SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir15. janúar 2022

HEFÐ OG NÝSKÖPUN

Um Sigríði Einars frá Munaðarnesi, Halldóru B. Björnsson og Arnfríði Jónatansdóttur
 
 
Á fimmta áratug tuttugustu aldar urðu mikil átök í bókmenntaheiminum á Íslandi og snerust þau að mestu leyti um ljóðagerð. Þar tókust á fulltrúar hinnar sterku íslensku bókmenntahefðar – menn sem vissu hvernig „rétt gerð“ ljóð áttu að vera – og hópur ungra skálda sem vildi losa um ljóðformið. Þeir fyrrnefndu voru þjóðlegir, þeir síðastnefndu óþjóðlegir – eða alþjóðlegir – í hugsun. Formlega var skáldskapur ungu mannanna ekkert svo byltingarkenndur. Hin „módernísku skáld“1 notuðu oft á tíðum marga þætti hins hefðbundna kveðskapar, svo sem stuðlun og reglubundna hrynjandi, en hundsuðu til að mynda reglur um rím, erindaskiptingu og bragarhætti. Deilan sem á yfirborðinu snerist um form, snerist ef til vill í raun meira um að módernistarnir sóttu efnivið skáldskaparins til nýrrar reynslu á nýjum tímum.
 
Deilan um módernismann var deila karlmannanna. Konur voru undarlega fjarri í þessum átökum og umræðum um breytt viðhorf í listum. Reyndar voru þær sýnilegar í hópi módernísku málaranna (nefna má Nínu Tryggvadóttur) en meðal bragbreytingaskáldanna eru þær allt að því ósýnilegar og þær sem ortu í módernískum anda á fimmta og sjötta áratugnum tóku ekki þátt í opinberri umræðu og hættu að yrkja (eða alla vega að birta ljóð) þegar fram liðu stundir. Reyndar var hópur hinna íslensku módernista ekki stór; aðeins fimm skáld teljast til þess hóps sem nefndur er „Atómskáldin“ og sagður er hafa rutt módernismanum braut í íslenskri ljóðlist. Ein kona, Arnfríður Jónatansdóttir (1923-2005), gæti þó vel talist Atómskáld því hún uppfyllir öll þau skilyrði sem þarf; er borgarbarn af réttri kynslóð og ljóð hennar bera sömu einkenni og ljóð Atómskáldanna; þau eru í óbundnu formi, samþjöppuð í máli og hún notar myndmál á frjálslegan og óheftan hátt. En á undan Atómskáldunum komu ótal önnur skáld sem standa á milli hefðar og nýsköpunar og á undan Arnfríði Jónatansdóttur komu margar skáldkonur sem tengdu saman gamalt og nýtt; sem brúuðu bilið svo að segja.
 
Ef Arnfríður Jónatansdóttir er módernisti og eina konan sem gæti talist til Atómskáldanna þá á hún sér fyrirrennara í höfundum á borð við Sigríði Einars frá Munaðarnesi (1893‑1973) og Halldóru B. Björnsson (1907‑1968). Tvær þær síðarnefndu tengja saman hefð og nýsköpun í ljóðum sínum; í fyrstu ljóðabókum þeirra beggja eru ljóð ort í hefðbundnum anda bæði hvað varðar form og innihald og báðar gáfu þær út bækur síðar á ævinni þar sem hefðbundið form hafði þokað fyrir nýju frjálsu ljóðformi, þar sem tekist var á við nýtt yrkisefni á nýjum tíma.
 
Það er ekki auðvelt að marka skáldkonum eins og Sigríði Einars frá Munaðarnesi og Halldóru B. Björnsson stað í íslenskri bókmenntasögu. Og þetta staðsetningarvandamál er jafnframt skáldskaparvandi þeirra í hnotskurn. Þær virðast sjálfar vera í vafa með stöðu sína og er það ekkert skrýtið ef haft er í huga að þær standa á mörkum tveggja tíma um leið og þær standa utan hefðarinnar vegna kyns sína; þær vilja sanna sig innan hefðar sem þær í raun tilheyra ekki, á sama tíma og þær heillast af frjálsu ljóðformi sem þær kynntust báðar meðal annars í gegnum þýðingarstörf sín. Þær sneru sér alfarið að hinu nýja frjálsa formi, eftir að hafa sannað í fyrstu verkum sínum að þær kynnu tök á þeirri íþrótt að yrkja rímað, stuðlað og bundið.
 
