SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn16. september 2017

SÉR TIL GAMANS, Fyrirlestur eftir Sigurrós Erlingsdóttur

 

Góðir gestir! Mér er það sönn ánægja að fá að vera hér meðal ykkar og tala um Guðrúnu frá Lundi. Í erindi mínu ætla ég að fjalla um skoðanir Guðrúnar á skáldskap, einkum sínum eigin.

Á rithöfundarferli Guðrúnar Árnadóttur frá Lundi birtust ellefu blaðaviðtöl við hana.[1] Þau komu á löngum tíma, hið fyrsta ekki fyrr en árið 1952, þegar hún var að senda frá sér sjöundu bókina. Það tók sóknarprestur hennar, séra Helgi Konráðsson, og hann skrifaði einnig grein um Guðrúnu. Síðasta viðtalið við Guðrúnu birtist stuttu fyrir andlát hennar árið 1975. Þrjú viðtalanna voru tekin í tilefni af 85 ára afmæli Guðrúnar en flest þeirra eru í tengslum við bókaútgáfu. Viðtölin ásamt grein Helga Konráðssonar eru einu prentuðu heimildirnar um viðhorf Guðrúnar til skáldskapar og ritstarfa, fyrir utan sögur hennar. Í viðtölunum er sjaldan farið ofan í saumana á umræðuefnunum en þau eru eigi að síður afar mikilvæg þegar skoða á viðhorf Guðrúnar til bókmennta og eigin ritstarfa.

Guðrún var sér meðvituð um að fordómar ríktu gagnvart ritstörfum kvenna. Það sést m.a. á viðbrögðum hennar við kerlingabókaumræðu 7. áratugarins. Í viðtali frá árinu 1967 kemur fram að vinsældir bóka hennar eru enn miklar og útgefandann þyrstir í nýjar bækur frá Guðrúnu, raunar svo mjög að stundum voru handritin sótt til hennar án þess að hún fengi tóm til að ljúka þeim. Þrátt fyrir það svarar Guðrún þannig þegar hún er spurð hvort hún sé byrjuð á nýrri bók: „Ætli það sé annars ekki komið nóg?”[2]

Guðrún var sjálfmenntaður höfundur sem starfaði fjarri vettvangi annarra rithöfunda. Verk hennar voru óháð nýjum straumum og stefnum. Hún las mikið og hreifst einkum af verkum kvenna. Þau verk voru lítils metin af bókmenntastofnuninni. Á það eflaust stóran þátt í því svari sem hún gefur þegar hún er spurð hvar hún myndi staðsetja sig í bókmenntunum. Guðrún svarar: „Hvergi náttúrlega.”[3]

Ég ætla nú að rekja lítillega kenningar franska rithöfundarins Hélène Cixous um tengsl næringar, ástar og ritstarfa en kenningar hennar veittu mér innblástur við túlkun mína á viðhorfum Guðrúnar frá Lundi til ritstarfa og skáldskapar.

Í greininni „Að setjast við skriftir” segir Hélène Cixous frá því hvernig hún byrjaði að skrifa.[4] Mikilvægur þáttur í frásögn hennar eru tengsl tungumáls og næringar en á þau leggur hún ríka áherslu. Cixous tekur sem dæmi hvernig hún hafi verið mötuð sem barn. Henni bauð við mat en þráði að heyra orð og hún kyngdi einungis fæðu væri hún töluð til þess. Hún segir að orð og sögur hafi því strax frá barnæsku verið aðalnæring hennar.

Cixous segist hafa nærst á orðum og talar um mjólk orða. Lestur sé henni næring og hún leggur áherslu á mikilvægi þess að menn lesi bókmenntir. Hún segist geta lesið sömu bækurnar aftur og aftur, frá nýju sjónarhorni í hvert sinn. Það telur hún sýna að ritmál sé ótakmarkað og ótæmandi.

