SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir11. ágúst 2018

HVERNIG DRUKKNAR MAÐUR MEÐ BÖRNUM SÍNUM? Sigrún og Friðgeir

Sigrún Pálsdóttir. Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga. Reykjavík: JPV 2013

“Hvernig drukknar maður með börnum sínum?” Þessi setning úr Ferðasögu Sigrúnar og Friðgeirs eftir Sigrúnu Pálsdóttur sagnfræðing hefur ómað í höfði mér síðan ég lauk við bókina.

Flestar ferðasögur hefjast á brottför að heiman, ævintýrum og sigrum og loks farsælli heimkomu en hér er því ekki að heilsa. Þau hjónakornin fara ung til Bandaríkjanna til náms í læknisfræði í heimstyrjöldinni síðari. Það er ekki auðvelt en allt gengur þeim í haginn enda harðduglegt og metnaðarfullt fólk með brennandi áhuga á að bæta heiminn. En grimm örlög bíða þeirra og það hefur mikil áhrif á mann að vita að þau munu farast ásamt þremur börnum sínum með Goðafossi sem var sökkt af þýskum kafbáti rétt fyrir stríðslok úti fyrir Garðsskaga, þann 10. nóvember 1944.

Þvílík sóun og blóðtaka fyrir þjóðina, 24 manneskjur drukknuðu, 19 var bjargað við illan leik. Tónninn fyrir þessi grimmu örlög er sleginn strax á fyrstu blaðsíðum bókarinnar þegar dregin er upp mynd af hollensku farþegaskipi, Voledam, sem varð fyrir kafbátaárás og 77 börn deyja í náttfötunum sínum og björgunarvestum á kaldri haustnóttu, 400 sjómílur vestur af Skotlandi. En engum kom til hugar að slík örlög biðu íslenskra barna þótt ógnin vofði alls staðar yfir.

Þeim hjónum er fylgt eftir í Bandaríkjunum, lýst er fjölskyldulífi þeirra og framgangi við fræga spítala en Friðgeir var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsprófi frá Harvard og Sigrún hafði rétt lokið kandídatsári sínu þegar þau sneru heim, hún ein örfárra kvenkyns lækna á Íslandi. Þau áttu þriggja ára son áður en þau fóru utan, Óla, en Ragnheiður, barnlaus vinkona Sigrúnar, gætti hans meðan þau fóru að leita fyrir sér um húsnæði og skóla. Það hefur eflaust hefur tekið á þær báðar, Friðgeir fer síðan stutta ferð til Íslands að sækja Óla og fjölskyldan er sameinuð, Sverrir fæðist og loks Sigrún litla sem er pelabarn í heimferðinni. Sigrún hægir á námi sínu og frama með barneignunum en fjölskyldan er hamingjusöm og allt stefnir í bjarta framtíð.

Stuðst er við margvíslegar heimildir, s.s. hjartaskerandi ljósmyndir og ómetanlega dýrmæt bréfasöfn vina og vandamanna, m.a. bréf milli Sigrúnar og Ragnheiðar, ýmis viðtöl og margvíslegar prentaðar bækur, m.a. greinar um Reykjavík á þessum tíma, framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar, framvindu stríðsins og um innviði Gullfoss til að skapa rétta stemningu og rekja slóð þeirra hjóna. Heimildavinna er hin vandaðasta og er þá sama hvort litið er til tilvísana eða útlegginga af hendi höfundar. Oftast vil ég hafa tilvísanir neðanmáls en í þessu tilviki passa þær aftast. Þar segir meðal annars að lík þeirra Óla og Sverris voru þau einu sem fundust.

Saga þeirra Sigrúnar og Friðgeirs er mjög vel skrifuð, hér er ekkert of eða van. Síðasti kaflinn er magnaður, ekkert yfirdrifið, engin væmni, átakanlega sorglegum atburði er lýst eins fallega og hægt er. “Og myrkrið undir yfirborði sjávar sem verður svartara við hvert orð sem reynir að lýsa því sem þar hefur gerst” (183).

 

Greinin birtist fyrst í Kvennablaðinu, 6. janúar 2014

 

Tengt efni