 
 
Tengiliður hefðar og nýsköpunar
 
„Hver sækir nú fyrir mig / vatnið í brunninn?“ spyr gömul kona í ljóðinu „Mynd“ í síðustu ljóðabók Sigríðar Einars frá Munaðarnesi, Í svölu rjóðri (1971). Vatn kemur fyrir aftur og aftur í ljóðum Sigríðar og táknar víða uppsprettu eða lífgjafa í víðasta skilningi. Það má til að mynda skilja vatnið í brunninum sem uppsprettu skáldskaparins og spurning gömlu konunnar er þá bæði sprottinn af þeirri staðreynd að skáldkonan er orðin gömul (þetta er hennar síðasta bók) og „vatnsburður“ að verða henni ofviða, en einnig má túlka spurninguna á þann veg að sá sem sæki vatn í brunninn sé sem sá sem miðlar andagiftinni og efnivið í skáldskapinn.
 
 
Önnur ljóðabók Sigríðar heitir Milli lækjar og ár (1956) og með það í huga að vatnið sé uppspretta skáldskaparins þá er þessi titill táknrænn fyrir stöðu Sigríðar í íslenskri ljóðhefð. Hún stendur á milli þjóðlegrar ljóðhefðar og módernisma; milli lækjar (sem oftast rennur ljúflega og án mikilla boðafalla) og ár (sem er straumþyngri og vatnsmeiri). Sjálf er Sigríður tengiliður milli þess gamla og nýja; í fyrstu bók hennar, Kveður í runni (1930) er mikil meirihluti ljóðanna færður í búning ríms og stuðla og gamalla bragarhátta, en í þeim síðari hefur hún snúið sér alfarið að módernismanum.
 
Það sem mesta athygli vakti í fyrstu bók Sigríðar Einars voru þýdd og frumort prósaljóð. Átta prósaljóð eftir Sigbjörn Obstfelder eru í bókinni en einnig eru þrjú þar prósaljóð eftir hana sjálfa. Í þeim yrkir hún í knöppum en sterkum myndum og lýsir tilfinningum og hugarástandi sem tengjast ást og dauða. Hún notar nýstárlegt myndmál og óvæntar líkingar og það, ásamt prósaforminu sjálfu, vakti athygli ungra ljóðunnenda þegar bókin kom út. En þótt nýjungabragur hafi verið af prósaljóðum bókarinnar þá voru flest ljóðanna ort í hefðbundnu formi. Afstaða Sigríðar gagnvart hefðinni virðist samt á köflum vera írónísk; um leið og hún sýnir að hún hefur vald á hinum ýmsu skáldskaparbrögðum – fer eftir settum reglum varðandi form og bragreglur – fer hún ekki troðnar slóðir varðandi yrkisefni. Hún yrkir til dæmis fjölda ljóða til karlmanna, nafngreindra og ónafngreindra, þar sem hún skopast að þeim fyrir útlit og innræti. Þessi kvæði eru glettilega skemmtileg, írónísk og óvenjuleg.
 
Tvær síðustu bækur Sigríðar, Laufþytur og Í svölu rjóðri, komu út 1970 og 1971. Þá var hún tæplega áttræð og aldurinn má merkja í efnisvali því hún yrkir mikið um lífsferil sem er kominn að endalokum og tjáir slíkar hugleiðingar í gegnum myndmál fallandi gróðurs og hausts. Andstæðan sveit og borg leitar líka á Sigríði og á rætur í lífsreynslu þeirrar kynslóðar sem hún tilheyrir. En mörg ljóðanna tilheyra öllum tímum og öllum kynslóðum og kannski hefur Sigríður í huga eigin stöðu – og annarra kvenna – þegar hún yrkir ljóðið „Um þjóðveginn“ (Laufþytur, 1970) þar sem segir frá konum sem velta grjóti úr vegi til að gera leiðina greiðfærari. Í fyrsta erindinu eru konurnar fáar, en smám saman fjölgar þeim, í hópinn bætast ambáttir sem fleygja „fjötrum og tötrum“ þar til í síðasta erindi milljónir kvenna mynda fylkingu „í baráttu fyrir / frelsi, réttlæti, / friði og samúð / í fegurri heimi.“
 
Á þeim langa tíma sem líður milli útgáfu á ljóðum Sigríðar vann hún að þýðingum og þýddi hún bæði ljóð og skáldsögur. Hún átti stóran þátt í þýðingu Kalevala kvæðaflokksins sem maður hennar, Karl Ísfeld, þýddi. Sigríður aðstoðaði hann við þýðinguna og lauk henni síðan við fráfall hans.
 