Lestur er leikur og leiðin til sköpunar með lestri er greiðfær hverjum sem kann að lesa og getur nálgast bækur. Við skriftir rétt eins og við lestur skapa menn með tungumálinu. Leiðin að skriftunum er þó ógreið og vörðuð mörgum og margvíslegum farartálmum.

Þótt Cixous læsi mikið og skapaði á þann hátt lá engan veginn beint við að hún færi að skrifa. Menningin sýndi henni að ritstörf væru fyrir fáeina útvalda. Konur voru ekki í þeim hópi. Cixous segir að sig hafi skort sjálfstraust til að skilgreina hver hún væri. Hún hafi helst getað skilgreint sig út frá því sem hún var ekki.[5] Hún segist hafa álitið að skáld þyrftu að hafa ákveðinn tilgang með skrifum sínum en hún hafði engan tilgang. Hún átti einungis innra með sér ákafa þrá til að skrifa.

Cixous segist hafa gert sér grein fyrir því að hún yrði að veita skriftarþrá sinni útrás og skrifa á eigin forsendum. Hún segir að þráin búi innra með henni, í líkama hennar og þar sé einnig uppspretta skriftanna. Skáldskapurinn komi djúpt innan úr líkamanum og þannig renni líkaminn og skriftirnar saman. Cixous segir að konur verði að finna hvað þeim þyki skemmtilegt. Þannig geti þeim auðnast að skilgreina sjálfar sig og löngun sína. Konur eigi að taka útgangspunkt í sjálfum sér á eigin forsendum. Skrifi þær eigi þær að gera það út frá líkama sínum, þær eigi að skrifa sjálfar sig.[6]

Cixous segir að ást sé frumskilyrði skriftanna. Kvenlíkaminn sem næri með mjólk og ást hafi í sér það sem til þurfi til að skrifa. Skriftir og ást séu elskendur og það að skrifa sé að gæla við ástina. Cixous heimfærir ýmsa eiginleika líkamans yfir á skriftir sem séu nátengdar líkamanum. Hún segir að bæði ást og texti streymi frá líkamanum og konur þekki uppsprettuna. Þær skrifi því af ást og ánægju og hún segir:

Hér er komin ástæða þess hvers vegna, hvernig, um hvern, hvað ég skrifa: Mjólk. Rík næring. Gjöfin án endurgjalds. Skriftir eru líka mjólk. Ég næri. Og eins og allir sem næra er ég endurnærð. Bros nærir mig.[7]

Textinn er, eins og móðurmjólkin, næring sem veitt er án þess að krafist sé nokkurs í staðinn. Móðirin gefur af ást og skáldkonan líka.

Cixous dregur líkamann fram sem miðpunkt og brunn höfundarins. Hún sýnir einnig að margir þættir stjórna því hvort konur vogi sér að hlusta á líkama sinn og leyfa hugsunum sínum og draumum að streyma fram. Þar veldur hefðbundið kvenhlutverk miklu.

Guðrún frá Lundi er gott dæmi um höfund sem lét ritstörf víkja fyrir hefðbundum störfum kvenna. En sá tími kom að Guðrún öðlaðist tóm og hugrekki til að skrifa og gefa út. Ánægjan sem ritstörfin veittu henni yfirvann smám saman allar torfærur. Í fyrsta viðtalinu sem birtist við Guðrúnu segir hún meðal annars: „En alltaf var þó sagan í huganum...” og „Ég gat ekki án þess verið að skrifa. Mig hafði alla ævi langað til þess ...”.[8]

Guðrún talar um að skriftirnar hafi verið henni dægradvöl eftir að fór að hægjast um við skyldustörfin. Þá hafi hún verið mikið ein og ritstörfin styttu henni stundir.[9] Þau forðuðu henni frá einsemd og leiða. Hún segir:

Ég hefði orðið vitlaus ef ég hefði ekki getað gripið pennann mér til afþreyingar þegar allir voru í síld og maðurinn að heiman við trésmíðar.[10]

