SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir11. mars 2019

MINNISVARÐI UM MERKA KONU. Reisubók Guðríðar

Steinunn Jóhannesdóttir. Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Skáldsaga byggð á heimildum. Reykjavík: Mál og menning 2001

 

Mikil rannsóknarvinna liggur að baki fyrstu skáldsögu Steinunnar Jóhannesdóttur sem hún nefnir Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Titillinn kallast á við titla íslenskra ferðasagna frá sautjándu öld enda er skáldsaga Steinunnar öðrum þræði skrifuð í anda þeirrar hefðar og ein helsta heimild hennar fyrir sögu Guðríðar er Reisubók séra Ólafs Egilssonar (gefin út á fyrri hluta sautjándu aldar). Séra Ólafur var þjáningabróðir Guðríðar og þeirra tæplega fjögur hundruð annarra Íslendinga sem rænt var á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum árið 1627 og færðir í þrældómsvist til Alsír – eða í „Barbaríið“ eins og það var kallað.

 

Gegn ímynd „Tyrkja-Guddu“

Flestir Íslendingar sem komnir eru til manns hafa heyrt Guðríðar Símonardóttur getið. Því miður þekkja hana líklega flestir sem „Tyrkja-Guddu“ og minnast hennar sem „kerlingarinnar“ sem sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson kvæntist – þótt hún væri mörgum árum eldri en hann. Fátt annað sat a.m.k. eftir í mínum kolli eftir hefðbundinn barnaskólalærdóm.

 

Framandi þjóðfélag - ný reynsla

Þótt vissulega hafi verið lögð áhersla á hversu hroðaleg mannrán svonefndra „Tyrkja“ á Íslandi hefðu verið í sögukennslunni í grunnskólanum var gerð lítil tilraun til að nálgast þessa sögu á forsendum hinna brottnumdu einstaklinga. Enn síður var gerð tilraun til þess að gefa nemendum innsýn inn í það framandi þjóðfélag þar sem hinir hrjáðu Íslendingar máttu þreyja sína þrælavist í tæpan áratug; þ.e.a.s. þeir sem eftir þann tíma voru leystir úr þrældómi og færðir aftur heim. En mun fleiri voru þeir sem aldrei áttu afturkvæmt og í þeim hópi voru meðal annars öll börnin. Reisubók Guðríðar Símonardóttur ætti því að vera öllum sögukennurum kærkomið „ítarefni“ því þótt hér sé um skáldsögu byggða á heimildum að ræða, en ekki sagnfræðirit, ætti verkið að vera vel til þess fallið að vekja áhuga og skilning nemenda á þeim mannlega harmleik sem Tyrkjaránið hafði í för með sér fyrir mikinn fjölda íslenskra fjölskyldna.

 

Ránið - Bréfið - Ferðin heim

Reisubók Guðríðar Símonardóttur skiptist í þrjá hluta: Ránið, Bréfið og Ferðin heim. Sjónarhornið fylgir Guðrúnu allt frá því að hún er ung og hamingjusöm eiginkona og móðir í Vestmannaeyjum sumarið 1627, í gegnum rán, mansal og þrældóm í níu ár í Alsír, og þar til hún er keypt úr ánauð ásamt 36 öðrum Íslendingum og hópi karlmanna frá Danmörku og Noregi. Lýst er hinni löngu leið frá Alsír til Kaupmannahafnar, vetrardvöl í Höfn, þar sem hinum unga guðfræðingi Hallgrími Pétursssyni er falið að uppfræða Íslendingana í kristindómi, og að lokum fylgjum við þeim hjónaleysum heim að ströndum Íslands sumarið 1637. Innri tími frásagnarinnar spannar því um tíu ár, Guðrún er 39 ára og nýr kafli er að hefjast í lífi hennar en hennar mikla reisa endar hér, sem og frásögnin.

Reisubók Guðríðar er mikil bók, bæði að vexti og innihaldi. Frásögnin, sem nær yfir u.þ.b. 450 blaðsíður, er lifandi og mjög spennandi á köflum. Steinunni tekst afar vel að endurskapa tímann og umhverfið stendur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesandans enda leggur höfundur mikla rækt við að lýsa hinum framandi heimi; hýbýlum manna, klæðnaði o.s.frv. Slíkar lýsingar verða aldrei leiðigjarnar því þeim er lýst út frá sjónarhorni furðu sleginna Íslendinga sem aldrei hafði rennt í grun hvers kyns fjölbreytileika heimurinn byggi yfir. Hinir hernumdu Íslendingar geta ekki annað en dáðst að sundurgerðinni í klæðaburði herraþjóðarinnar, stórkostlegum híbýlum þeirra og fjölbreytilegri matargerðinni. Þótt flestir þrái heimalandið eru þó nokkrir sem kunna að meta gæði nýja landsins og láta jafnvel „turnast“ til nýrrar trúar.

 

Innra og ytra stríð Guðríðar

Þótt Steinunn leggi mikla rækt við lýsingu sögusviðsins er það þó fyrst og fremst persóna Guðríðar sjálfrar sem heldur frásögninni saman. Það er hennar innra og ytra stríð sem myndar þann þráð sem gildastur er í þeirri mynd sem sagan bregður upp. Og hér tekst Steinunni frábærlega upp, enda skynjar lesandinn mikla væntumþykju höfundar til söguhetju sinnar allt frá fyrstu síðu til hinnar síðustu. Henni tekst á sannfærandi hátt að miðla sorg, þjáningu og togstreitu þessarar konu sem numin er brott frá eiginmanni sínum 29 ára gömul, upplifir mikla sorg en líka gleðistundir á sínu langa ferðalagi og þarf síðan að taka erfiðustu ákvörðun lífs síns þegar hún skilur 12 ára gamlan son sinn eftir í Barbaríinu þegar hún sjálf á kost á heimför. Trúarlífið skiptir Guðríði miklu máli og spurningar um tilgang Guðs og refsivönd hans eru áleitnar alla söguna í gegn. Persónulýsing Guðríðar er hvergi einföld, heldur þvert á móti miðlar höfundur til okkar flókinni og samsettri mynd sem lifir með lesanda lengi að lestrinum loknum.

 

Rannsóknarvinna og heimildir

Í eftirmála sem fylgir skáldsögunni lýsir Steinunn rannsóknarvinnu sinni í grófum dráttum og gerir grein fyrir hvernig hún aflaði sér þekkingar um sögupersónur, sögustaði og sögutíma með lestri fræðirita, viðtölum við fræðimenn og síðast en ekki síst með ferðalögum á sögustaði, allt frá Vestmannaeyjum til Alsírborgar. Rannsóknarvinnan og samning bókarinnar spannar sex ára tímabil og er fróðlegt að lesa um undirbúning og vinnubrögð höfundar og ekki síst að finna fyrir ástríðu hennar og væntumþykju gagnvart viðfangsefninu. Með sögunni hefur Steinunn Jóhannesdóttir reist Guðríði Símonardóttur verðugan minnisvarða og jafnframt gefið okkur innsýn inn í örlög fjölmargra annarra herleiddra Íslendinga.

 

[Ragnhildur Hólmgeirsdóttir fjallaði um bréfaskriftir sem tengjast Tyrkjaráninu í þættinum Víðsjá á rás 1 á RUV, 4. mars 2018]

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 21. nóvember 2001, bls. 6

 

 

Tengt efni