SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir13. febrúar 2021

ENDALAUS HAMINGJUGLEÐI. Strendingar

Strendingar, skáldsaga eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur, kom út í lok síðasta árs. Ekki er titillinn sérlega lokkandi né eiturgul bókarkápan en innihaldið er þeim mun betra. Eins konar íslensk Bonusfamilje sest að á Stapaströnd, litlu plássi fyrir norðan, og ýmislegt gerist þar sem getur svo auðveldlega gerst í alvörunni. Þetta er raunsæ saga um líf fólks í samtímanum, drauma þess og ógnir, en venjulegt líf stendur alltaf tæpt og getur farið á hvolf af minnsta tilefni.
 
Eva Guðrún er harðjaxl - eða þykist vera það - með ríka réttlætiskennd. Hún rís gegn feðraveldi og kirkju í þorpinu og fær svo sannaralega að finna til tevatnsins - bókstaflega því hún er sett í kaffibann heilsu sinnar vegna. Maður hennar er Pétur, ekki sá klettur sem nafnið gefur til kynna, heldur sveimhugi með skáldagrillur sem getur auðveldlega kúplað sig frá öllu og lagst í freyðibað með hljóðbók. Hann á að baki slóð misheppnaðra tilrauna til að láta drauma sína rætast því hann skortir úthald og frumleika. Foreldrar hans voru klettar, þau Berg-ur og Stein-unn sem búa í sveitinni, en þeirra bíður bara glötun eins og alls sem þeirra kynslóð stendur fyrir. Silja er bráðum 15 ára dóttir Evu og á vonlausan pabba, hún spilar tölvuleiki og er skáld á kafi í öllu unglinga- og kærastatráma sem hugsast getur. Steinar er miðjubarnið, í fyrsta bekk og hegðun hans er viðfangsefni sálfræðinga. Tveir málleysingjar, Olla yngsta barn enn á brjósti og kötturinn Sahure/Mjálmar, hafa líka rödd í sögunni en raddirnar skiptast á, hver fjölskyldumeðlimur á sinn kafla, sitt málfar og sína sýn á hlutina. Líka afinn Bergur sem þjáist af alzheimer og flytur inn á fjölskylduna til að toppa allt.
 
Saman böðlast Eva og Pétur í gegnum áföllin sem á dynja og standa sterkari á eftir, svo virðist sem börnin muni líka komast nokkuð heil frá atburðunum sem setja allt á annan endann á því hálfa ári sem sögutíminn spannar. Strendingarnir eru eins og hver önnur íslensk nútímafjölskylda sem stendur frammi fyrir alls konar vandamálum. Sagan er vel skrifuð, skemmtilega margradda með húmorinn í botni og beinir líka spjótum að samfélagi okkar. Viðfangsefnið er harmur manna en ekki engla, hverful og brothætt tilveran er efni í hressilega sjónvarpsseríu.
 
„Ég hefði ekkert á móti því að öskra á einhvern, fyrst þessi heimsókn snerist svona í höndunum á mér. Kannski ég byrji á því að öskra á Steinar fyrir að ljúga og fyrir að hrekkja önnur börn, svo öskra ég á Silju að drulla sér úr tölvunni og hreyfa sig og læra heima og hætta að verja þennan aumingjapabba sinn, ég gæti öskrað á Pétur fyrir það hvað við erum glataðir foreldrar, fundið einhverja leið til að kenna honum alfarið um ástandið á Steinari, ég hlýt að geta það. Mögulega gæti ég öskrað á Ollu fyrir að vilja endalaust drekka alla helvítis nóttina. Að sjálfsögðu myndi ég öskra á tengdapabba að hætta að reyna að kyssa mig með stingandi broddunum sínum og ógeðslegu gömlukarlarakspíralyktinni.
 
Það verður gleði.
Það verður endalaus hamingjugleði.
(177-8)
 

Tengt efni