„Hvenær fáum við vor án stríðsfrétta?“
 
Halldóra Beinteinsdóttir Björnsson var nokkrum árum eldri en Sigríður, eða 42 ára þegar hennar fyrsta bók, Ljóð, kom út árið 1949. En ljóðin í bókinni eru hins vegar flest miklu eldri en útgáfuárið segir til um því þau eru ort á árunum 1928‑30 og 1940‑46. Aðeins tvö ljóð bókarinnar eru frá útgáfuárinu og eru þau gjörólík hinum ljóðunum. Annað þeirra heitir „Órímað ljóð“ og eins og titilinn vísar til skilur það sig frá heildinni því það er ekki rímað, ekki ort í (hefð)bundnu formi. „Órímað ljóð“ er fallegt ljóð um lífið, ástina og dauðann. Umgjörð ljóðsins er lífsferill manneskjunnar þar sem upphafi og endalokum er stillt upp sem andstæðum: 
 
 
Í heitu myrkri líkamans
byrjar ferð vor
án þess vér vitum
hvert vegurinn liggur
 
/.../
 
Í köldu myrkri jarðarinnar
endar ferð vor
og vér vitum ekki lengur
að þessi ferð var farin
 
 
Millikafli þessa ramma lýsir ást sem lifir andartak en að baki býr vitundin um dauðann sem allt sigrar. Þótt þetta síðasta ljóð bókarinnar vísi til framtíðar í ljóðagerð Halldóru hvað varðar form er það ekki dæmigert hvað varðar efni. Þótt þunglyndi og svartsýni gæti vissulega í síðari ljóðum Halldóru er það yfirleitt tengt þeim ódæðum sem framin eru í nafni stríðs og hernaðar en ekki tilveru einstaklingsins og nánum persónulegum samskiptum.
 
 
 
Halldóra gaf ekki út frumort ljóð á bók aftur fyrr en tæpum tuttugu árum síðar, eða 1968, en það gerði hún líka með glans því þá komu út tvær geysigóðar ljóðabækur, Við sanda og Jarðljóð. Sama ár dó Halldóra úr sjúkdómi langt fyrir aldur fram. Á þeim tuttugu árum sem liðu milli útgáfu ljóðabókanna fékkst Halldóra meðal annars við sagnagerð og þýðingar auk ljóðagerðar. Hún var mikilsvirkur þýðandi, safn ljóðaþýðinga hennar frá heimskautslöndum og Afríku, Trumban og lútan, kom út árið 1959. Merkasta þýðingarverk Halldóru er þó efalaust enska fornkvæðið Bjólfskviða sem hún þýddi úr fornensku á árunum 1966‑68. Hún rétt náði að ljúka við að ganga frá því handriti áður en hún dó en það var hins vegar ekki gefið út fyrr en árið 1983.
 
Í síðari ljóðabókum Halldóru eru eingöngu módernísk ljóð og er vald hennar á ljóðforminu framúrskarandi. Tvö meginefni má greina í ljóðum hennar, annars vegar andóf gegn stríði og hvers kyns hernaðarbrölti og hins vegar yrkir hún um heimahaga sína, náttúru þeirra, æskuna og dýrmæt mannleg tengsl.
 
