SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir11. desember 2021

"AÐ BÚA VIÐ VELSÆLD OG KYNLÍF Í STANDARD LOFTHÆÐ." Systu megin

Steinunn Sigurðardóttir. Systu megin. Leiksaga. Reykjavík: Mál og menning

 

„Að búa við velsæld og kynlíf í standard lofthæð“

Óhætt er að segja að bókmenntaumræðan sé fjörug í fjölmiðlunum um þessar mundir. Bergsveinn Birgisson sakar nú Ásgeir Jónsson um ritstuld og Guðmundur Andri er ekki hrifinn af hugmynd Braga Páls um að drepa Arnald Indriðason í samnefndri bók. Einnig spunnust umræður um Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur sem fjallað var um í Kiljunni nýverið. Þeir Árni Óskarsson og Þorleifur Hauksson skrifuðu grein í Fréttablaðið um að umfjöllunin hefði verið villandi í þættinum, sem Þorgeir Tryggvason svaraði síðan á facebook-síðu sinni. Það er gaman að sjá að enn ólgar blóð í bókmenntaþjóðinni og að fólk nenni að hafa skoðun á skáldskap.

Dolludrós
Umrædd og umdeild bók Steinunnar, Systu megin, fjallar um konu rétt skriðna yfir þrítugt sem lifir undir fátæktarmörkum og utan bótakerfis í ömurlegri kjallaraholu í Reykjavík (mynd á bókarkápu). Hún dregur fram lífið með dósasöfnun og ruslatunnuróti og þarf að velta fyrir sér hverri krónu. Sagan gerist um jól, á einum af þeim tímapunktum ársins þar sem fólk finnur sárast til fátæktar sinnar.
 
Systa man betri daga með gleðilegum jólum á Fjólugötunni og sveitasælu í Fljótshlíð sem gerir hlutskipti hennar síst betra þótt hún orni sér við minningarnar. Ljóst er af þeim hugrenningum að ferlíkið móðir hennar hefur líklega átt við andlega erfiðleika að glíma, kannski afleiðingar skorts í bernsku, og faðirinn var oft fjarverandi á sjónum en sinnti Systu og litla bróður af alúð þegar hann var í landi uns hann féll frá þegar Systa var 14 ára. Eftir það gekk hún Brósa sínum í foreldrastað; „en hver gekk mér í hvaða stað?“ spyr hún sjálfa sig í allsleysi sínu og einstæðingsskap (63).
 
Þegar ég velti Mömmu fyrir mér, sem ég geri nú helst sem minnst af, þá verður ekki hjá þeim sannleika komist að þetta er nískasta manneskja sem uppi hefur verið í samanlagðri heimskristninni. Leið hann Faðir minn sálugi mjög fyrir það, sérstaklega að Mamma sparaði ekki bara við okkur alsystkinin í mat heldur líka í klæðnaði. Áttum við Brósi bró tæpast til skiptanna á köflum.
 
Af hrakningum sínum í lífinu hefur Systa fengið þá hugmynd að hún eigi sér tæplega tilverurétt; „einstaklingur eins og ég“, „dolludrós“ og „dósasysturafmán“ sem „á auðvitað ekki að sjást.“ Löngum hefur verið horft í aðra átt þegar rætt er um fátækt á Íslandi og helst viljum við sem minnst af henni vita en hún er sannarlega skammarblettur á okkar ríka samfélagi. Systa lítur svo á að tilveran sé takmörkuð, „Mín tilvera auðvitað alveg sérstaklega, sem kemur til af mínum eigin takmörkunum“ (87). Hana langar í barn, hana langar til að vera snert en hvorugt hlotnast henni. Vitað er að fátækt brýtur sjálfsvirðinguna niður og það má glöggt sjá af reynslu, aðstæðum og sjálfsmynd Systu. En saga hennar er sögð án biturðar, án reiði, án fordæmingar.
 
Aðlögunarhæfni er það sem hefur skilað mannkyninu áfram í lífinu og sannarlega hefur Systa allar klær úti til að afla sér lífsbjargar. Dregin er upp sérlega íronísk mynd af útsjónar- og nægjusemi Systu. Hún sér tækifæri í óborguðu kaffi, almenningssalerni, bóklestri á bókasafninu og ábót á súpuna, hún áttar sig á mikilvæginu sem felst í „orkugjöf sykurmolans“ og happinu í að komast yfir „torfengnar hitaeiningar.“ Dapurlegt og meinfyndið í senn.
 
Fjárfest í kjötsúpu
Fornlegur stíll og einstakur húmor skapa í sögunni spennuþrungið tvítog, nístandi íroníu sem Steinunn hefur svo gott vald á. Orð eins og samastaðarígildi, plús, markaðsverð, á ársgrundvelli, þvottaefnisútgjöld, skortur á loftgæðum, fjárfesting í kjötsúpu, vítamínstatus og næringar- og stoðkerfisástand sem Systa notar til að lýsa aðstæðum sínum hljóma eins og úr munni hagfræðings eða stjórnmálamanns sem talar í frösum í fjölmiðlum. Kafli sem ber heitið Næringarkerfið lýsir því hvað Systa borðar allan ársins hring og er í senn meinhæðinn og sárgrætilegur, uppsettur eins og næringarfræðileg matardagbók sem þó inniheldur alltof lítið af mat og bætiefnum.
 
Alla daga, hafragrautur. Á laugardögum með eplabitum úr hálfu epli, þegar markaðsverð er hagstætt. Á sunnudögum með hinum helmingnum af eplinu. Grautur soðinn með kanil, ef birgðastaða á kanil leyfir.
 
Særð systkini
Undirtitill sögunnar er leiksaga, formið er brotið upp með leikþáttum og persónur bresta jafnvel í söng. Brotin eru í anda absúrdisma og þar sér lesandinn aðstæður Systu í mun grimmdarlegra ljósi en í sögunni. Þar koma m.a. fram hið hrokafulla og loðpelsaklædda jólafólk sem er skeytingarlaust um aðbúnað annarra og þrælahaldarinn Ketill sem ásælist starfskrafta og frelsi Systu. Önnur absúrd sögupersóna er einfætta hárgreiðslukonan Lóló sem „stendur höllum fæti í sömu sporum“ (47); útigangskona sem hefur misst allt og er enn verr sett en Systa. Styttan af Mömmu birtist af og til með miklar skoðanir framtíðaráformum Systu. Þar er líka samtal „særðra systkina“ (132), þar sem draumar eru byggðir upp og rifnir jafnóðum niður svo sker í hjartað.
 
„Ég veit að margt er það í lífi venjulegs fólks sem ég ber ekki skynbragð á, svosem það að búa við velsæld og kynlíf í standard lofthæð, en það er líka margt sem almenningur mundi ekki átta sig á í mínu lífi“ (121) segir Systa. Fátæktin er söm við sig, hvort sem hún stafar af nísku, andlegri og líkamlegri, eða misskiptingu auðsins sem skapast í þjóðfélaginu. Systa og Brósi voru vanrækt sem börn, svelt og neitað um ást og snertingu. Það hefur sínar afleiðingar, Systa er skorturinn uppmálaður, Brósi lætur allt yfir sig ganga fyrir ástina. Það versta sem til er hjá mannkyni er níska og skeytingarleysi.
 
„Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítilmagna eins og sjálfri mér“ (155) segir Systa og er gott að hafa þetta í huga í allsnægtunum.

 

Tengt efni