Innra með Guðrúnu bjó rík þrá til að skrifa. Sú þrá dró huga hennar að söguefni og skriftum þótt ytri aðstæður ynnu lengi vel gegn ritstörfum hennar. Skriftirnar veittu Guðrúnu lífsfyllingu. Þegar hún hafði gefið út hátt á annan tug bóka sagði hún: “...mér líður hreint ekki vel, ef ég get ekki skrifað svolítið á hverjum degi.”[11] Og átta árum og átta bókum síðar er hún sama sinnis:

Mér hefur alltaf veitzt ósköp létt að skrifa. Og mér leiðist dagurinn, sem ég pára ekki eitthvað.[12]

Guðrún las eins mikið og hún átti kost á, einkum skáldsögur. Sjálf átti hún fáar bækur en fékk þær að láni í lestrarfélögum.[13] Guðrún sagðist hafa lært margt af lestri bóka [14] og hún las bækur eftir fjölmarga. Guðrún þó einkum af verkum kvenna. Hún kynntist sögum Torfhildar Hólm og höfðu þær og sú staðreynd að höfundur þeirra var kona mikil áhrif á Guðrúnu.

Sjálf tengir Guðrún Torfhildi við upphaf ritferil síns í eftirfarandi orðum:

Strax innan við fermingu fór ég að reyna að skrifa eitt og annað. Auðvitað brenndi ég það. Ég öfundaði Torfhildi Hólm og dáði hana fyrir það að geta skrifað svona bækur.[15]

Guðrún las þó ekki einungis verk annarra höfunda eins og eftirfarandi orð hennar sýna. Hún segir: „Ég get jafnvel skemmt mér við að lesa mínar eigin bækur.” [16] Og í viðtali sem tekið var við Guðrúnu á 85 ára afmæli hennar segir hún:

Ætli ég haldi ekki áfram að skrifa meðan ég hef þessa sansa, úr því ég einu sinni byrjaði á því. Ég held ég kunni ekki við mig öðru vísi en skrifa. Það getur vel verið að þetta versni hjá mér, ég veit það ekki. - Ég skrifa þetta fyrir sjálfa mig, upplifi það jafnóðum. - Og það er nú svo skrítið með mig að ég hef afskaplega gaman af að lesa sögurnar mínar aftur.[17]

Lestur eigin verka er Guðrúnu mikilvægur. Hún nýtur textans og sögurnar eru stór þáttur af henni sjálfri. Þegar Guðrún segir: „Og það er nú svo skrítið með mig að ég hef afskaplega gaman af að lesa sögurnar mínar aftur”, vísar það til orða, sem hún hefur eftir rithöfundinum Guðmundi Daníelssyni, um að hann lesi aldrei bækurnar sínar eftir að hann sé búinn að skrifa þær. Guðrún stillir sér upp sem andstæðu Guðmundar og hún efast ekki um að það sé hún sem er skrítin en Guðmundur eðlilegur.

Guðrún átti alltaf stóran lesendahóp. Hún lagði sig fram um að skrifa raunsæjar sögur sem gætu hafa gerst en á meðan hún skrifaði velti hún móttökum lesenda ekki fyrir sér. Guðrún segir:

Og allt, sem ég hef skrifað hef ég gert eins og ég sjálf ein vildi. Ég hugsa aldrei um lesandann sem slíkan, þegar ég skrifa.[18]

Aðspurð að því hvað henni finnist um að vera mest lesni höfundur landsins svarar hún að sér þyki „þó nokkur upphefð í því” og bætir við: „Mér þætti leiðinlegt ef fáir vildu lesa bækurnar mínar.”[19]

Þótt Guðrún segist skrifa fyrir sjálfa sig, af ríkri þörf og ánægju, er hún jafnframt ófeimin að viðurkenna að hún gleðjist yfir hinum fjölmörgu lesendum verka sinna og vinsældunum. Hún segir:

Ég held ég skrifi mest fyrir sjálfa mig, en auðvitað þykir mér vænt um hve bókum mínum er vel tekið og fólk les þær vel.[20]

