SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir10. apríl 2019

ÞRETTÁN ALVÖRUSÖGUR. Ysta brún

Elín Ebba Gunnarsdóttir. Ysta brún. Reykjavík: Vaka-Helgafell 1999, 167 bls.

Elín Ebba Gunnarsdóttir (1953) hlaut verðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrstu bók sína Sumar sögur. Hún sendi frá sér smásagnasafn 1999 sem heitir Ysta brún. Þar er sagt frá fólki sem allt eins gæti verið nágrannar manns. Á Ystubrún 8 býr t.d. maður sem er að tapa geðheilsunni vegna svefnleysis, við sömu götu er gamall maður að reyna að forðast afskipti þeirra sem vilja setja hann á stofnun, við hliðina er hús kaldhæðins rithöfundar sem bítur af sér alla blaðamenn og á sjöundu hæð í blokk nr. 19 glíma lítil systkini við erfiðar heimilisaðstæður. Sögusvið allra sagnanna er þetta afmarkaða svæði sem gæti verið gata í Reykjavík. Maður einn sem tortryggir konu sína horfir t.d. út um gluggann á hús svefnlausa mannsins og systur í einni sögunni tala um það sem gerðist í annarri sögu aðeins fyrr í bókinni. Þessar tengingar í rúmi og tíma eru frekar yfirborðslegar og jafnvel óþarfar. Þótt sögurnar séu allar samtímasögur í raunsæislegum stíl þar sem vandamálum hversdagsins er lýst, eru þær allólíkar sín á milli.

Í Ystu brún er fjallað af vægðarleysi um samskipti fólks, útbrunnin hjónabönd og bilið milli kynslóða. Karlmennirnir í bókinni eiga flestir það sameiginlegt að vera vonlausir. Einn er t.d. fótalaus og skeytir skapi sínu á fórnfúsri konu sinni, annar er harðstjóri í eðli sínu, sá þriðji er geðveikur og svo mætti lengi telja. Þeir hafa yfirleitt verið giftir lengi en eru ófullnægðir, vonsviknir og lífsþreyttir. Ágætt dæmi um þetta er eiginmaðurinn í sögu sem ber það furðulega nafn, Smokkfiskur í basilikusósu. Hann er óaðlaðandi, hirðulaus um útlit sitt og algerlega skeytingarlaus um konu sína þar til hann fer að hafa áhyggjur af því að annar karlmaður sé í spilinu. Þolinmæði og umhyggja konu hans er með öllu óskiljanleg. Persónur sagnanna eru yfirleitt fjarlægar og nafnlausar, ógæfufólk sem maður kærir sig lítið um að kynnast nánar.

Sögurnar birta brot úr daglegu lífi og hefjast flestar í miðjum klíðum. Lesandinn er t.d. skyndilega áhorfandi að heimiliserjum þar sem langvarandi óánægja og biturð krauma undir niðri eða brjótast upp á yfirborðið með ýmsum hætti. Jafnsnögglega er manni kippt út úr sögunni án þess að nokkur lausn sé í sjónmáli eða von um betri tíð. Sögurnar enda einhvern veginn ekki - sem er stærsti kostur þeirra því efnið heldur áfram að leita á mann að lestri loknum. Þessar þrettán sögur eru sundurleitar eins og hvunndagurinn. Þær varpa allar raunsæju ljósi á niðurdrepandi aðstæður hamingjusnauðra persóna. Elínu Ebbu er mikið niðri fyrir og alvaran ræður ríkjum í Ystu brún. Enda er þrettán óhappatala.

Ritdómurinn birtist áður í DV, 8. desember 1999

 

Tengt efni