SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 9. desember 2018

EKKERT „BARA“ VIÐ BARNA- OG UNGLINGABÆKUR

Viðhorfið til barna- og unglingabóka

Nokkuð hefur verið rætt um gildi barnabókmennta og áhrif þeirra á unga lesendur. Þar ber hæst umfjöllun um bók Birgittu Haukdal og sú staðalímynd sem dregin er upp í Lára fer til læknis. Í því samhengi hefur ennfremur verið fjallað um almennt viðhorf til barna- og unglingabókmennta og bent meðal annars og réttilega á að þessum bókaflokki sé gert mun lægra undir höfði heldur en þeim sem ætlaður er fullorðnum. Benda má til dæmis á grein Margrétar Tryggvadóttur, Vælt yfir barnabók, en þar tíundar hún meðal annars mikilvægi barnabókmennta: „Ábyrgð þess sem fær að tala við börn milli­liða­laust – kenna þeim, sýna þeim, fræða þau, kæta þau og græta, er mik­il. Það er ekki sjálf­gefið að fá slík tæki­færi og í því felst vald til áhrifa sem eng­inn ætti að van­meta. Það er nefni­lega ekk­ert „bara“ við barna­bæk­ur.“

Viðhorfið til bóka ætlaðar börnum og ungmennum endurspeglast víða. Til dæmis var á dögunum auglýst ný bók eftir skáldkonu sem var sögð fyrsta skáldsagan hennar. Þetta var nokkuð sérkennileg fullyrðing í ljósi þess að þessi rithöfundur hefur sent frá sér þó nokkrar skáldsögur áður. Þær eru þó ekki taldar með þar sem þær eru ætlaðar ungu fólki. Þá má sjá svipað viðhorf í þeirri flokkun sem liggur til grundvallar Íslensku bókmenntaverðlaununum og Fjöruverðlaununum.

Barna- og unglingabækur teljast ekki til fagurbókmennta

Hjá Íslensku bókmenntaverðlaununum eru flokkarnir þrír tilgreindir svo: „Verðlaun eru veitt í flokki fagurbókmennta, flokki fræðibóka og flokki barna- og unglingabóka.“ Undir flokk fagurbókmennta heyra skáldsögur, smásögur og ljóð ætluð fullorðnum lesendum en barna- og unglingabókmenntir teljast ekki til fagurbókmennta og eru sér um flokk. Fjöruverðlaunin eru með svipaða flokka, þar eru veitt sérstök verðlaun fyrir fagurbókmenntir en barna- og unglingabókmenntir eru sér flokkur. Verðlaun bóksala eru einnig þessu sama marki brennd. Þar eru flokkarnir að vísu fleiri en skýr greinarmunur er gerður á skáldverkum, unglingabókum og barnabókum. Þessu er eins farið í Bókatíðindum.

Það er sérkennilegt að gera greinarmun á fagurbókmenntum annars vegar og barna- og unglingabókum hins vegar. Svonefndar fagurbókmenntir eiga það eitt sameiginlegt að vera bækur fyrir fullorðna, óháð hversu mikla fagurfræði þær hafa að geyma. Þær innihalda ekkert endilega fegurri stíl eða fleiri myndhverfingar og tákn heldur en bækurnar ætlaðar börnum og ungmennum. Bækur fyrir fullorðna eru æði misjafnar rétt eins og bækur fyrir unga fólkið. Það sama má segja um þann greinarmun sem gerður er á skáldverkum annars vegar og barna- og ungmennabókmenntum hins vegar. Hann skýtur skökku við. Síðan hvenær eru bækurnar um Randalín og Munda eða Fíusól, svo að dæmi séu tekin, ekki skáldverk?

Framlenging af hlutverki konunnar?

Það skyldi þó aldrei vera að þetta viðhorf til barna- og unglingabókmennta hafi eitthvað með það að gera að þessi iðja sé talin kvenmannsverk; eins konar framlenging af konuhlutverkinu og því óþarft að ræða það frekar eða greiða almennileg laun fyrir það, líkt og Anna Kolbrún Jensen veltir upp í grein sinni í Kvennablaðinu? Vissulega skrifa karlmenn einnig barnabækur og verða þá jafnvel enn frekar fyrir fordómum, sem fela í sér að slíkar bókmenntir séu ekki alvöru.

Lengi vel þótti það karlmannsverk að skrifa bókmenntir. Það þótti ekki prýði á kvenfólkinu að ana út á þann völlinn. Nú hefur orðið breyting á, blessunarlega, og við eigum sæg flottra kvenna sem hafa hreiðrað vel um sig á ritvellinum og hlotið lof fyrir, bæði innanlands og utan. Enn virðist þó eima eftir af gömlum og úreltum viðhorfum þegar litið er til bókmennta ætlaðar börnum og ungmennum. Til að sporna gegn þeim er einfalt, og mun eðlilegra, að flokka einfaldlega fagurbókmenntir og skáldverk eftir því hvort þau eru ætluð fullorðnum eða börnum og ungmennum.

Fagurbókmenntir fyrir börn og unglinga

Horfa má til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs en þau hafa verið veitt allt frá árinu 1962 því fagurbókmenntaverki, þ.e. ljóðlist, prósa og leikriti, sem uppfyllir ítrustu kröfur um bókmenntaleg og listræn gæði. Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan árið 2013 og eru kröfurnar nákvæmlega þær sömu. Þarna er öllum bókmenntum gert jafn hátt undir höfði. Það er mjög til fyrirmyndar.

Líkt og fyrr segir er óeðlilegt að flokkarnir tveir, sem greina að bókmenntir fyrir börn og fullorðna, feli í sér fyrirfram gefnar skoðanir um hvað teljist vera fagurbókmenntir. Það hlýtur að vera eðlilegra að hafa hlutlausari nálgun og kalla bókmenntirnar sömu nöfnum óháð aldri lesenda. Með þetta fyrir augum mætti t.d. aðgreina flokkana með því að kalla einfaldlega annan þeirra fagurbókmenntir fyrir fullorðna og hinn fagurbókmenntir fyrir börn og unglinga.

 

 

 

Tengt efni