Guðrún skrifar sjálfri sér til dægradvalar og ánægju. Það eykur á gleðina ef lesendur njóta bóka hennar. Það kemur fram í viðtölum við Guðrúnu að hana langar alveg frá byrjun að fá bækur sínar útgefnar. Hún nýtur ritstarfa en þau ein og sér eru aðeins hluti ánægjunnar. Fullkomnum ánægjunnar er að sjá bækur sínar á prenti eins og kemur vel fram þar sem Guðrún talar um Torfhildi Hólm. Hún segist öfunda hana af því að hafa fengið „prentaða eftir sig bók”.[21] Guðrún vill að sköpun hennar öðlist tilveru meðal lesenda og endurfæðist í lestri þeirra.

Guðrún skrifaði ekkert í um hálfan annan áratug. Hún gerði sér ljóst að hlutverk hennar sem eiginkonu, móður og húsmóður í sveit veitti ekkert tóm til ritstarfa. Hún hætti því að skrifa þótt það væri erfitt og hún hefði ríka þörf fyrir það. Löngunin var alltaf til staðar og kraumaði undir niðri og rúmlega hálfri öld síðar lætur Guðrún eftirfarandi orð falla í viðtölum: „Ég skrifaði svolítið sem unglingur og oft brauzt það í mér síðan ...”[22] og „Þetta sótti fast á mig og varð mér nautn.”[23]

Þegar Guðrún byrjaði aftur var það í litlum mæli, einungis þegar tóm gafst án þess að það bitnaði á skyldustörfunum. Hún var þá húsfreyja á Mallandi og skrifaði í laumi án þess að heimilisfólkið vissi af skriftunum. Í fyrstu skrifaði hún til dæmis hugmyndir sínar á blað á meðan hún eldaði.[24] Hér tengjast ritstörf og næring. Um leið og Guðrún eldar handa heimilisfólki sínu skrifar hún handa lesendum. Hún býr til næringu á tveim sviðum samtímis, matreiðir bæði andlega og líkamlega næringu.

Þegar Guðrún ræðir um þann tíma er hún hóf að skrifa að nýju talar hún um að ritstörfin hafi freistað hennar og hún hafi stolist í þau. Þegar hún gefur út fyrstu bækur sínar veit hún að hún er að fara langt út fyrir hefðbundið verksvið sitt. Hún er sextug, óskólagengin og sveitakona. Hún reynir að breiða yfir framhleypni sína svo ekki verði hægt að saka hana um að setja sig á háan hest. Einnig afsakar hún ritstörf sín með því að leggja áherslu á að sögurnar skrifi hún fyrir sjálfa sig. En hinn stóri lesendahópur Guðrúnar afsannar það að sögurnar séu bara fyrir hana sjálfa. Eftir að hafa gefið út yfir fimmtán bækur grípur hún til þeirrar afsökunar að segjast skrifa af gömlum vana. Hún talar oftast um ritstörf sín sem eitthvað lítilfjörlegt s.s. klór, pár og vitleysu. Bókum sínum stillir hún upp sem ómerkilegum miðað við bækur annarra merkilegri höfunda sem þykja nógu merkilegar til að hægt sé að skrifa um þær „hólklausur”.[25] En um leið slær hún varnagla. Guðrún er engan veginn sannfærð um að bækur hennar séu svo ómerkilegar sem blaðadómar láta skína í. Í viðtali frá 1972 notar Guðrún orðalag eins og ætli, kannski, getur verið og býst við þar sem hún talar um að sögurnar versni eða séu orðnar nógu margar eða of líkar. Hún segir meðal annars:

En ég býst við, að bækurnar mínar fari að verða nokkuð líkar hver annarri. Ég veit ekki. Það á þá eftir að koma í ljós.[26]

Guðrún hefur þrátt fyrir alla dóma trú á sögum sínum. Hún veit að í hinum stóra lesendahópi er fólk á öllum aldri. Í dæminu hér að ofan ætlar hún greinilega að láta tímann leiða í ljós hvort gagnrýnin sé réttmæt, samanber lokaorðin: „Það á þá eftir að koma í ljós.” Guðrún mótmælir ekki beinlínis neikvæðri umfjöllun um bækur sínar en hún hagar orðum sínum þannig að ljóst er að hún samþykkir hana ekki heldur.

