Jenna Jensdóttir
Jenna Jensdóttir fæddist 24. ágúst 1918 á Læk í Dýrafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Ásta Sóllilja Kristjánsdóttir og Jens Guðmundur Jónsson, bóndi og kennari. Þegar Jenna var 16 ára knúði sorgin dyra en þá fékk móðir hennar krabbamein og lést í kjölfar þess. Þá yfirgaf Jenna heimahagana, fór fyrst í vinnumennsku í Stykkishólmi og síðan suður til að afla sér menntunar. Hún stundaði leiklistarnám hjá Lárusi Pálssyni, var í kvöldskóla KFUM og í Námsflokkunum en fór síðan í Kennaraskólann. Hún lauk tveimur vetrum kennaranámsins en fluttist til Akureyrar með Hreiðari Stefánssyni, eiginmanni sínum, sem þá hafði lokið kennaraprófi. Í viðtali við Vísi þann 16. apríl 2011 segir Jenna: „En svo hætti ég í Kennaraskólanum því maðurinn minn var einu ári á undan mér og hann fór til Akureyrar og stofnaði það sem kallað var smábarnaskóli fyrir fjögurra, fimm og sex ára börn. Ég fór með honum þó að ég ætti eitt ár eftir. Sjáðu hvað tímarnir hafa breyst, mér þótti svo sjálfsagt að fara með honum þó að ég væri búin að þræla fyrir þessu námi. En prófið tók ég mörgum árum seinna.“
Hjónin stofnuðu Hreiðarsskóla árið 1942 og kenndu lestur í rúm 20 ár. Jenna kenndi jafnframt við Barnaskóla Akureyrar til ársins 1962 og síðan í Gagnfræðaskóla Akureyrar í eitt ár. Hún lauk kennaraprófi utanskóla vorið 1963 en hún lagði einnig stund á nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og á árunum 1975-1976 var hún í skóla í Danmörku og Svíþjóð.
Eftir flutning til Reykjavíkur árið 1963 kenndi Jenna í um tvo áratugi á unglingastigi Langholtsskóla og við Námsflokka Reykjavíkur. Síðar á æviskeiðinu sagðist Jenna ávallt hafa kunnað best við að kenna fjórtán, fimmtán og sextán ára börnum því á þeim aldri væru þau að vakna til þess að verða fullorðin. Jenna var að auki bókmenntagagnrýnir og greinahöfundur við Morgunblaðið í tæpa þrjá áratugi.
Jenna var í stjórn Kvenfélagsins Framtíðarinnar og í barnaverndarnefnd Akureyrar. Hún var formaður Félags íslenskra rithöfunda um skeið og sinnti trúnaðarstörfum fyrir Rithöfundasamband Íslands og var hún gerð að heiðursfélaga sambandsins árið 2014. Hún var stofnfélagi í Alfadeild Alþjóðasamtaka kvenna í fræðslustörfum árið 1975 og sinnti því starfi til dauðadags. Þá var hún lengi í skólasafnanefnd Reykjavíkur auk annarra nefndarstarfa.
Jenna var mjög ung þegar hóf skriftir og þegar hún var sextán ára gömul höfðu skrif hennar birst á prenti og hlaut hún verðlaun í samkeppni Ríkisútvarpsins aðeins 17 ára gömul. Jenna og Hreiðar voru höfundar 24 bóka fyrir börn og unglinga en þekktastar þeirra eru Öddubækurnar svokölluðu en þær urðu sjö talsins. Hjónin voru bæði skráð sem höfundar Öddubókanna en Jenna sagði síðar í viðtali við Vísi að hún hefði skrifað þær ein. Hún sagði þau hjón alltaf hafa skrifað hvort í sínu lagi en þau hafi ákveðið að setja nöfn þeirra beggja á bækurnar því þau hafi hugsað sem svo að Hreiðarsskóli yrði þekktari ef bækurnar væru einnig merktar Hreiðari.
Jenna gaf einnig út ljóðabók og nokkur smásagnahefti auk þess sem fjöldamargar sögur hennar og ljóð hafa birst í útvarpi, blöðum og tímaritum.
Jenna hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, m.a. Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur 1973 og viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 1974. Einnig fékk hún viðurkenningar úr Rithöfundasjóði Íslands 1979, 1987 og 1995. Hún var heiðruð á Menningarhátíð Seltjarnarness haustið 2015.
Síðustu 20 árin bjó Jenna ein í íbúð sinni á Seltjarnarnesi en eiginmaður hennar lést árið 1995. Í tæpt ár fram að andláti sínu naut hún umönnunar á hjúkrunardeild Hrafnistu en ævikvöldsins naut hún jafnframt í nærveru sona sinna, Ástráðs Benedikts og Stefáns, sem og barna- og barnabarna. Jenna Jensdóttir lést þann 6. mars 2016.
Hér má hlusta á viðtal Sigrúnar Stefánsdóttuvr við Jennu í þættinum Fólkið í landinu árið 1992.
Heimildir:
- Morgunblaðið. 2016. Andlát: Jenna Jensdóttir. 7. mars.
- Þingeyrarvefurinn. 2016. Jenna Jensdóttir - Fædd 24. ágúst 1918 - Dáin 6. mars 2016 - Minning. 26. mars.
- Vísir. 2011. „Hef alltaf verið með góðu fólki“. Viðtal við Jennu Jensdóttur. 16. apríl.
- Mynd tekin af vef Rithöfundasambands Íslands.
Ritaskrá
Bækur eftir Jennu og Hreiðar:
- 1975 Jón Elías
- 1974 Blómin anga
- 1970 Blómin í Bláfjöllum
- 1969 Óskasteinn á tunglinu
- 1968 Stúlka með ljósa lokka
- 1967 Stelpur í stuttum pilsum
- 1966 Bítlar eða bláklukkur
- 1965 Það er leikur að lesa
- 1961 Vaskir vinir
- 1960 Litli læknissonurinn
- 1958 Snjallir snáðar
- 1956 Snorri
- 1955 Bjallan hringir
- 1952 Adda trúlofast
- 1951 Adda í menntaskóla
- 1950 Adda í kaupavinnu
- 1949 Adda kemur heim
- 1948 Adda lærir að synda
- 1948 Sumar í sveit
- 1947 Adda og litli bróðir
- 1946 Adda
- 1944 Skógarævintýri
Aðrar bækur eftir Jennu:
- 1998 Svipur daganna
- 1993 Ásta Sóllilja
- 1975 Engispretturnar hafa engan konung (ljóð)
Verðlaun og viðurkenningar
Jenna og Hreiðar:
- 1974 Verðlaun Rithöfundarsambands Íslands og Ríkisútvarpsins
- 1973 Verðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur
Jenna:
- 2015 Heiðruð á Menningarhátíð Seltjarnarness
- 2011 Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins
- 1995, 1987 og 1975 Viðurkenning úr Rithöfundarsjóði Íslands
- 1974 Viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins
- Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur