falla listilega saman í skáldsögu sem spyr ágengra spurninga um siðferðileg gildi í nútíma samfélagi. Líkt og oft áður varða spurningar Svövu að sjálfsögðu mannleg samskipti en hér er þó ekki síður spurt um virðingu okkar fyrir umhverfinu og náttúrunni, og síðast en ekki síst er fólginn í verkinu kröftugur friðarboðskapur. Eins og Svava gerir vandlega grein fyrir í ritgerðinni „Gunnlöð og hinn dýri mjöður“[19] byggir hún verkið að stórum hluta á rannsóknum sínum og endurtúlkun á nokkrum erindum Hávamála þar sem lýst er samskiptum Gunnlaðar og Óðins. Í stað hinnar hefðbundnu túlkunnar Snorra Sturlusonar í Snorra-Eddu, sem telur að í viðkomandi erindum sé lýst hvernig Óðinn dregur jötnadótturina á tálar og rænir síðan frá henni skáldamiðnum, telur Svava að erindin lýsi konungsvígslu þar sem Gunnlöð er í hlutverki hofgyðju. Samkvæmt Svövu þá vígir hofgyðjan konungsefnið til embættis síns með heilögum armlögum og gefur honum að dreypa á miði úr gullnu keri sem er tákn gyðjunnar sem er handhafi hins æðsta valds í þeim goðsögulega heimi sem þarna er lýst.

Konungsvígslan og svik Óðins í kjölfarið sem felast í því að hann kemur með vopn úr járni inn í dyngju gyðjunnar og rænir sjálfu gullkerinu – valdatákninu – myndar annan meginþráð Gunnlaðar sögu. Hinn meginþráðurinn tilheyrir hins vegar nútímasviði bókarinnar og segir frá miðaldra íslenskri konu sem er að reyna að skilja hvað komið hefur fyrir dóttur hennar. Dóttirin, Dís, situr í fangelsi í Kaupmannahöfn sökuð um að hafa ætlað að stela dýrmætu gullkeri af forngripasafni í Danmörku. En Dís neitar sök; hún var ekki að stela neinu, staðhæfir hún, heldur var hún aðeins að endurheimta það sem Óðinn stal frá henni/Gunnlöðu í árdaga. Laganna verðir eru þess fullvissir að Dís sé annað tveggja hryðjuverkamaður eða veik á geði og framan af er móðir hennar sama sinnis. Á þá síðarnefndu renna þó tvær grímur þegar hún sér hversu yfirveguð, róleg og samkvæm sjálfri sér dóttir hennar er. Hún fer að hlusta á og reyna að skilja sögu Dísar og meðtaka þann sannleika sem í henni er fólginn. Dís staðhæfir að þegar hún stóð fyrir framan gullkerið á forngripasafninu hafi tími og rúm þurrkast út og hún sjálf runnið saman við hofgyðjuna Gunnlöðu og lifað lífi hennar á forsögulegum tíma. Hún hefur því reynt á eigin skinni svik Óðins og séð ægilegar afleiðar þeirra um veröld alla.

Einum þræði er Gunnlaðar saga þroskasaga móðurinnar og það er í gegnum skynjun hennar sem lesendur bókarinnar upplifa atburði bókarinnar enda er verkið skrifað í fyrstu persónu frásögn hennar. „Hver var þessi Gunnlöð?“ er spurningin sem móðirin leitar svara við í þeim tilgangi að skilja betur sögu dóttur sinnar. Um leið er hún að sjálfsögðu að spyrja hver Dís sé, þessi einkadóttir hennar sem hún hefur ekki átt í góðu sambandi við síðan Dís komst á unglingsaldur. Leitin að svari við spurningu móðurinnar er leiðarhnoð frásagnarinnar og leiðir hana á ýmsar óvæntar slóðir en það er þó andlega ferðalagið sem mestu máli skiptir.

Eins og áður var sagt þá setur Svava Jakobsdóttir umhverfis- og friðarmál í brennidepil í Gunnlaðar sögu. Glæpur Óðins er ekki aðeins fólginn í að stela kerinu frá Gunnlöðu, heldur kemur hann einnig með vopn úr óhreinum málmi – járni – inn í heim gyðjunnar og gengur þannig í berhögg við lögmál hennar. Enginn konungur getur ríkt farsællega nema í sátt við gyðjuna en Óðinn telur hermenn sína á það að yfirgefa gyðjuna og trúa á sig í hennar stað. Hann lofar þeim „eilífum orrustum og að þeir mættu vakna til nýrrar orrustu þótt þeir féllu í val þessarar veraldar“. Óðinn lætur dýrka sig sem stríðsgoð en jörðin og mennirnir gjalda svika hans:

  

Hann hvatti til bardaga og landvinninga og vötnin fylltust af fórnum til hergoðsins. Jörðin er flakandi í sárum, mýrar grófu menn upp og rifu hold hennar í græðgi sinni eftir járni og smíðuðu úr því vopn. Bræður börðust. Menn bárust á banaspjót.

