SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir13. desember 2021

TENGSLALEYSI, VANLÍÐAN OG ÓÞÆGILEG LEYNDARMÁL. Þú sérð mig ekki

Eva Björg Ægisdóttir. Þú sérð mig ekki. Reykjavík: Bjartur 2021, 376 bls.
 
Eva Björg Ægisdóttir hefur komið eins og ferskur blær inn í íslenska glæpasagnaflóru síðustu ár. Frá því að hennar fyrsta bók, Marrið í stiganum, kom út árið 2018 hefur hún sent frá sér nýja glæpasögu árlega. Óhætt er að segja að Evu Björgu hafi verið tekið fagnandi af glæpasagnalesendum en frumraun hennar hlaut bæði Svartfuglinn 2018 og Íslensku hljóðbókarverðlaunin 2020. Þá hlaut Eva Björg einnig „rýting“ Samtaka breskra glæpasagnahöfunda í flokknum nýliði eða „nýtt blóð“ („New blood“) ársins 2021 fyrir sömu bók sem nú hefur verið þýdd á nokkur tungumál.
 
Þú sérð mig ekki er fjórða glæpasaga Evu Bjargar en ólíkt hinum þremur er lögreglukonan Elma ekki í aðalhlutverki þótt á hana sé minnst í sögulok. Sagan gerist eina helgi í nóvember 2017 á glæsihóteli á Snæfellsnesi þar sem hin stórefnaða Snæbergsfjölskylda hefur safnast saman til að halda upp á afmæli ættföðurins.
 
Snæbergsfjölskyldan er vel þekkt í samfélaginu, myndir af meðlimum hennar prýða gjarnan síður fræga fólksins í fjölmiðlum og margir hverjir eiga sér stóran fylgjendahóp á samfélagsmiðlum. Fjölskyldan er því allt í senn fræg og rík; dýrkuð og dáð. En undir glansmyndinni lúra tengslaleysi, vanlíðan og óþægileg leyndarmál. Snemma í sögunni fá lesendur enda aðra mynd af fjölskyldunni en blasir við opinberlega:
 
Í fjölskyldunni eru margir skaphundar sem gelta ansi hátt. Ég hef séð áður í þessari fjölskyldu hvernig ein smávægileg athugasemd getur orðið kveikja að heiftarlegu rifrildi, þar sem einhver segir eitthvað sem betur hefði verið látið ósagt og annar rýkur út. Til að skilja hvernig þau eru er líklegast best að ímynda sér hóp af flóðhestum að baða sig í alltof lítilli tjörn; hver rekst utan í annan. Þegar svona sterkir persónuleikar koma saman er aldrei að vita hvað gerist en þó er öruggt að á einhverjum tímapunkti sýður upp úr. (30)
 
Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að afmælisfögnuðurinn á Snæfellsnesinu snúist fljótlega upp í andhverfu sína. Þegar áfengið flæðir og skyldmennin hittast eftir margra ára aðskilnað koma upp á yfirborðið ýmis gömul leyndarmál og særindi. Þá er auk þess framinn alvarlegur glæpur þótt lesanda verði raunar hvorki ljóst nærri strax hvert fórnarlambið er né hver framdi ódæðið. Allir fjölskyldumeðlimir og starfsfólk hótelsins liggja þar með undir grun sem bæði þolandi og gerandi en því reynir skemmtilega á lesandann að lesa í vísbendingar og draga ályktanir við lesturinn.
 
Persónugallerí sögunnar er stórt og fjölbreytilegt eins og vænta má þegar samskiptum heillar stórfjölskyldu er lýst. Það er því einkar gott að fremst í bókinni skuli vera ættartré svo hægt sé að glöggva sig á tengslum persóna. Eva Björg velur þá leið að skipta sjónarhorni sögunnar á milli ólíkra fjölskyldumeðlima Snæbergsfjölskyldunnar; Petru Snæberg, Leu Snæberg og Tryggva; Irmu hótelstarfsmanns og Sævars rannsóknarlögreglumanns á Akranesi. Fyrir vikið gefst lesendum kostur á að kynnast þessum persónum bæði utan frá og innan. Í ljós kemur að þótt Petra, Lea, Tryggvi og Irma séu að mörgu leyti afar ólíkar manngerðir eiga þau það sameiginlegt að enginn virðist sjá hver þau eru í raun og veru. Öll hafa þau upplifað áföll sem þau kjósa þó að takast á við í einrúmi í stað þess að deila sorgum sínum og sársauka með öðrum. Lesendur kynnast öðrum persónum bókarinnar ekki eins náið en fyrir vikið orka sumar þeirra nokkuð einhliða og ósympatískar. Það kann þó að vera aðferð höfundar til þess að leggja áherslu á sjálfhverfu persónanna og tengslaleysið innan stórfjölskyldunnar.
 
Eva Björg nýtir sér á skemmtilegan hátt einkenni ólíkra undirgreina glæpasögunnar og blandar þeim jafnvel saman. Til dæmis má nefna að afmarkað sögusvið glæpsins kallast á við sögusvið klassískra glæpasagna þar sem algengt er að sagan taki sér stað í afmörkuðu rými; til að mynda í lest, læstu herbergi eða á sveitasetri. Á sama tíma er þó markvisst unnið með kaldranalegt sögusvið landsins eins og algengt er í norrænum glæpasögum en myrkrið og kuldinn í söguheiminum undirstrika grimmd glæpsins sem framinn er úti í náttúrunni. Þá má einnig greina einkenni spennusögunnar í bókinni því með breytilegu sjónarhorni ólíkra persóna er spennu lesenda viðhaldið þannig að þeir þurfa að lesa sig í gegnum hvern stutta kaflann á fætur öðrum til að öðlast aukinn skilning á sögufléttunni og dýpri þekkingu á sögupersónum; um leið verða þeir þó að vara sig á ýmsum mýrarljósum því auðvitað er ekki allt sem sýnist.
 
Eins og algengt er í glæpasögum er stungið á ýmis kýli í Þú sérð mig ekki. Meðal annars er tekist á við ofbeldi gegn konum og börnum, jafnt líkamlegt og kynferðislegt; og neikvæð áhrif samfélagsmiðla. Sérstaklega er vel dregið fram hvernig unglingar með brotna sjálfsmynd þarfnast athygli og viðurkenningar foreldra, að á þá sé hlustað og eftir þeim tekið.
 
Lýsingarnar í Þú sérð mig ekki eru sannfærandi og samtöl eðlileg. Textinn er ljómandi vel skrifaður enda áreynslulaus og án tilgerðar. Þótt þræðir bókarinnar séu nokkuð margir fléttast þeir haganlega saman svo úr verður æsispennandi saga sem erfitt er að leggja frá sér fyrr en við sögulok. Glæpasagnaaðdáendur eiga von á góðu.