SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir11. ágúst 2018

LÍFIÐ ER MYRKRAKOMPA. Kompa

Sigrún Pálsdóttir. Kompa. Reykjavík: Smekkleysa 2016, 168 bls.

Það er ögrandi að lesa skáldskap sem reynir á þolrifin. Þegar formið er úthugsað, leikið er með sjónarhorn, tíma og framvindu og innihald og form mynda listræna heild með ýmsum túlkunarmöguleikum. Í Kompu Sigrúnar Pálsdóttur (2016) er þetta allt listavel gert.

Gersemar eins og gömul handrit (sem hér á landi eru flest læst niðri meðan Hús íslenskra fræða er aðeins hola á Melunum), eru efni í heillandi og fræðilegar rannsóknir sem segja okkur margt um fortíð okkar og menningararf. Aðalpersónan í Kompu, ung kona í doktorsnámi, hefur brotlent harkalega eftir áralanga vinnutörn við gamalt handrit sem hún taldi varpa nýju ljósi á veraldarsöguna. Þegar kenning hennar gengur ekki lengur upp, brotnar hún saman og missir tökin á tilverunni. Hún getur ekki horft framan í nokkurn mann, sjálfsmynd hennar er í molum, virðing hennar sem fræðimanns er í rúst. Hún einangrar sig frá öðru fólki og veruleikinn skríður burt meðan hún glímir við angist, brjálsemi og sjálfskipaða útilokun.

Kynstur af þekkingu hlaðast upp í heiminum og sérfræðingar verja árum og áratugum í að rannsaka, greina og miðla. Sá sem er í hlutverki fræðimanns fer í tilteknar stellingar því þekkingin á sér stöðu í þjóðfélaginu og stofnunum þess; fræðimaður þarf að uppfylla væntingar sem gerðar eru til hans og tileinka sér ákveðna orðræðu til að vera gjaldgengur. Hann fórnar drjúgum tíma í þágu vísindanna, jafnvel allri starfsævinni til að fullnægja þekkingarþrá sinni og metnaði, uppskera loks og öðlast viðurkenningu innan fræðasamfélagsins. Það er því mikið áfall fyrir aðalpersónu Kompu að horfast í augu við að kenning hennar stendur á brauðfótum, grúskið unnið fyrir gýg, prófgráðunni teflt í tvísýnu og framavon úti. Ekki gerir það henni auðveldara fyrir að bera byrðina ein og þegja yfir skömminni og vanmættinum sem hellast yfir hana. Að auki hefur hún áður glímt við andleg veikindi sem bætir ekki úr skák.

Kompa snýst ekki um uppruna sögulegra heimilda og tilviljunarkennda varðveislu þeirra, eins og segir á bókarkápu. Hún fjallar um fólk og fjölskyldu, óvæntar tengingar og tengslaleysi; um hugarástand, óra og verki þegar krísa dynur yfir. Um farangurinn á lífsleiðinni og „niðurrifsmanninn“ í okkur öllum (hlakkar kannski í honum á bókarkápunni?) og dimmt skotið, sem er í senn athvarf, öryggi og uppspretta hryllingsins; „that little darkroom where misconceptions are developed“ (137-8). Kompa er margrætt orð sem vísar í ýmsar áttir; minnisbókin sem við trúum fyrir okkar innstu hugrenningum, sérherbergið sem konur þurfa og háaloftið þar sem þær eru geymdar ef þær stíga yfir mörkin. Þar sem ógn steðjar að eru samtöl persóna og samskipti rakin út frá sjónarhorni þess sem er á varðbergi, tapar sífellt þræðinum og heyrir aðeins orð á stangli. Þegar gömlu vinkonurnar úr menntaskóla koma í heimsókn rennur allt út fyrir aðalpersónunni, hugurinn reikar og nýjar hugmyndir vakna:

 

…velti fyrir mér hvernig skoðanir fólks verða til, og hvort þeim sé viðhaldið af raunverulegri sannfæringu eða bara fastheldni við einhverja gamla fullvissu sem kannski varð til fyrir tilviljun, óvart eða í vondum félagsskap. Í framhaldinu hugsa ég um mannamót skyldra. Ég hugsa um fortíðina, hversu framandi hún sé og gömul…“ (37).

 

Frábær kafli gerist í sumarbústað þegar sögumaður liggur andvaka í rúmi sínu í borginni og sviðsetur í huga sér hvað þar hafi gerst (58-68) og þeir atburðir eru sviðsettir á ný seinna í bókinni (115-119).