  Og gyðjunni gleymdu þeir, vanvirtu hana og smánuðu. Illan galdur nefndu þeir helgiljóð hennar og meinuðu hana mönnum. Skáldin urðu bekkskrautuðir konunga.[20]

 

Gullkerið sem Dís/Gunnlöð hefur endurheimt er í samhengi sögunnar sjálft lífstáknið og velferð jarðarinnar og alls mannkyns er undir því komið að ná kerinu aftur frá Óðni og stríðsmönnum hans. Móðirin skilur þetta að lokum og bregst við samkvæmt sannfæringu sinni og þeim nýja lífsskilningi sem dóttir hennar hefur fært henni. Sagan endar með upphafi á nýrri sköpunarsögu: „Og þá . . . Já, tvö tré á ströndu.“ Má skilja þau lokaorð sem brýningu höfundar til lesenda sinna og um leið fela þau í sér von um að mannkynið snúi við á þeirri heljarreið sem það virðist vera á um þessar mundir.

 

Undir eldfjalli var fjórða og síðasta smásagnasafnið sem Svava Jakobsdóttir sendi frá sér, en það kom út árið 1989. Safnið samanstendur af sex sögum sem stíllega eru skyldari Gunnlaðar sögu en fyrri smásögum höfundar. Hér er það ljóðrænan sem setur einna sterkastan svip á textann en furðan hefur aftur á móti vikið til hliðar. Tvennt má nefna sem er einkar athyglisverðast við þessar sögur. Í fyrsta lagi má segja að sögupersónurnar hafi losnað af klafa „öryggisins“ sem var í eldri sögunum tákngert með steinsteyptu húsi eins og rætt var hér að framan. Í þessu sambandi vísa ég til titilsögu bókarinnar, „Undir eldfjalli“ þar sem eldri hjón stunda landnám og gróðurrækt við rætur eldfjalls. Þau virðast vera frjáls og lifa í sátt við náttúruna enda vísa nöfn beggja, Loftur og Gerður, til náttúrunnar. Sagan myndar skemmtilega mótmynd við hið ófrjálsa, innilokaða unga hjónafólk sem Svava lýsti í mörgum af eldri sögunum. Í öðru lagi er athyglisvert að sjá hversu markvisst Svava vinnur með hefðina í þessum sögum; bæði með íslenska þjóðsagnahefð („Saga bróður míns“) og með kristna hefð („Pálmasunnudagsganga“) og gjarnan blandast þetta tvennt í einni og sömu sögunni („Saga bróður míns“). Reyndar eru kristin minni og kristið myndmál einn af þeim þáttum í skáldskap Svövu Jakobsdóttur sem liggur enn svo að segja órannsakaður þótt hann sé að finna í öllu höfundarverkinu allt frá byrjun.[21] Ég hef áður bent á að sameiginlegt stef í öllum sögunum í Undir eldfjalli er ferðalagið[22] og kannski er það eitt af aðalstefjum skáldskapar Svövu þegar yfir heildina er litið – ferðalag í tíma og í rúmi – og tengist það leitinni sem Svava bendir á sem eitt af sínum lykilorðum, eins og minnst var á hér í upphafi.

Á síðastliðnum áratug sinnti Svava Jakobsdóttir fræðistörfum af mikilli elju og má sjá afrakstur þeirra í síðustu bókinni sem hún sendi frá sér, ritgerðasafninu Skyggnst á bak við ský sem kom út árið 1999. Þar birtir Svava þrjár viðamiklar ritgerðir um skáldskap Jónasar Hallgrímssonar auk fyrrnefndrar ritgerðar um Gunnlöðu og hinn dýra mjöð. Í ritgerðunum þremur um Jónas má segja að Svava skyggnist yfir landamæri, rýni djúpt og upp til hæstu hæða eða, svo vísað sé til myndhverfingar bókartitilsins, á bak við ský. Ef skilgreina ætti aðferðarfræði Svövu má kannski segja að í greiningu hennar mætist nærlestur texta, í anda nýrýni og formgerðarstefnu, og samanburðarrannsókn þar sem hugað er að fyrirmyndum og áhrifavöldum úr heimi bókmennta, trúarkenninga og heimspeki. En aðall greinanna er hinn innlifaði og einbeitti lestur Svövu. Hún sýnir fram á hvernig tákn í ljóðum Jónasar tengjast bæði kristnum hugmynda- og táknkerfum sem og náttúruheimspeki og náttúruvísindum á nítjándu öld. Ég held að óhætt sér að fullyrða að hvergi hafi verið betur dregin fram skáldleg samþættun Jónasar á vísindahyggju og guðstrú en í ítarlegri greiningu Svövu á Ferðalokum í lengstu ritgerð bókarinnar „Skáldið og ástarstjarnan“. Þar sýnir hún jafnframt fram á hvernig Jónas vinnur út frá hinum forna bókmenntaarfi við listsköpunina og hvernig hann setur fram sín skáldskaparmál. Svava sökkvir sér niður í ljóðið og skoðar hvert einasta orð, mögulega táknmerkingu þess og samhengi við önnur orð textans. Hún glímir við ljóðmálið af fræðilegri nákvæmi, miklum lærdómi og síðast en ekki síst skáldlegu innsæi og ímyndunarafli. Fræðimaðurinn Svava Jakobsdóttir er óhrædd við að leyfa eigin reynslu, hugarflugi og ímyndunarafli að innblása greiningar sínar engu síður en skáldið skáldskaparlistina, en mál sitt styður hún ætíð á sannfærandi hátt með fræðilegum tilvísunum sem renna stoðum undir túlkanirnar. Svava setur einnig fram róttæka kenningu um að í ljóðum Jónasar megi finna skáldskaparfræði fyrir nýjan tíma. Ef til vill má segja það sama um hennar eigin verk, að í þeim megi greina vísi að nýrri skáldskaparfræði fyrir enn nýrri tíma. Það verður mikið og spennandi verk fyrir komandi kynslóðir að lesa, meðtaka og túlka verk Svövu Jakobsdóttur sem lést þann 21. febrúar árið 2004.

