SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 3. maí 2019

TÍMI, MINNINGAR, ÞRÁHYGGJA. Saga af bláu sumri

Þórdís Björnsdóttir. Saga af bláu sumri. Reykjavík: Bjartur 2007, 150 bls.

 

Saga af bláu sumri (2007) eftir Þórdísi Björnsdóttur (f. 1978) er fyrstu persónu frásögn stúlku sem dvelst í húsi ömmu sinnar yfir sumartímann. Stúlkan kom með rútunni, ein á ferð með gamla og lúna tösku og pakka af kaffi, og ætlar augljóslega að dvelja um hríð en tilgangurinn er óljós. Stúlkan lætur hugann reika, rifjar upp bernskuminningar um ömmu sína, hlustar á klassíska tónlist, sötrar kaffið og leggst í bað. Einveran er yfirþyrmandi, stúlkan fær kvíðahnút í magann yfir því einu að þurfa að fara út í búð og mókir í vitundarleysi á gólfinu eða undir rúmi. Einhver undirliggjandi ógn er á sveimi : „Sólarhringarnir siluðust áfram hægir og yfirvegaðir, en uppfullir af fyrirboðum“ (62). Dauðinn er alls staðar, amman er nýlátin, gamall úrsmiður vitjar leiðis konu sinnar á hverjum degi og sögumaðurinn sjálfur hefur séð drauga frá unga aldri.

Persónur sögunnar eru allar nafnlausar og virðast hvorki vera lífs né liðnar. Krabbamaðurinn er óhugnanlegur, rödd hans er „einkennilega hol líkt og hún bærist innan úr helli þangað sem enginn lifandi manneskja hefði nokkurn tímann stigið fæti, ekkert kvikt nema blóðmaurar og sveltandi dýr“ (43). Á Klukkusafninu er önnur (eða sama?) stúlka en hún vinnur hjá úrsmiðnum og nú upphefst laumulegur eltingarleikur þar sem raunveruleiki og fantasía renna saman í undarlegri og þjáningarfullri þráhyggju: „Í huganum sá ég stúlkuna ganga burt og halda heimleiðis, og jafnvel dökkblár augnlitur hennar í bland við grænan og gráan var mér sýnilegur þaðan sem ég sat eins og ugla á grein. Hljóðið var notalegt þegar létt kvöldgolan lék um laufblöðin , minnti mig á framandi höf og fjarlægja heima, en í miðjum niðnum heyrði ég sjálfa mig segja eitthvað í hálfum hljóðum sem ég vissi ekki alveg hvað var“ (51).

Stúlkan á Klukkusafninu, önnur hlið eða annað sjálf sögumanns, skrifar hugsanir sínar niður en hún óttast að einhver muni stelast í bókina og lesa hana (77). Það er einmitt það sem hin stúlkan gerir þegar hún laumast inn í hús úrsmiðsins en eftir lesturinn fær hún nagandi samviskubit og leggst í langt mók eftir miklar geðshræringar. Í lokin er eins og dauðinn sé í nánd, baðkerið er fullt af heitu vatni, stúlkan hugsar um orðin sem hún las í dagbókinni „og fylltist mikilli auðmýkt gagnvart þeim leyndardómi sem héðan í frá yrði alltaf ósnertanlegur, en fæli samt í sér óljósa minningu um eitthvað ljúft og kvalafullt“ (125).

Sagan er þéttofin, stíllinn áreynslulaus, ljóðrænn og fallegur og minnir á kyrrleiksástríðuna í skáldskap Gyrðis og Jóns Kalmans. Í textanum eru undirliggjandi ógn og dauði ásamt ást og fegurð og bókarkápan er í fullkomnu samræmi, þar má sjá tvær stúlkur á gamalli ljósmynd en andlit þeirra hafa verið skorin burt af fullkomnu miskunnarleysi. Saga af bláu sumri er fyrsta skáldsaga Þórdísar sem er vel kunn fyrir ljóðagerð. Seintekin og sérkennileg skáldsaga um tíma, minningar, þráhyggju og leit - vekur upp spurningar en svarar þeim ekki.

Ritdómurinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2007.

 

Tengt efni