Í greininni „Að setjast við skriftir” talar Cixous um kraft sem þvingi konur til að skrifa. Þær berjist gegn honum en njóti hans jafnframt.[27] Cixous dregur upp nauðgunarmynd þegar hún talar um þennan kraft sem herji á konur. Þessa hugmynd um nauðgun má túlka þannig að þegar kona skrifi finni hún til sektar yfir því að taka sér vald yfir tungumálinu. Þessa sektarkennd losni hún einungis við ef hún geti fundið upp einhverja afsökun.[28] Það er einmitt það sem Guðrún gerir. Þótt hún njóti skriftanna afsakar hún sig. Hún reynir að fela valdið sem felst í ritstörfunum með því að tala um þau sem óveruleg og lítilfjörleg.

Guðrún þurfti gott næði til ritstarfa og vildi helst vera ein þegar hún var að skrifa. Hún segir t.d.: „...mér hefur alltaf fundizt bezt að skrifa á kvöldin, þegar allir eru sofnaðir. Þá hef ég næði og svo fer þetta í vana.”[29] Einnig segir Guðrún:

Ég verð að hafa algjört næði til þess að geta skrifað. Helzt þarf ég að vera ein í húsinu. - Ég er einhvern veginn orðin svo vön þögninni.[30]

Guðrún talar um að hún sjái sögur sínar fyrir sér þegar hún skrifar. Hún segist sjá sögupersónur sínar jafn skýrt fyrir sér og lifandi fólk og sögusviðið sjái hún einnig.[31]

Hún hverfur á vit sögunnar þegar hún er að skrifa og þess vegna er einveran og næðið svo mikilvægt, samanber eftirfarandi orð hennar um hvernig hún vinnur:

Ég gríp alltaf í þetta stund og stund, en helst má enginn vera nærri mér. Það er eins og ég fari þá inn í annan heim og sé þar hjá þessu fólki sem ég skrifa um.[32]

Í einveru og þögn skapar Guðrún. Þá flæðir texti hennar fram úr orðalausri þögninni, frá líkama hennar gegnum pennann og á pappírinn. Hún býr til sögu úr engu öðru en sjálfri sér. Sögurnar eru hennar eigin sköpun sem hún vill að vaxi og dafni. Því flæða orðin frá líkama hennar og sagan lengist og vex. Sögurnar koma frá uppsprettu innra með henni rétt eins og ástin og móðurmjólkin. Líkt og móðir nærir barn sitt með ást og mjólk skapar Guðrún sögur sínar af sjálfri sér, af ást og leyfir þeim að lengjast og lengjast.

Í viðtali árið 1972 segir Guðrún að kannski hefði hún getað haft sögur sínar styttri en bætir við:

En það er nú svona, þegar þetta verður of sterkur þáttur hugans. Það er eins og hann vilji engu sleppa.[33]

Lengd sagnanna vakti athygli. Allir sem fjölluðu um Dalalíf höfðu orð á lengd verksins. Það var þó ekki fyrr en sögum Guðrúnar fjölgaði til muna að sú skoðun varð ríkjandi, meðal þeirra sem um bókmenntir fjölluðu á opinberum vettvangi, að þær væru of langar og langdregnar.[34] Einnig er talað um að sögurnar fjalli allar um það sama eða jafnvel ekki neitt og birtast þar ríkjandi viðhorf til viðfangsefnis skáldkvenna. Ólafur Jónsson segir til dæmis um söguna Utan frá sjó:

Allténd virðist nýja sagan ein af þeim þar sem gerist svo sem ekki neitt, og svo kann að vera um fleiri í flokknum - kannski af því hvað þær eru líkar lífinu sjálfu.[35]

Guðrún skrifar sem sagt um lífið sjálft og þar gerist ekki neitt. En lífið er stöðug hringrás og þannig eru sögur Guðrúnar. Með ritstörfum sínum stígur Guðrún fram á meðal skálda. Hún verður sýnileg og þótt reynt sé að stimpla hana sem kjaftakerlingu er ekki hægt að horfa framhjá því að kerlingarbækur hennar eru á prenti.

