SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn20. janúar 2020

AÐ BJARGA BARNI - OG SJÁLFI. Hjartastaður

Steinunn Sigurðardóttir. Hjartastaður. Reykjavík: Mál og menning 1995, 444 bls.

Ritdómur eftir Sigríði Albertsdóttur.

Ferðalag á vegum úti með blótandi og brennivínsþefjandi ungling í aftursætinu. Varla eftirsóknarvert fyrir þreytta, einstæða móður en nauðsynleg ferð ef bjarga á barni. Svo ályktar Harpa Eir, aðalpersónan í Hjartastað Steinunnar Sigurðardóttur en hún gefst upp á Reykjavíkurlífinu og flýr austur á firði með einkabarnið sem öllum að óvörum hefur tekið upp á því að leggjast í drykkju og drabb. Harpa Eir fær bestu vinkonuna, Heiði, til að skutla þeim mæðgum austur þar sem þær ætla að búa um veturinn. Austur komast þær þrátt fyrir ýmis skakkaföll og í lok bókar er þungu fargi létt af Hörpu og lesandanum sem fær heldur betur óvæntan endi. Hörpu tekst ekki aðeins að forða barninu, a.m.k. um stundarsakir, henni tekst einnig að ljúka upp leyndardóminum um uppruna sinn en hún hefur lengi efast um að hún sé rétt feðruð, svona dökk sem hún er á hörund og öðruvísi. Þannig er ferðin hjörgunarleiðangur í tvennum skilningi, farin til að bjarga barni og finna konu sem veit ekki hver hún er.

 

Hjartastaður er viðamesta verk Steinunnar til þessa, hátt í 400 síður af skemmtilegheitum og óborganlegum lýsingum og tilsvörum í anda höfundar. Aðalpersónurnar, Harpa Eir, dóttirin Edda Sólveig og Heiður bílstjóri eru eins ólíkar og mest má vera, margbrotnar persónur sem nálgast má frá mörgum hliðum, allar gæddar sérstæðum eiginleikum og ekki síður minnisstæðar en glæsikvendið Alda í Tímaþjófnum. Edda er kjaftfor unglingur á villigötum, Heiður ríkur og þekktur flautuleikari, Harpa fátækur og óöruggur sjukraliði sem yrkir í laumi og á ekkert annað í veröldinni en barnið sem nú hefur brugðist rétt eins flestir aðrir. Samskipti þessara þriggja persóna eru þrauthugsuð og einkar sannfærandi. Þær eru tengdar sterkum böndum en ekki má mikið út af bregða svo að pirringurinn komi í ljós. Togstreitan er mikil, bæði á milli móður og barns en einnig á milli vinkvennanna en í þeirra sambandi er Heiður gefandi en Harpa þiggjandi sem öfundar Heiði í laumi. Heiður vill allt fyrir Hörpu gera en öll hennar gæði minna Hörpu á eigin vanmátt svo hún launar Heiði gjarnan greiðana með meinlegum athugsemdum. Þá verður Harpa sterk en Heiður lítil. Samband þeirra er á mörkum ástar og haturs, sterkt, flókið og undarlegtl rétt eins og samband Eddu og Hörpu.

Það eru þessi mögnuðu samskipti, gædd sálfræðilegri dýpt, sem drífa söguna áfram. Inn í þau fléttast huggulegt spjall vinkvennanna þar sem Harpa rifjar upp gömlu, góðu dagana áður en barnið breyttist í skrímsli en inn í þær minningar blandast aðrar verri um meitt og hálfdautt barn. Hún rifjar upp æskuminningar og gamla kærasta, unaðsstundir í útlöndum og syrgir horfið frelsi og horfna hamingjudaga. Þessar upprifjanir sögukonu renna þægilega saman við höktið á þjóðveginum og það er skemmtileg viðbót að kynnast móður Hörpu sem er löngu látin en dúkkar upp í hugarfylgsnum Hörpu þegar minnst varir. Fleiri skrautlegar persónur koma við sögu, sérsinna og sérkennilegt fólk úr ættarflóru Hörpu sem stöllurnar heimsækja á leið sinni; það þarf stundum að rétta úr skönkum þótt stuttir séu, en Harpa minnir lesendur ósjaldan á hve litil hún er og skrítin!

Eins og við er að búast af Steinunni eru þær lýsingar fullar af hálfkæringi, spotti og spéi og kalla á bros og jafnvel hrossahlátur lesandans. En Steinunn er ekki bara fyndin, hún er snillingur í að flétta saman gáska og kvöl svo úr verður sérstæð og manneskjuleg blanda. Þó Harpa grínist með sjálfa sig og aðra er hún á háalvarlegu ferðalagi upp á líf og dauða og lesandinn missir ekki af þeim sannleika þrátt fyrir léttleikann. Enda óbærilegur léttleiki sem Harpa brynjar sig með í sárum söknuði eftir saklausu stelpuskotti með koparrauðar krullur sem hún elskar allra mest og best

Það má segja að Hjartastaður sé bæði þroskasaga og gamansöm ferðasaga með harmþrungnu, ívafi - eða öfugt - en kannski er hun fyrst og síðast ástarsaga. Hún fjallar um ástina í öllum sínum margbreytilegu myndum, brokkgenga vináttuást, ást á milli foreldra og barna, ást á milli karls og konu: ást sem er eins og íslenska landslagið, stundum græn, björt og safarík en einnig dökk, dimm og drungaleg. Hjartastaður birtir sannfærandi og eftirminnilega mynd af mannlegum samskiptum, sorgum, gleði og væntingum sem brandaraflaumur Steinunnar nær aldrei að kæfa.

Ritdómurinn birtist áður í DV 27. nóv. 1995

 

Tengt efni