LOFT OG LÍKAMI / ÉG OG HEIMURINN. Ódauðleg brjóst / Eftirskjálftar
Ásdís Ingólfsdóttir. Ódauðleg brjóst ( Eftirskjálftar. Reykjavík: Partus 2018
Ásdís Ingólfsdóttir sendir frá sér tvær ljóðabækur í ár, sem eru jafnframt hennar fyrstu útgefnu skáldverk. Í vor kom ljóðabókin Ódauðleg brjóst og síðan fylgdu Eftirskjálftar á haustmánuðum. Ljóð og sögur hafa birst eftir Ásdísi áður, í tímaritum og safnritum. Þessar tvær ljóðabækur eru þó ekki alveg sjálfstæðar því fyrri bókin er jafnframt hluti þeirrar síðari, þ.e.a.s. síðari bókin hefur að geyma öll ljóð fyrri bókar, auk meira efnis. Ástæðan mun vera sú að fyrri bókinni var þröngt skorinn stakkur hjá útgáfunni Partus. Hún kom út í hinni frábæru ritröð Meðgönguljóð, sem hafði að markmiði að gefa út verk nýrra höfunda og fékk hverjum og einum þeirra reynt skáld sem ritstjóra, nokkur konar ljósmóður til aðstoðar fyrstu fæðingu. Þórarinn Eldjárn var í því hlutverki við fyrri bók Ásdísar. Sú bók mun löngu uppseld og því fengur að því að fá ljóð hennar einnig hér - í því handriti sem þau tilheyrðu upphaflega en skera varð niður hjá Partusi.
Árangursríkt nám
Ásdís er meðal þeirra fjölmörgu hæfileikaríku skálda sem farið hafa gegnum ritlistarnám Háskóla Íslands, en segja má að það nám sé farið að hafa stórtæk áhrif á íslenskt bókmenntalíf, þar fær fólk að rækta hæfileika sína undir leiðsögn góðra rithöfunda og skálda, og undanfarin ár hafa flætt inn á bókamarkaðinn athyglisverð bókmenntaverk frá þeim sem hafa útskrifast úr náminu – mörg þeirra hafa hlotið verðlaun og enn fleiri tilnefningar til ýmis konar verðlauna og viðurkenninga.
Ódauðleg brjóst
Persónuleg reynsla liggur að baki ljóðabókinni en í henni yrkir Ásdís um þá reynslu að greinast með brjóstakrabbamein og ganga í gegnum meðferð – og vísar titillinn til sílíkonpúða sem oft eru settir í konur sem hafa þurft að fara í brjóstnám. Ljóðin mynda heild sem segja þroskasögu ljóðmælanda sem gengur í gegnum skelfilega reynslu á þeirri þroskagöngu, reynslu sem býr í líkamanum og veldur ofsahræðslu við ákveðnar aðstæður. Þetta eru hreinskilin og tæpitungulaus ljóð, sem lýsa reynslu sem of margar konur þekkja á eigin skinni.
Eftirskjálftar
Eftirskjálftar mun hins vegar vera heilstætt ljóðahandrit sem Ásdís vann að í ritlistarnámi sínu - undir leiðsögn Sigurðar Pálssonar og er bókin tileikuð honum. Hún hefst á stuttum texta sem ber yfirskriftina „Ný manneskja“. Þar skrifar Ásdís:
Eftir að hafa leikið sjálfa sig í fimmtíu og sjö ár ákvað hún að losa sig við haminn sem hún hafði hjúpað um sig. Hún byrjaði að fikra sig út eins og fiðrildi sem skríður úr púpu. Það var ótrúlega tímafrekt að smokra hamnum af sér og stundum hélt hún að það myndi ekki hafast. Hún fann hvernig hann hafði þrengt að henni. Oft varð hún að toga og slíta, reyta sjálfa sig eins og rjúpu. Beita afli til að ná burtu smáhluta af hjúpnum sem umlukti hana. Hún var við það að gefast upp.