Síðara yrkisefnið rís reyndar einna hæst í skáldsögu Halldóru Eitt er það land (1955) sem er byggð upp á bernsku-minningaþáttum og er einstök í sinni röð í íslenskum bókmenntum. Halldóra fléttar á frábærlega listilegan hátt saman þætti úr bernsku sinni og síns stóra systkinahóps þannig að úr verður listræn frásögn af heiminum út frá sjónarhóli barns, full af visku barnsins og reynslu hins fullorðna. Landið í skáldsögunni er „einskismanns-landið“ – útópía; hin saklausa barnsveröld sem jafnframt er horfinn heimur íslenska bændasamfélagsins sem Halldóra ólst upp í en var ógnað af „nútímanum“ og jafnvel af hernaðarbrölti, eins og hún yrkir um í mörgum ljóðum. Í ljóðum Halldóru má sjá þá skoðun að barnið sé það dýrmætasta sem lífið gefur okkur, fyrir sakleysi þess og einlægi víkur allt annað; fátækt, stríð og óhamingja: „Í lífsstríði sínu hefir hún barnið / fyrir skjöld“ segir í einu „jarðljóðanna“ og hið fullkomna sinnuleysi er að sinna ekki barni sem grætur; þar sem þarfa barna er ekki gætt þar ríkir firringin ein.
 
 
Atómskáld í kjól mætir pípuhatti
 
Andstæðurnar barn og her eru yfir-skipaðar andstæður ef litið er yfir allt höfundarverk Halldóru B. Björnsson og þær má einnig finna í ljóðabók Arnfríðar Jónatansdóttur, Þröskuldur hússins er þjöl (1958). Hjá Halldóru sjáum við þessar andstæður birtast aftur og aftur í mörgum ljóðum og sögum. Hjá Arnfríði kristallast þær á áhrifamikinn hátt í sterkum ljóðabálki sem opnar bók hennar og heitir „Barn vildi byggja“. Bálkurinn segir frá viðskipum barns/konu við veröldina/pípuhatt. Ljóðmælandinn skilgreinir sig bæði sem barn („ég var barn“) og konu („ég er kona“) og fer hún illa út úr viðskiptum sínum við veröldina, sem er um leið pípuhattur, augljóst tákn karlveldis. Mynd karlveldisins birtist á gróteskan hátt í fjórða erindi ljóðabálksins:
 
 
Ég gekk burt.
Þá mætti ég pípuhatti.
Hann kom á móti mér
í hlykkjum og rykkjum.
Góðan dag sagði ég.
„Hver ert þú?“ anzaði hann.
Ég er kona sem þú þekkir ekki.
Hvar er fólkið og börnin?
Þá orgaði hann
„Fífl, ég er allt – það er ekkert til
nema ég, fíflið þitt.“
Hann hófst á loft, skyggði á sólina.
Þá sá ég að hann var padda
með stóra bitkróka, mettan kvið.
 
 
Pípuhatturinn er tvírætt tákn í bálkinum; jafnframt því að vera augljóst fallostákn, tákn karlveldis sem slíks, er hann tákn stríðsherra sem virða einskis líf karla, kvenna og barna. Ljóðmælandi heyrir börn gráta og sér fólk falla í bardaga og þegar hún reynir að komast heim heyrir hún ískaldan hlátur pípuhattsins á bak við sig. Það er líka freistandi að túlka þá konu sem pípuhatturinn þekkir ekki sem ljóðskáldið Arnfríði Jónatansdóttur – og þá er pípuhatturinn orðin tákn íslenskrar bókmenntastofnunar.
 
Í mörgum ljóða bókarinnar yrkir Arnfríður beint um skáldskapinn sjálfan og hefðina. Hún fjallar um tengsl ljóða sinna við hefðina í ljóðinu „Þú vitjar mín“ og líkir þar hefðinni við „há hamrabýli“ en ljóði sínu við „skugga sem þræðir einstigi“ til að reyna að halda í „herrann“ sem á undan fer. Í stað þess að rása óðfluga á eftir „herranum“ ákveður ljóðmælandinn að reyna að halda í einfaldleika næturinnar og hlusta og njóta augnabliksins. Ljóðmál Arnfríðar er oft á tíðum torrætt. Hún notar óvenjulega orðaröð, samþjappað myndmál og hálfkveðnar vísur og einnig notar hún oft minni úr íslenskum ævintýrum og stef úr þjóðkvæðum. Þetta ljær ljóðunum skemmtilegan blæ.
 
