Lilja Björnsdóttir
Lilja Björnsdóttir kenndi sig gjarna við Þingeyri. Hún fæddist á Kirkjubóki á Bæjarnesi á Barðaströnd 9. apríl 1894. Foreldrar hennar voru Björn Jónsson bóndi þar og Vigdís Samúelsdóttir. Árið 1895 flutti fjölskyldan að Hrauni í Keldudal í Dýrafirði.
Lilja giftist Jóni Erlendssyni sjómanni og hófu þau búskap á Þingeyri. Þar bjuggu þau í nær þrjátíu ár. Síðan fluttu þau til Reykjavíkur og þar dó Jón árið 1948. Þau eignuðust átta börn og lifðu sex þeirra: Ingibjörg, Hreiðar, Úlfljótur, Bjarni, Jóhannes og Gíslína.
Lilja byrjaði ung að yrkja vísur og kvæði en fyrsta bók hennar kom út árið 1935 á Ísafirði. Hún kostaði sjálf útgáfuna og vegna fjárhagsörðugleika varð upplagið mjög takmarkað. Önnur bók hennar kom út 1948 og varð einnig vinsæl og loks kom sú þriðja út 1952.
Lilja andaðist á Hrafnistu 20. september árið 1971.
Heimild: Tímarit.is
Ritaskrá
- 1952 Liljublöð
- 1948 Vökudraumar: Ljóð
- 1935 Augnabliksmyndir