SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum

Guðfinna Jónsdóttir er fædd 27. febrúar 1899 að Arnarvatni í Mývatnssveit en ólst upp frá sjö ára aldri á Hömrum í Reykjadal. Hún hafði ríka tónlistargáfu og stundaði í tvo vetur tónlistarnám á Akureyri og í Reykjavík, ma.a hjá Otto Busch og Páli Ísólfssyni. Hún kenndi síðan söng og stjórnaði kórum í Reykjadal, m.a. við Alþýðuskólann á Laugum. Árið 1936 fluttist hún til Húsavíkur, þar sem hún starfaði sem tónlistarkennari og organisti við Húsavíkurkirkju meðan heilsa leyfði. Hújn lést úr berklum á Kristneshæli 28. mars 1946.

Guðfinna fór seint að yrka. Fyrstu ljóð hennar birtust í Þingeyskum ljóðum árið 1940 og fengu óvanalega góðar viðtökur. Þá átti hún aðeins sex ár ólifuð. Frá þeim tíma eru flest ljóða hennar. Hún átti á þessum árum við þung veikindi að stríða en náði að gefa út tvær ljóðabækur, Ljóð, 1941, og Ný ljóð, 1945. Báðar bækurnar komu út hjá Ísafoldarprentsmiðju fyrir tilstuðlan Guðmundar Finnbogasonar sem hvatti Guðfinnu mjög til útgáfunnar, m.a. með því að birta eftir hana ljóð í Skírni. Árið 1972 sá Kristján Karlsson um útgáfu á úrvali af ljóðum henanr, bæði útgefnum og áður óbirtum, og ritaði að þeim formála.

Textinn er tekinn orðréttur frá Helgu Kress:

Helga Kress. 2001. „Guðfinna Jónsóttir frá Hömrum 1899-1946“, bls. 260. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Myndin er sótt á Tímarit.is


Ritaskrá

  • 1972 Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum. Ljóðabók: safn
  • 1945 Ný ljóð
  • 1941 Ljóð

Tengt efni