AF KOPPUM OG KÖMRUM. Miðbæjarrottan
Auður Þórhallsdóttir. Miðbæjarrottan: Þetta kemur allt með kalda vatninu. Reykjavík: Skriða 2022.
Miðbæjarrottan: Þetta kemur allt með kalda vatninu heitir ný bók sem út kom í sumar hjá bókaútgáfunni Skriðu á Patreksfirði. Auður Þórhallsdóttir skrifaði bókina fyrir börn og myndskreytti með sérlega fallegum og fyndnum teikningum. Snæfríð Þorsteins hannaði smekklegt útlit bókarinnar.
Sagan er eins konar framhald af bókinni Miðbæjarrottan: Borgarsaga sem út kom 2020 og fjallar um styttur bæjarins.
Bókin segir frá rottunni Rannveigu sem er að hefja sína morgunrútínu einn góðan veðurdag. Þá bregður svo við að ekkert vatn kemur úr krananum. Ekki er hægt að sturta niður eða bursta tennur né hella upp á kaffi! Nú eru góð ráð dýr. Á leið sinni um bæinn í leit að skýringum á vatnsleysinu er rakin saga vatns og skólps í borginni, sagt frá vatnsberum og brunnum, þvottakonum, koppum og kömrum og frá rottunum sem lifa sínu lífi í felum og í undirheimum.
Sagan sýnir á lifandi og skemmtilegan hátt að vatnið á Íslandi er auðlind sem mikilvægt er að bera virðingu fyrir og fara vel með. Sagnfræðilegt ívaf, húmor og góður boðskapur; lesturinn er sérlega ánægjulegur og gaman að skoða myndirnar með ungum lesendum.
Auður, barna- og ungmennabókasjóður og Veitur styrkja útgáfuna.