Elín Ebba Gunnarsdóttir
Elín Ebba Gunnarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1953.
Elín Ebba er stúdent frá MR 1973 og hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands 1981. Hún kom einnig við í bókmenntafræði HÍ, en lauk þar ekki prófi.
Elín Ebba vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 1997 fyrir fyrstu bók sína, smásagnasveiginn Sumar Sögur. Bókin var þýdd á þýsku af Karl-Ludwig Wetzig og gefin út af Suhrkamp forlaginu. Þá kom smásagnasafnið Ysta brún út 1999. Elín Ebba á ljóð í Blánótt; Ljóð Listahátíðar 1996 og í tveimur ljóðabókum eftir höfunda Ritlistarhóps Kópavogs; eitt í Sköpun frá 2001 sem Baltasar myndskreytti og annað í bókinni Í augsýn frá 2009. Auk þess á Elín Ebba smásögu í Þrisvar þrjár sögur; bók sem var afrakstur samstarfs Félags íslenskra bókaútgefenda og bóksala og gefin út í tilefni af Viku bókarinnar 1999. Tvær sögur birtust svo í Stefnumót; smásögum Listahátíðar árið 2000.
Þýddar sögur eftir Elínu Ebbu hafa birst í safnritinu Nordiske noveller i 1990´erne (1999), í Wortlaut Island, Isländische Gegenwartsliterature (2000), í Meren neitoja ja meren miehiä, safnriti íslenskra smásagna á finnsku (2001) og í Uppspuna, nýjum íslenskum smásögum (2004) í samantekt Rúnars Helga Vignissonar.
Árið 2009 kom út Ástvinamissir vegna sjálfsvígs, handbók til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur, sem Elín Ebba þýddi, staðfærði og jók við af vef Survivors of Suicide 2009. Þessi bæklingur fæst enn endurgjaldslaust hjá Biskupsstofu, sem ásamt Skálholtsútgáfunni sá og sér um alla umsetningu og prentun hans.
Fjórar smásögur eftir Oscar Wilde í þýðingu höfundar voru lesnar á rás 1; Fyrirmyndarmilljónerinn, Rósin og næturgalinn, Sfinxinn sem átti sér engin leyndarmál og Prinsinn hamingjusami. Þær þýðingar hafa ekki birst á prenti.
Elín Ebba er gift Ármanni Hauki Benediktssyni og hefur eignast tvær dætur og tvo syni.
Ritaskrá
- 2009 Ástvinamissir vegna sjálfsvígs. Handbók til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur
- 2004 Ding, smásaga í Uppspuna
- 2000 Drengir, derhúfa og bambusprik, smásaga í Stefnumót (smásögur listahátíðar)
- 2000 Brotinn lykill, smásaga í Stefnumót (smásögur listahátíðar)
- 1999 Ysta Brún
- 1999 Smásaga í Þrisvar þrjár sögur
- 1997 Sumar sögur
Verðlaun og viðurkenningar
- 1997 Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Sumar sögur
Þýðingar
- 2001 Smásaga í Meren neitoja ja meren miehiä, safnrit íslenskra smásagna á finnsku (ritstj. Seija Holopainen)
- 2000 Jener sommer in Island (Karl-Ludwig Wetzig þýddi á þýsku)
- 2000 Smásaga í Wortlaut Island, Isländische Gegenwartsliterature
- 1999 „Sólmundur“, smásaga í Nordiske noveller i 1990'erne