SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir14. nóvember 2022

TÍMAFLAKK OG ÓÐUR TIL ÁSTARINNAR – Um Ástarsögu eftir Steinunni Ásmundsdóttur

Ástarsaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur er áttunda bók höfundar en hún hefur sent frá sér sjö ljóðabækur og eina sannsögu, Manneskjusögu, sem hlaut mikla athygli þegar hún kom út árið 2018.

Ástarsaga gerist að mestu árið 1986 og hverfist einkum um þann heimsatburð þegar Reagan og Gorbatsjev funda í Höfða. Saman við þann atburð er fléttað ástarsögu aðalpersónu sögunnar, Höllu, og fransks ljósmyndara sem er á landinu af þessu tilefni. Þessir tveir atburðir haldast svo að segja í hendur, merkur (ástar)fundur tveggja manneskja, óvissan sem verður í kjölfarið og þær afleiðingar sem af fundinum hljótast.

Fyrir þá lesendur sem muna þennan tíma er lesningin algjör nostalgía og fyrir yngri lesendur afar upplýsandi um tíðarandann sem þá var og til marks um þau miklu stakkaskipti sem samfélagið hefur tekið, á ekki lengri tíma. Þegar þarna er komið sögu er notast við skífusíma og sendibréf í samskiptum fólks og Stöð 2 er rétt nýfarin í loftið.

Það er mikið tilstand í kringum Höfða fyrir fundinn. Hús í kring eru rýmd og heill her vopnaðra öryggisvarða umkringir þjóðhöfðingjana. Þetta er um margt spaugilegt ástand líkt og kemur fram í orðum einnar persónunnar: „Svo geymir karlfauskurinn hann Reagan alltaf tvo lífverði í skottinu á skothelda forsetabílnum þegar hann er á ferðinni um borgina!“ (bls. 85) Þá lendir einn miðaldra lögregluvarðstjóri í Fossvoginum, ættuðum frá Patreksfirði, í því að vera nánast tvífari Ronalds Reagan í útliti og getur hvergi um frjálst höfuð strokið því að allir vilja ræða við hann um mögulegt skagfirskt ætterni bandaríska forsetans (bls. 94).

Þá er skemmtileg senan sem Steinunn dregur upp af heimsókn Höllu á Mokka þar sem hún fær sér „mjólkurfroðukaffi sem indæl kona með uppsett hár galdraði fram úr hryllilega háværri expresso-vélinni“ (bls. 103). Þarna sitja helstu listamenn þjóðarinnar: Hringur listmálari, Sigfús Daðason og Dagur Sigurðarson sem dreif sig síðan niður í Austurstræti „til að finna Steinar vin sinn sem væri bannaður á kaffihúsinu einhverra hluta vegna, alveg saklaus maðurinn.“ (bls. 107)  

Steinunni tekst afar vel upp að draga upp mynd af bæjarlífinu frá þessum tíma, löngu horfnir skemmtistaðir skjóta upp kollinum og stemningin í miðbænum er eins og sú sem hér pikkar á lyklaborðið man svo vel eftir frá því hún var unglingur. Meira að segja gengur Hallærisplanið í endurnýjun lífdaga.  Þessi lesning reyndist vera afar ánægjulegt tímaflakk og í senn fallegur óður til ástar, friðar og mannkærleika.          

Þess má geta, hér í lokin, að Steinunn gefur bókina út sjálf, bæði sem rafbók og hljóðbók, í eigin upplestri. Bókina má kaupa á heimasíðu hennar Yrkir.is og sömuleiðis er hún aðgengileg á Storytel.