SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Elínborg Lárusdóttir

Elínborg Lárusdóttir fæddist 12. nóvember 1891 að Tunguhálsi í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Í æsku bjó hún í torfbæ þar sem hún ólst upp við kvöldvökur þar sem kveðnar voru rímur og sagðar sögur. Á heimilinu kynntist hún íslenskum fornbókmenntum og þjóðsögum og lýsti því í blaðaviðtali að bókmenntaáhuginn á heimilinu og kvöldvökurnar hafi reynst henni drýgsta veganestið á ritvellinum.

Elínborg fór að heiman fjórtán ára gömul til náms við Kvennaskólann á Blöndósi og að því loknu kenndi hún börnum í Eyjafirði veturlangt. Árið 1912 fluttist hún til Reykjavíkur og hóf nám við Kennaraskólann en lauk ekki prófi vegna berklaveiki. Hún dvaldi á Vífilstöðum á þriðja ár vegna þeirra veikinda.

Árið 1918 giftist Elínborg séra Ingimari Jónssyni og bjuggu þau að Mosfelli í Grímsnesi í sex ár en fluttust síðan til Reykjavíkur. Þau eignuðust tvo syni.

Elínborg hóf ekki ritstörf fyrr en á fimmtugsaldri. Fyrsta bók hennar, Sögur, kom úr 1935. Þá hafði hún fengist við smásagnagerð í þrjú ár. Elínborg segir í blaðaviðtali að það hafi aldrei verið ætlun hennar að koma sögum sínum á prent en fyrir hvatningu Einars Kvarans lét hún til leiðast og skrifaði hann formálsorð að fyrstu bókinni. Fyrsta skáldsaga hennar, Anna frá Heiðarkoti, birtist ári síðar, 1936. Elínborg sendi frá sér bækur á svo til hverju ári frá útgáfu fyrstu bókarinnar þá þrjá áratugi sem hún átti eftir ólifaða.

Á árunum 1939-1940 kom út sagnabálkur Elínborgar, Förumenn, í þremur hlutum og hlýtur að teljast með merkustu verkum hennar. Í Förumönnum er sagt frá lægstu stétt manna á Íslandi, flökkurunum sem áttu hvergi heima en flökkuðu á milli bæja, algerlega upp á náð og miskunn náungans komnir með mat og húsaskjól. Ýmsar mannlýsingarnar byggir Elínborg á raunverulegum persónum sem hún kynnist sjálf í æsku eða af sögusögnum. En sagan segir einnig frá Efri-Ás ættinni sem er efnuð bændaætt. Sjónarhorn sögunnar er tvöfalt, annars vegar sjónarhorn hinna lægst settu og hins vegar sjónarhorn yfirstéttar þessa tíma. Í frásögninni af Efra-Ás ættinni er áherslan á konur. Þeim er lýst kynslóð fram af kynslóð og allar eru þær af sama bergi brotnar; stoltar, norrænar konur sem sinna skyldu sinni ofar öllu. Þær þurfa að lúta valdi karlmanna, ráða engu um gjaforð sitt og svíður undan kúguninni þótt þær standi alltaf uppréttar og sinni skyldum sínum. Kannski eru þessar konur, engu síður en förumennirnir, hin sönnu olnbogabörn frásagnarinnar.

Andstæðan sveit og borg kemur víða fyrir í skrifum Elínborgar og í aðalhlutverkum er gjarnan alþýðufólk og lýsir höfundur kjörum þeirra á samúðarríkan hátt. Það hefur löngum verið talið aðalsmerki Elínborgar Lárusdóttur sem rithöfundar að hún geri aldarfari og þjóðlífi til sveita góð skil í verkum sínum. Í afmælisgrein um Elínborgu líkir Benjamín Kristjánsson henni við norska nóbelsverðlaunahöfundinn Sigrid Undset. Benjamín kallar bækur hennar „minnisvarða yfir íslenska bændamenningu“ og telur þær höfða til alþýðu manna; enda lesi hún bækur Elínborgar af mikilli ánægju.

Dulræn málefni voru Elínborgu mjög hugleikin alla tíð og tók hún saman margar bækur um slíkt efni. Þá birtust sögur hennar og frásagnir víða í tímaritum og safnritum.

Elínborg lést 5. nóvember 1976.

 

Heimildir

  • Benjamín Kristjánsson og Hafsteinn Björnsson, afmælisgreinar í Morgunblaðinu 12. nóvember 1966.
  • Elínborg Lárusdóttir. „Hef alltaf kunnað vel við mig við skrifborðið.“ Viðtal í Morgunblaðinu 12. nóvember 1966.
  • Richard Beck. „Skáldkonan Elínborg Lárusdóttir.“ Í átthagana andinn leitar. Akureyri 1957.
  • Soffía Auður Birgisdóttir. „Skyldan og sköpunarþráin.“ Eftirmáli við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Reykjavík 1989.

 

Myndin af Elínborgu er tekin af vefnum sarpur.is


Ritaskrá

Skáldverk og ævisögur

  • 1965    Svipmyndir (smásögur)
  • 1964    Horfnar kynslóðir IV, Valt er veraldar gengið
  • 1963    Horfnar kynslóðir III, Eigi má sköpum renna
  • 1961    Horfnar kynslóðir II, Dag skal að kveldi lofa
  • 1960    Horfnar kynslóðir I, Sól í hádegisstað
  • 1958    Leikur örlaganna (smásögur)
  • 1954    Merkar konur (æviágrip 11 kvenna)
  • 1951    Anna María (skáldsaga)
  • 1950    Í faðmi sveitanna. Endurminningar Sigurjóns Gíslasonar
  • 1949    Tvennir tímar. Endurminningar Hólfríðar Hjaltason (endurútg. 2017)
  • 1947    Gömul blöð (smásögur)
  • 1947    Steingerður (skáldsaga)
  • 1945    Símon í Norðurhlíð (skáldsaga)
  • 1944    Hvíta höllin (smásögur)
  • 1943    Strandarkirkja (skáldsaga)
  • 1941    Frá liðnum árum. Endurminningar Jóns Eiríkssonar frá Högnastöðum
  • 1940    Förumenn III. Sólon Sókrates
  • 1940    Förumenn II. Efra-ás ættin
  • 1939    Förumenn I. Dimmuborgir
  • 1937    Gróður (smásögur)
  • 1936    Anna frá Heiðarkoti (skáldsaga)
  • 1935    Sögur

 

Dulrænar frásagnir

  • 1974    Leit mín að framlífi
  • 1970    Hvert liggur leiðin
  • 1967    Dulræn reynsla mín
  • 1966    Dulrænar sagnir
  • 1965    Leitið og þér munuð finna. Afmælisrit Hafsteins Björnssonar miðils. Elínborg bjó til útgáfu.
  • 1957    Forspár og fyrirbæri
  • 1952    Miðillinn Hafsteinn Björnsson II
  • 1946    Miðillinn Hafsteinn Björnsson I
  • 1944    Úr dagbók miðilsins

 

Tengt efni