 

Greinin birtist í Kona með spegill. Svava Jakobsdóttir og verk hennar. Ritstjóri Ármann Jakobsson. Reykjavík: JPV útgáfa, 2005.

 

[1] Svava Jakobsdóttir. „Skáldskapur sem líf og leit.“ www.bokmenntir.is / Svava Jakobsdóttir / Frá höfundi (skrifað 2001).
[2] Sama stað.
[3] Svava Jakobsdóttir. „Reynsla og raunveruleiki. Nokkrir þankar kvenrithöfundar.“ Sjá bls. XX
[4] Einungis tvö leikrit Svövu hafa komið út á bók, Lokaæfing (Iðunn 1983) og Hvað er í blýhólknum? (Skrudda 2004).
[5] Dagný Kristjánsdóttir. „Hvert einasta orð er mikilvægt.“ Sjá bls. XX
[6] Dagný Kristjánsdóttir. Frelsi og öryggi. Um sögur Svövu Jakobsdóttur og íslenska kvennahreyfingu. Rannsóknarstofnun í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, Reykjavík 1978, bls. 81.
[7] Ólafur Jónsson. „Okkar heimur, okkar líf.“ Líka líf. Reykjavík 1979, bls. 67.
[8] Umfjöllun um táknlega merkingu grjótsins í sögum Svövu má meðal annars sjá í : Soffía Auður Birgisdóttir. „Veggur úr grjóti – varða úr orðum.“ Formáli að Stórbók Svövu Jakobsdóttur. Forlagið, Reykjavík 1994, og Ástráður Eysteinsson. „Að eiga sér stað: Tómarúm, staður og steinn í sögum Svövu Jakobsdóttur.“ Andvari 126. árg. 2001.
[9] Fríða Á. Sigurðardóttir. „Rithöfundakynning.“ Viðal við Svövu Jakobsdóttur. Sjá bls. XX
[10] Gerður Kristný. „Grasaferð að læknisráði.“ Sjá bls. XX
[11] Sama stað, bls. XX
[12] Sjá túlkun Péturs Más Ólafssonar. „Maður er svo öryggislaus – um Leigjandann eftir Svövu Jakobsdóttur.“ Tímarit Máls og menningar 3. hefti 1995.
[13] Sjá umfjöllun Árna Ibsen um leikrit Svövu Jakobsdóttur á www.leikskald.is
[14] Svava Jakobsdóttir. Hvað er í blýhólknum? Íslensk úrvalsleikrit 1. Skrudda 2003, bls. 31.
[15] Sagan „Kona, naut og barn“ birtist í safnritinu Draumur um veruleika (ritstjóri Helga Kress) árið 1977 (birtist síðar undir nafninu „Tiltekt“ í Gefið hvort öðru... .) og „Í draumi manns“ birtist í Vikunni 19. júní 1976.
[16] Þjóðleikhúsið frumsýndi Friðsæla veröld árið 1974 og Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi Æskuvini 1976.
[17] Sbr. fyrrnefndur titill bókar Dagnýjar Kristjánsdóttur (aftanmálsgrein nr. 6).
[18] Árni Ibsen, www.leikskald.is .
[19] Ritgerðin birtist fyrst í Skírni, hausthefti 1988, en síðan í ritgerðasafni Svövu Skyggnst á bak við ský, 1999.
[20] Gunnlaðar saga 1987: 187
[21] Ástráður Eysteinsson vill t.a.m. sjá vísun til hinna tólf lærisveina í titli fyrstu bókar Svövu. Sjá formálann: „At Home and Abroad. Reflections on Svava Jakobsdóttir´s Fiction.“ The Lodger and other stories. Háskólaútgáfan 2000.
[22] Sjá „Veggur úr grjóti – varða úr orðum“ 1994.
 

 

Tengt efni