Aldurinn sem gefinn er upp í textanum tekur af öll tvímæli um að hér yrki skáldkonan um sjálfa sig og er gott til þess að vita að hún lét ekki bugast. Í „Ný manneskja II“ er því lýst að tilhugsunin „um að vera aðeins að örlitlu leyti hún sjálf og að stórum hluta enn í sínu gamla hlutverki“ haldi henni við verkið og að hún sé „staðráðin í að klára, verða alfarið og algjörlega hún sjálf“. En það er ekki létt verk, eins og við lesum í „Ný manneskja III“. Þar segir: „Henni leið hálfpartinn illa án hamsins, fannst hún óvarin fyrir öllu. Vissi ekki hver hún var“. Hún tekur bút úr gamla hamnum sem „var óumræðilega mjúkur og glansandi“ og setur hann „í hjartastað“. Textinn sem fylgir strax á eftir lýsir því síðan hvernig ljóðveran ímyndar sér að hún handfjatli hjarta sitt, tali til þess og huggi eins og barn. Af þessu má kannski ráða að enn búi ýmislegt í hjarta ljóðverunnar sem hún er ekki tilbúin til að hleypa út. Þetta er reyndar ítrekað í lokaljóði bókarinnar sem ber titilinn „Ný manneskja IV“ en þar finnur hún sífellt fleiri búta úr hamnum og festir á sig. En gamla hamnum getur hún ekki klæðst aftur og verður því „að bæta það sem uppá vantaði með nýju efni“. Hér gerir skáldkonan því skóna að engin leið sé að vera fullkomlega berskjaldaður og að allir hljóti að verja sig á einhvern máta. Þetta mætti taka lengra og segja að sjálf okkar - í fleirtölu - séu þegar allt kemur til alls fólgin í mismunandi grímum sem við setjum upp við mismunandi aðstæður. Aðalatriðið er að fá að ráða því sjálf úr hvað efni grímurnar - eða hamurinn - er gerður.
Líkami, sjálf og heimur
Myndmál Ásdísar er framar öðru líkamlegt; hún yrkir um óljós mörk lofts og líkama, sjálfrar sín og heimsins, um samskipti sín við heiminn. Hún yrkir um nýfætt líf, fullburða börn og fyrirbura sem fara halloka í baráttu sinni fyrir tilverunni. Hún yrkir um horfin systkini sem hún syrgir. Ljóðin eru mörg hver sprottin af sári - eins og sumir telja reyndar forsendu hins besta skáldskapar. Lífið hefur skenkt skáldkonunni misjafna reynslu, eins og lýst er á skemmtilegan, myndrænan máta í eftirfarandi ljóði:
Ég dreypi á lífinutek örlitla sopabeiska eins og greipaldinsæta eins og hunangfúla eins og vatnið í Tjörninniþykka eins og gula sprengidagssúpuvolga eins og mjólk sem gleymdist á borðinuheita eins og svart kaffi í Istanbúlkekkjótta eins og pönnukökudeigið hennar ömmukalda eins og hjarta fyrrverandivarlega hljóðlegatek ég litla andskotans smásopapassa að treina þáheld niðri í mér andanumaf skelfingu yfir að sötra of mikið í einuþó mig langi helst að teyga þáí gúlsopumþamba hressandi vökvannfinna hann flæðaropa svo háttmeð taumana lekandiniður úr munnvikunumæpa: Skál! Komdu þá helvítið þitt!
Þroskað skáld
Ásdís Ingólfsdóttir er fædd árið 1958 og er það sérstaklega gleðilegt að sjá fólk sem komið er á „besta aldur“ fá að loksins njóta sín – ekki síður en þeir sem yngri eru. Það er enginn byrjendabragur á textum Ásdísar og ljóðum, enda er höfundur ekki nýgræðingur á sviði skrifta; Ásdís starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu í mörg ár og hefur áður samið kennsluefni og fengist við þýðingar. „Ég hef ekkert að fela / nema hugsanir mínar,“ segir í einu ljóða Eftirskjálfta og nú er bara að vona að skáldkonan haldi áfram að finna hugsunum sínum farveg í ljóðum og hætti að fela þær. Ég á ekki von á öðru.