SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Jóhannesdóttir

Steinunn Jóhannesdóttir er fædd 24. maí 1948 á Akranesi og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru Jóhannes Finnsson og Bjarnfríður Leósdóttir.

Steinunn lauk stúdentsprófi frá Mennaskólanum á Akureyri 1967 og stundaði síðan frönskunám við háskólann í Toulouse veturinn 1967-1968. Þá snéri hún sér að leiklist og útskrifaðist frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1970. Framhaldsnám í leiklist stundaði Steinunn við Statens Sceneskola í Stokkhólmi veturinn 1970-1971. Þá lagði hún einnig stund á nám í leikhúsfræðum og sálarfræði við Stokkhólmsháskóla veturinn 1971-1972 og í sálarfræði við HÍ 1978-1979. Steinunn hefur að auki sótt ýmis námskeið fyrir leikara og leikstjóra, leikskáld og rithöfunda á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð.

Steinunn starfaði sem leikari og leikstjóri um árabil og hefur skrifað greinar og pistla í ýmis blöð og tímarit. Eftir hana liggja leikrit og stuttmyndahandrit, barna- og unglingasögur, smásögur, ævisögur og heimildarit.

Skáldsögur Steinunnar um Guðríði Símonardóttur og Hallgrím Pétursson eru byggðar á mikilli og vandaðri heimildavinnu og hafa notið mikilla vinsælda. Sú fyrrnefnda, Reisubók Guðríðar Símonardóttur, hefur verið þýdd á fjölda tungumála.

Steinunn er gift Einari Karli Haraldssyni og eiga þau þrjár uppkomnar dætur.

Heimildir

Heimasíða Steinunnar Jóhannesdóttur. Mynd af höfundi er tekin af heimasíðunni.


Ritaskrá

 • 2014 Jólin hans Hallgríms (myndir Anna Cynthia Leplar)
 • 2010 Heimanfylgja. Skáldsaga um uppvöxt Hallgríms Péturssonar byggð á heimildum um ættfólk hans og samtíð
 • 2001 Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Skáldsaga byggð á heimildum
 • 1994 Saga Halldóru Briem. Kveðja frá annarri strönd
 • 1989 Mamma fer á þing (ljósmyndir Ib Rahbek Clausen)
 • 1985 Flautan og vindurinn (teikningar Valgarður Gunnarsson)

 

Leikrit (útgefin)

 • 1995 Heimur Guðríðar. Síðasta heimsókn Guðríðar Símonardóttur í kirkju Hallgríms. Eintal fyrir þrjá leikara og orgel
 • 1993 Ferðalok
 • 1981 Dans á rósum

 

Stuttmyndir

 • Ferðalag Fríðu

 

Verðlaun og viðurkenningar

 • 1987  Viðurkenning Sveriges Radio fyrir smásöguna „Ett yllelinne“
 • 1987  1.-3. verðlaun fyrir Ferðalag Fríðu í stuttmyndakeppni Listahátíðar Reykjavíkur
 • 1986  Viðurkenning í smásagnakeppni Listahátíðar Reykjavíkur fyrir „Fagrafold“
 • 1985  Verðlaun Námsgagnastofnunar um léttlestrarefni fyrir Flautan og vindurinn

 

Tilnefningar

 • 1994 Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ævisögu Halldóru Briem

 

Þýðingar

 • 1999 Erland Kiøsterud: Pieta: til hinstu stundar (búið til flutnings í útvarpi af Lene Therese Teigen)
 • 1997 Marianne Goldman: Krabbasvalirnar

 

Heimasíða

http://a5.is/?page_id=1752

Tengt efni