SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Halldóra B. Björnsson

Halldóra Beinteinsdóttir Björnsson fæddist í Litla Botni á Hvalfjarðarströnd 1907, dóttir hjónanna Helgu Pétursdóttur og Beinteins Einarssonar.

Halldóra var næstelst átta systkina sem ólust upp í Grafardal en bærinn þótti heldur afskekktur, umlukinn heiðum og sást ekki til næsta bæjar. Þó svo að systkinin sinntu af kappi vinnu við búið urðu ljóð og sögur þeim afar hugstæð, kannski var eitthvað við þennan fríða dal sem örvaði sköpunargáfuna. Þau léku sér að orðum, vísum og öðrum slíkum æfingum frjórra huga og köstuðu milli sín vísupörtum og orðaleikjum. Öll ortu systkinin en þekktust fyrir skáldskap sinn urðu Halldóra, Sveinbjörn, Pétur, Sigríður og Einar og liggja mismargar bækur eftir þau.

Halldóra gekk á Hvítárbakkaskóla í tvo vetur. Hún vann nokkur ár á póst- og símstöðinni í Borgarnesi  þar sem hún kynntist Karli Leo Björnsson en hann var sonur Guðmundar Björnssonar sýslumanns sem gifti þau árið 1936. Um tíma bjuggu hjónin á Siglufirði og ráku þar saumastofu. Vorið 1939 fluttu þau til Reykjavíkur en Karl lést tveimur árum síðar. Þau eignuðust eina dóttur, Þóru Elfu Björnsson, sem hefur einnig fengist nokkuð við ristörf.

Halldóra starfaði mikið að félagsmálum, hún var einn stofnenda Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna og hún sat í stjórn Rithöfundafélags Íslands. Þá tók hún mikinn þátt í samtökum hernámsandstæðinga auk margs fleira. Halldóra skrifaði greinar um ýmis mál tengd ritstörfum og pólitískum áhugamálum hennar.

Fyrsta bók Halldóru, Ljóð, kom út árið 1949. En ljóðin í bókinni eru hins vegar flest miklu eldri en útgáfuárið segir til um því þau eru ort á árunum 1928‑30 og 1940‑46. Aðeins tvö ljóð bókarinnar eru frá útgáfuárinu og eru þau gjörólík hinum ljóðunum. Halldóra gaf ekki út frumort ljóð á bók aftur fyrr en tæpum tuttugu árum síðar, eða 1968, en það gerði hún líka með glans því þá komu út tvær geysigóðar ljóðabækur, Við sanda og Jarðljóð. Sama ár dó Halldóra úr sjúkdómi langt fyrir aldur fram.

Á þeim tuttugu árum sem liðu milli útgáfu ljóðabókanna fékkst Halldóra meðal annars við sagnagerð og þýðingar auk ljóðagerðar. Hún var mikilsvirkur þýðandi, safn ljóðaþýðinga hennar frá heimskautslöndum og Afríku, Trumban og lútan, kom út árið 1959. Merkasta þýðingarverk Halldóru er þó efalaust enska fornkvæðið Bjólfskviða sem hún þýddi úr fornensku á árunum 1966‑68. Hún rétt náði að ljúka við að ganga frá því handriti áður en hún dó en það var hins vegar ekki gefið út fyrr en árið 1983.

Skáldsaga Halldóru, Eitt er það land, kom út árið 1955 og er byggð upp á minningaþáttum úr bernsku og er einstök í sinni röð í íslenskum bókmenntum. Halldóra fléttar þar á frábærlega listilegan hátt saman þætti úr bernsku sinni og síns stóra systkinahóps þannig að úr verður listræn frásögn af heiminum út frá sjónarhóli barns, full af visku barnsins og reynslu hins fullorðna.

Samfara skrifum vann Halldóra við símvörslu á Alþingi og á lestrarsal þess því nær til dauðadags en hún lést árið 1968.


Ritaskrá

  • 1986  Þyrill vakir
  • 1969  Jarðljóð
  • 1969  Jörð í álögum, þættir úr byggðum Borgarfjarðar
  • 1968  Við Sanda
  • 1955  Eitt er það land
  • 1949  Ljóð

 

Þýðingar

  • 1983  Bjólfskviða
  • 1958  Trumban og lútan

 

Tengt efni