Ljóð Arnfríðar eru ort af þroskuðu skáldi sem gat náð langt. Hún gaf aðeins út þessa einu ljóðabók en áður hafði hún birt ljóð í blöðum og tímaritum um árabil. Arnfríður var tvímælalaust í hópi athyglisverðustu skálda af ungu kynslóðinni á Íslandi á sjötta áratugnum. Ljóð hennar voru nýstárleg og sýna ótvírætt að þar var frumlegt skáld á ferðinni með hæfileika til nýsköpunar á bókmenntasviðinu. Engu að síður blasir sú staðreynd við að Arnfríður hætti að birta eftir sig ljóð og hvarf algjörlega af bókmenntasviði Íslands. Fyrir þann sem lítur til baka um nokkra áratugi með það fyrir augum að rannsaka stöðu kvenna í íslenskri ljóðlist er hún skólabókardæmi um skáld sem orðið hefur undir vegna kyns sína. Þrátt fyrir ótvíræða hæfileika, frumlega hugsun, listrænt næmi og frábært byrjandaverk er Arnfríður hvergi talin með skáldum (fyrr en þegar endurmat á skáldverkum kvenna hófst á síðustu áratugum tuttugustu aldar); hennar er hvergi getið í bókmenntasögum,2 ekki er á hana minnst í skáldatali, algjörlega er þagað yfir tilvist hennar í fræðiriti um Atómskáldin. Það er ekki annað hægt en undrast fjarvist þessa skálds í umræðunni um íslenska ljóðagerð. En hver sem orsökin er varð útkoman sú að algjörlega var þaggað niður í Arnfríði ‑ hún hætti að birta ljóð og er flestum gleymd sem ljóðskáld.
 
Aðeins ein kona auk Arnfríðar Jónatansdóttur birti reglulega módernísk ljóð í blöðum og tímaritum á sjötta áratugnum, en það var Þóra Elva Björnsson; dóttir Halldóru B. Björnsson. Hún gaf þó ekki út bók á þessum árum. Það var ekki fyrr en í fyrra sem kom út ljóðabók eftir hana, Þvílík eru orðabilin. Hún hefur hins vegar gefið út nokkrar frásagnir og fengist við þýðingar.
 
 
Heimildir
 
Arnfríður Jónatansdóttir. Þröskuldur hússins er þjöl. Reykjavík 1958, endurútgefin hjá Unu útgáfuhúsi 2019.
Eysteinn Þorvaldsson. Atómskáldin. Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Reykjavík 1980.
 
Halldóra B. Björnsson:
--- Ljóð. Reykjavík 1949
‑‑‑ Eitt er það land. Reykjavík 1955
‑‑‑ Trumban og lútan (ljóðaþýðingar). Reykjavík 1959
‑‑‑ Við sanda. Reykjavík 1968
‑‑‑ Jarðljóð. Reykjavík 1968
‑‑‑ Jörð í álögum, (þættir úr sögu Hvalfjarðar). Reykjavík 1969
--- Bjólfskviða (þýðing). Reykjavík 1983
‑‑‑ Þyrill vakir (ljóðaúrval). Akranes 1989
 
Sigríður Einars frá Munaðarnesi:
--- Kveður í runni. Reykjavík 1930
‑‑‑ Milli lækjar og árM. Reykjavík 1956
‑‑‑ Laufþytur. Reykjavík 1970
‑‑‑ Í svölu rjóðri. Reykjavík 1971
 
Soffía Auður Birgisdóttir: "Brúarsmiður ‑ Atómskáld ‑ Módernisti. Þrjár nýsköpunarkonur í íslenskri ljóðagerð." Ljóðaárbók 1989. Ritstjórn Berglind Gunnarsdóttir og fleiri. Reykjavík 1989
 
Aftanmálsgreinar
1. Hér er hugtakið „módernisti“ notað yfir þau skáld sem yrkja í frjálsu formi, þ.e. sniðganga hefðbundnar reglur og rím, stuðla og bragarhætti. Ég geri mér grein fyrir að slík skilgreining á módernisma felur í sér mikla einföldun en tel þó að hún gagnist í því samhengi sem hér er rætt.
2. Í nýlegri bókmenntasögu Máls og menningar er fjallað um Arnfríði sem sýnir að endurmat kvenkyns bókmenntafræðinga á hlut íslenskra kvenrithöfunda hefur borið ávöxt. Sjá Íslensk bókmenntasaga, V. bindi. Mál og menning 2006.

Tengt efni