Bókmenntastofnunin hefur yfirleitt talið skáldkonur skrifa um ómerkileg efni eða hreinlega yfirsést verk þeirra. Gegn þessu hafa skáldkonurnar oft beitt orðaflaumi eins og til dæmis má sjá á endurtekningum og löngum sögum. Hélène Cixous tengir ritstörf móðurinni og kvenlíkamanum og lítur á þau sem hringrás og endurtekningu. Í verkum hennar má sjá sömu hugmyndir og kafla aftur og aftur.[36] Endurtekningar í verkum Guðrúnar má rekja til reynslu hennar af hringrás lífsins og kvenlíkamans. Jafnframt má líta á endurtekningar og orðaflóð sem uppreisn hennar gegn ríkjandi hefð.[37]

Viðhorf Guðrúnar til skáldskapar síns og ritstarfa er athyglisvert. Hún efast greinilega um dóma bókmenntastofnunarinnar um að sögur hennar séu of langar eða líkar hver annarri. Sögur Guðrúnar voru sköpun hennar, hún naut þess að skrifa þær og lesa og skrifaði eins mikið og henni sjálfri þóknaðist. Skriftir eru henni afar mikilvægar og textinn flæðir frá henni. Engu má sleppa því lengdin og endurtekningarnar skipta máli fyrir söguna. Guðrúnu lá mikið á hjarta í bókum sínum. Jafnframt skrifaði hún langar sögur af því að þannig stíl hafði hún tamið sér. Um og eftir miðja öldina þegar flest íslensk skáld keppast við að aga formið og stytta og fága verk sín flæða sögur Guðrúnar beint frá henni sjálfri, frjálsar undan hefðinni.

 

[1] Eitt viðtalanna hefur birst oftar en einu sinni, sjá skrá yfir viðtöl við Guðrúnu.

[2] Erlingur Davíðsson: „Stutt heimsókn til Guðrúnar frá Lundi”.

[3] Freysteinn Jóhannsson: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið””.

[4] Greinin heitir „La venue à l´ècriture” á frummálinu og birtist fyrst árið 1977. Hér er vitnað til enskrar þýðingar, „Coming to Writing” frá 1991.

[5] Ragnhildur Richter bendir á að Málfríður Einarsdóttir glími við sams konar skilgreiningarvanda í sjálfsævisögum sínum. Ragnhildur tengir þennan vanda Málfríðar hugmyndum Luce Irigaray um að ríkjandi menning Vesturlanda skilgreini konu „sem skort, fjarveru, það sem ekki er og þögn”, bls. 117. Málfríður á fleira sameiginlegt með Cixous en að eiga erfitt með að skilgreina sig, t.d. lestrarástríðuna. Ragnhildur Richter: „„Þetta sem ég kalla „mig”, það er ekki til””.

[6] Ragnhildur Richter bendir á að Málfríður Einarsdóttir taki líkama sinn sem útgangspunkt í skrifum sínum, að byrjunin sé hún sjálf. Ragnhildur segir að Málfríður hafni viðtekinni merkingu hluta og hugtaka í ríkjandi menningu og sigrist þannig á reglum samfélagsins. Þannig öðlist hún frelsi til að skrifa. Sama rit.

[7] Cixous, Hélène: “Coming to Writing” and Other Essays, bls. 49, þýðing mín. Á ensku er tilvitnunin þannig: „So this is why, how, who, what, I write: milk. Strong nourishment. The gift without return. Writing, too, is milk. I nourish. And like all those who nourish, I am nourished. A smile nourishes me.”