 

„Nei, það er heldur ósennilegt að þetta samtal eigi sér stað. Og reyndar finnst mér líklegra að eitthvað þessu líkt sé í uppsiglingu: Ester hefur drukkið mest, Tína fast á hæla hennar en Sigríður A. ekkert því hún keyrir heim fyrir nóttina. Þamb Esterar er líklega þannig til komið að umræðan yfir borðum hefur fljótlega farið að snúast um hana og aðstæður á heimili hennar í Kópavogi. Það hafði nefnilega gerst ekki alls fyrir löngu að eiginmaðurinn, þjálfarinn, hafði ekki mælt orð frá munni í þrjá daga eftir eitthvert tap í einhverri deild, og Tínu þótti slíkt ástand ekki „konu“ bjóðandi. Ester hafði fyrst farið í vörn fyrir mann sinn, en eftir því sem hún drakk meira gaf hún sig og viðurkenndi að þessi helvítis „bolti“ væri að fara með hjónabandið og heimilislífið. Verst væri þetta stöðuga ójafnvægi milli sorgar og botnlausrar gleði. „Er ekki verst hvað þessi sjálfselska fyrrverandi íþróttahetja, sem gat ekki einu sinni verið viðstödd fæðingu yngsta sonar síns vegna boltans, er orðin spikfeit?“ spyr ég sjálfa mig og velti mér yfir á hina hliðina“ (59).

 

Í fjölskylduboði horfir aðalpersónan á samskipti gestanna utan frá, treystir engum og býst alltaf við hinu versta. Nánustu aðstandendur, eiginmaðurinn Hans, ljúfmenni og fíngerður snillingur, og mamman, léttsnobbað hörkutól, leika stórt hlutverk í sögunni en af meðvirkri eða misskilinni kurteisi horfa þau aðgerðarlaus á aðalpersónuna tærast upp og breytast í hryggðarmynd, með snjóhvítt andlit, starandi augu og þurrar varir, sem fylgir vart fötum lengur.

 

…Eða horfir Hans spyrjandi á mig, vegna þess að ég birtist hér skyndilega upp úr geymslunni með gamla ljósmynd, í náttkjól, um hálftíma eftir að hann kemur heim úr vinnunni? Eitt augnablik vona ég að hann átti sig, gangi á mig og horfist í augu við það að hegðun mín er ekki tilviljun, og gefi mér þannig færi á að segja honum hvað í ósköpunum henti mig fyrir um mánuði síðan. En þegar mér finnst sem Hans sé um það bil að opna munninn heyrist brothljóð innan úr stofunni. Svilinn hefur hrokkið upp úr áfengislúrnum og rekið sig í glervasann sem stóð á borðinu við hlið sófans. Kjarkleysi okkar verður allt að vopni, og nú stöndum við bæði inni í stofu“ (83-4).

 

Stíll Sigrúnar er eftirtektarverður; fágaður og virðist átakalítill á yfirborðinu þar sem lýst er hverdagslegum athöfnum í smáatriðum en hann er í raun útleitinn og súrealískur; hugmyndir þjóta fram og aftur, hrannast upp og tengjast í heildarmyndinni (eða ekki). Ljóðrænu bregður víða fyrir og það er farið fallega með:

 

„Hversu oft má rifja upp draum þar til atburðarás hans byrjar að slitna í sundur, myndir hans að molna og líftími þeirra verður ekki nema andartakið sem það tekur að kalla þær fram? Ég rís upp af koddanum með mynd af landslagi í höfðinu: klettagili í ógurlegri birtu. Svo leggst ég aftur með undarlegan létti í hjarta án þess að vita í raun af hverju, því nú rennur landslagsmyndin saman við fyrstu hugsun dagsins. Og er þar með að eilífu glötuð“ (67-68).

 

Í fyrstu skáldsögu Sigrúnar Pálsdóttur sést greinilega að hún býr yfir ríkri andagift og hefur afburða tök á því sem hún er að gera. Textinn flæðir um mörk veruleika, geðveiki og fantasíu, hvikuls ljóðs og fræðilegrar orðræðu. Það er svo ótal margt sem leynist í Kompunni; brostnar vonir og óuppgerðar sakir, missir, höfnun og sorg. Í síðari hluta bókarinnar, sem er aðeins 15 blaðsíður, er önnur rödd. Þar fer uppgjör fram, hreinsað er úr hillunum og loks skellt í lás. Aðalpersóna sögunnar hafði um stund freistað þess að horfa á tilvist sína „í dýrðarljóma endurlitsins“ en það er vitaskuld dæmt til að mistakast (127). Lífið er meiri myrkrakompa en svo.

Greinin birtist fyrst í Kvennablaðinu, 17. nóvember 2016

 

 

Tengt efni