
Drífa Viðar
Drífa Viðar Thoroddsen fæddist í Reykjavík 5. mars árið 1920. Foreldrar hennar voru Katrín Viðar og Einars Indriðasonar Viðar. Systir Drífu var Jórunn Viðar píanóleikari og tónskáld.
Drífa lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1938 og kennaraprófi frá Kennaraskólanum ári síðar. Meðfram kennaranáminu lagði hún stund á myndlistarnám hjá Jóni Þorlákssyni og árið 1943 fór hún utan til náms; fyrst til Bandaríkjanna og síðan Parísar en þar var hún í Art Students League samtímis þeim Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur.
Drífa sneri heim til Íslands árið 1947 og giftist Skúla Thoroddsen augnlækni. Þau fluttu til Svíþjóðar og seinna aftur til Íslands. Drífa og Skúli eignuðust fjögur börn, þau Einar, Theodóru, Guðmund og Jón.
Drífa skrifaði myndlistar- og bókmenntagagnrýni í blöð og tímarit á borð við Líf og list, 19 júní og Tímarit Máls og menningar. Hún orti ljóð og sendi frá sér skáldsöguna Fjalldalslilju og smásagnasafnið Daga við vatnið. Drífa skrifaði einnig leikrit og sögur fyrir börn sem hún myndskreytti sjálf en hafa ekki komið út á bók.
Drífa Viðar lést 19. maí árið 1971, einungis 51 árs gömul, eftir að hafa átt við vanheilsu að stríða um nokkurt skeið.
Ritaskrá
- 1971 Dagar við vatnið (smásögur)
- 1967 Fjalldalslilja (skáldsaga)
- 1960 Þingvallafundurinn (ásamt fleiri höfundum)
- 1937 Norðurför 5.-bekkinga (ferðasaga)
- ?? Glöggt er augað í Helgu: gamanleikrit fyrir börn í 4 þáttum