[8] Séra Helgi Konráðsson: „Kunningjar hennar úr væntanlegum skáldsögum voru henni til skemmtunar við heimilisstörfin”.

[9] Matthías Johannesson: „Skáldkonan á Sauðárkróki”.

[10] Caroline Gunnarsson: „Skemmtileg dagstund hjá skáldkonunni frá Lundi”.

[11] Oddur Ólafsson: „Þær settu svip sinn á bókaflóðið”.

[12] Freysteinn Jóhannsson: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið””.

[13] Helgi Konráðsson: „Kunningjar hennar úr væntanlegum skáldsögum voru henni til skemmtunar við heimilisstörfin”.

[14] Matthías Johannessen: „Skáldkonan á Sauðárkróki”.

[15] Erlingur Davíðsson: „Stutt heimsókn til Guðrúnar frá Lundi”.

[16] Sami.

[17] Jón Hjartarson: „„Ég hélt þetta yrði rifið í sundur””.

[18] Freysteinn Jóhannsson: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið””.

[19] Matthías Jóhannessen: „Skáldkonan á Sauðárkróki”.

[20] Oddur Ólafsson: „Þær settu svip sinn á bókaflóðið”.

[21] Jón Hjartarson: „„Ég hélt þetta yrði rifið í sundur””.

[22] Oddur Ólafsson: „Þær settu svip sinn á bókaflóðið”.

[23] Erlingur Davíðsson: „Stutt heimsókn til Guðrúnar frá Lundi”.

[24] Helgi Konráðsson: „Guðrún Árnadóttir frá Lundi”.

[25] Ómar Valdimarsson: „Vinnur að síðustu skáldsögu sinni”.

[26] Freysteinn Jóhannsson: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið””.

[27] Cixous, Hélène: „Coming to Writing”, bls. 8-17.

[28] Moi, Toril: Sexual/Textual Politics, bls. 118.

[29] Erlingur Davíðsson: „Stutt heimsókn til Guðrúnar frá Lundi”.

[30] Jón Hjartarson: „„Ég hélt þetta yrði rifið í sundur””.

[31] Dagur Þorleifsson: „„Dalurinn minn í stækkaðri mynd””.

[32] Sama rit, bls. 36.

[33] Freysteinn Jóhannsson: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið””.

[34] Sjá t.d. Steindór Steindórsson, Nýjar kvöldvökur XLVIII, (1955); Kristmann Guðmundsson, Morgunblaðið 1957. Hér birtist sama gagnrýni og áður um sögur Torfhildar Hólm. Sjá t.d. Halldór Laxness: Í túninu heima. Og í ritdómi um Brynjólf biskup segir J.J. t.d.: „...eg er hræddur um að mönnum finnist hún heldur langdregin og leiðinleg.” Ritdómur í Þjóðólfi, bls. 65.

[35] Ólafur Jónsson: „Allt eins og það á að vera”.

[36] Sjá Moi, Toril: Sexual/Textual Politics, kaflann „Hélène Cixous: an imaginary utopia”.

[37] Einn helsti fulltrúi bókmenntastofnunarinnar á þessari öld, Sigurður Nordal, segir að þær bókmenntir verði „ ... langlífastar, er móta hið víðtækasta efni í sem þröngvast form.” Lýsing Sigurðar á samtíma sínum gæti verið lýsing á sögum Guðrúnar. Hann segir um öldina: „Hún er eins og mikil elfur, sem myndar ekki fossa, af því hún þenur sig út um flesjar og flóa.” Sigurður vill hins vegar ekki að bókmenntir líkist tuttugustu öldinni að þessu leyti. Skáldin, sem í hans huga eru öll karlar, eiga að láta hugmyndir tímans „hlíta skorðum tungu sinnar og braga” og „skýra frá dýpstu rótum þessarar aldar á orðfáu, hófsömu og karlmannlegu sögumáli.” Sigurður Nordal: „Samhengið í íslenskum bókmenntum” bls. XXXI-XXXII. Á þetta bendir Helga Kress í greininni „Bækur og „kellingabækur””, bls. 377.

