SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir25. júní 2021

„ÞAÐ ER EITTHVAÐ ÁFALLATENGT VIÐ ÞAÐ AÐ HELLA UPP Á KAFFI UM MIÐJA NÓTT.“

Að telja upp í milljón er skáldsaga eftir Önnu Hafþórsdóttur. Hún var önnur tveggja sem bar sigur úr býtum í handritakeppni Forlagsins, Nýjar raddir, fyrr á árinu og kom bókin út hjá fyrrnefndu forlagi í kjölfarið.
 
Þetta er fyrsta skáldsaga Önnu en það er enginn byrjendabragur á henni. Sagan er margslungin þrátt fyrir að vera einungis 167 blaðsíður; fjallað er um fjölskyldubönd, ábyrgð, móðurhlutverkið, geðveiki, einmanaleika, höfnun, taumhald, svik, kynferðisofbeldi og barnleysi.
 
Í forgrunni er unga konan Rakel sem samhliða því að upplifa sambandsslit rifjar upp erfiða æsku og áföll sem hún hefur byrgt inni en brjótast nú fram. Í stað þess að takast á við tilveruna taldi mamma Rakelar upp á milljón og lét allt annað sitja á hakanum. Í erfiðleikum sínum er Rakel farin að líkjast móður sinni; hún telur ýmislegt til að sefja sjálfa sig „og núna þramma ég á sama hátt og mamma gerði, svona ráðalaus og óttaslegin.“ (bls. 37)
 
Það sem er einna athyglisverðast í þessari vel skrifuðu sögu er umfjöllunin um barnleysið. Tíu ára gömul telur Rakel víst að hún sé ólétt og fer að vinna að því hörðum höndum að undirbúa komu barnsins. Á yfirborðinu er þetta nokkuð skondin frásögn af barni með ríkt ímyndunarafl en undir yfirborðinu er saga af barni sem reynir að rækja foreldrahlutverkið þar sem enginn annar sinnir því.
 
Þetta kann að vera ástæðan fyrir því að Rakel verður mjög afhuga öllum barneignum og um það hverfist sagan að stórum hluta.
 
Snemma í sambandinu eru Rakel og Örn sammála um að eignast ekki börn. Ef Rakel hefur orð á því við annað fólk þá fær hún „að venju vandræðalega þögn og augnaráð sem bæði lýsti vorkunn og pirringi.“ (bls. 44) Gömul vinkona hennar verður einnig forviða yfir því að Rakel eigi kærasta en engin börn. Þar sem hún er sjálf komin með tvö eiga þær ekkert sameiginlegt; á milli þeirra er ævaforn „samskiptaveggur sem stendur á milli kvenna með og án barna.“ (bls. 107) Í þessum samskiptum öllum er Rakel sett út í kuldann; hún sker sig úr og er jaðarsett.
 
Síðan kemur að því að Erni snýst hugur, hann segist tilbúinn til þess að eignast börn og frekar tvö en eitt (61). Rakel rekst því á enn einn vegginn:
 
Eins og allir aðrir ætlar hann að hafa skoðun á því hvort ég fæði barn í þennan heim eða ekki. Hann, og allt þetta fólk sem kemur mér ekkert við, lætur mér stanslaust líða eins og ég hafi tekið ákvörðun sem var ekki mín að taka og mér líður alltaf eins og allir fyrirlíti mig fyrir það. (63)
 
Barnleysið liggur eins og rauður þráður í gegnum söguna alla. Þarna tekst höfundi afar vel upp; fjallað er af mikilli dýpt um þá skömm og sektarkennd sem konan upplifir þegar félagslegu taumhaldi er stillt upp gegn sjálfsákvörðunarrétti konunnar yfir eigin líkama. Þeir eru þó fleiri þræðirnir og eru þeir snyrtilega bundnir saman undir lokin, í kjölfar áfalls og kaffibolla um miðja nótt.
 

Tengt efni