 

Heimildir

 • Caroline Gunnarsson: „Skemmtileg dagstund hjá skáldkonunni frá Lundi”, Lögberg-Heimskringla 24. feb. 1972.

 • Cixous, Hélène: „Coming to Writing”, “Coming to Writing” and other Essays, útg. Deborah Jensson, Harward University Press; Cambridge, Massachusetts; London, England, 1991.

 • Dagur Þorleifsson: „Dalurinn minn í stækkaðri mynd”, Vikan 1972, 15. júní.

 • Erlingur Davíðsson: „Stutt heimsókn til Guðrúnar frá Lundi”, Tíminn 1967, jólablað II, 20. des., endurprentað í Lögbergi-Heimskringlu 22. feb. 1968, bls. 2, 3 og 5.

 • Freysteinn Jóhannsson: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið.” Afmælisrabb við Guðrúnu frá Lundi”, Morgunblaðið 1972, 3. júní.

 • Halldór Laxness: Í túninu heima, 2. útg., 2. prentun, Vaka-Helgafell 1992.

 • Helga Kress: „Bækur og „kellingabækur””, Tímarit máls og menningar, 4/1978.

 • Helgi Konráðsson: „Kunningjar hennar úr væntanlegum skáldsögum voru henni til skemmtunar við heimilisstörfin. Guðrún frá Lundi segir frá ævi sinni og ritstörfum”, Morgunblaðið 1952, 24. des.

 • Sami: „Guðrún Árnadóttir frá Lundi”, Heima er bezt, 1. tbl. 1958, bls. 4-6. Endurprentuð sem formáli að Stýfðum fjöðrum I. bindi. Birtist einnig í Lögbergi 30. okt. 1958.

 • Hólmfríður Gunnarsdóttir: „Myndir úr lífi Dalafólksins”, Lesbók Morgunblaðsins 1975, 13. júlí.

 • Jón Hjartarson: „„Ég hélt þetta yrði rifið í sundur””, Vísir 1970, 23. nóv.

 • Kristmann Guðmundsson: Morgunblaðið, 1957 19. nóv.

 • Matthías Johannessen: „Skáldkonan á Sauðárkróki: „Ég byrjaði á Dalalífi um fermingu,” segir Guðrún frá Lundi í stuttu landsímasamtali”, Morgunblaðið 1956, 21. okt.

 • Moi, Toril: Sexual/Textual Politics: Feminist Literary Theory, Methuen, London, New York, 1985.

 • Oddur Ólafsson: „Þær settu svip sinn á bókaflóðið”, Alþýðublaðið 1964, 24. des.

 • Ólafur Jónsson: „Allt eins og það á að vera”, Vísir 1973, 23.nóv.

 • Ómar Valdimarsson: „Vinnur að síðustu skáldsögu sinni: Viðtal við Guðrúnu frá Lundi, sem er 85 ára í dag”, Tíminn 1972, 3. júní.

 • Ragnhildur Richter: „Þetta sem ég kalla „mig” það er ekki til”, Fléttur, Rannsóknastofa í kvennafræðum, Háskóli Íslands, Reykjavík 1994.

 • Sigurður Nordal: „Samhengið í íslenskum bókmentum”, Íslenzk lestrarbók, Reykjavík 1931.

 • Sólveig Jónsdóttir: „„Það var svei mér gaman að vera í dalnum.” Guðrún frá Lundi enn að skrifa 83 ára að aldri”, Tíminn 1970, 16. sept.

 • Steindór Steindórsson: Nýjar kvöldvökur 1948.

 

Áður óbirtur fyrirlestur fluttur á Guðrúnarvöku, Bifröst, Sauðárkróki, 2. nóv. 1996.

Myndin af Guðrúnu er sótt á síðu DV: http://www.dv.is/media/cache/a8/b9/a8b985d799d230b9d6cc47cb208c57c6.jpg

 

Sigurrós Erlingsdóttir

 

 

 

Tengt efni