SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir17. nóvember 2022

ÓÐUR TIL MÓÐUR - Um ljóðabókina Mamma þarf að sofa eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur

Mamma þarf að sofa er ný ljóðabók eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur. Þetta er þriðja bók höfundar en hún hefur áður gefið út ljóðabókina FREYJA árið 2018 og skáldsöguna Ólyfjan 2019.

Ljóðabókin Mamma þarf að sofa telur um 107 síður en ljóðin birtast einungis á annarri hverri þeirra. Hún skiptist í þrjá kafla sem bera afar lýsandi og hugvitsamlega titla. Fyrsti kaflinn kallast Móðureign sem snýr að því að eiga móður og fjallar um minningar höfundar um móður sína. Annar kaflinn heitir Móðurlát sem segir frá láti móðurinnar og kallast orðið á við orðið fósturlát sem felur í sér meiri harm en ella og þriðji kaflinn ber titilinn Móðurgerð sem snýr að móðurhlutverki höfundar og minnir það orð óhjákvæmilega á orðið hreiðurgerð sem ber með sér hlýju en er einnig til marks um það vandasama verkefni að taka að sér móðurhlutverkið, gerast móðir.

Titill ljóðabókar er tilbrigði við eitt erindi úr ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, Mamma ætlar að sofna, sem er birt á lokasíðu bókar: „Mamma þarf að sofna. / Mamma er svo þreytt. / -Og sumir eiga sorgir, / sem svefninn getur eytt.“ Að vísu hefur einu orði ljóðlínunnar verið breytt því í ljóði Davíðs, sem birtist upphaflega í Svörtum fjöðrum, og er endurprentað í Úrvali ljóða hans stendur: „Mamma ætlar að sofna“ líkt og í titli ljóðsins.

Hvað sem einu orði líður þá eru mörg ljóða Díönu Sjafnar mikill yndislestur. Líkt og fyrr segir hverfist bókin um móðurhlutverkið og er umfjöllunin persónuleg og nærgætin. Bókin er óður til móðurinnar sem er alltumlykjandi þrátt fyrir að vera farin „eins og þú hafir/ skilið eftir fötin þín/ og farið“ (bls. 41)

Fyrsti hluti bókar geymir minningar um móður frá bernsku- og uppvaxtarárum ljóðmælanda sem litast af fráfalli hennar í næsta hluta svo af henni stafar eins konar ljómi þar sem mýkt hennar og styrkur vex við söknuðinn: Fang hennar er „hvíldarlendur“ ljóðmælandans (bls. 15) og  „hún ber stærðarinnar skápa/ milli herbergja/ ein á herðum sér“ (bls. 23).

Minningarnar lifa og hversdagurinn allur minnir á móðurina þó svo að það komi auðvitað ekkert í stað heillar manneskju sem er horfin:

skrift þín enn á innkaupamiða
í veskinu mínu
pilsner, tortillaflögur, mildur chili pipar
 
húmor þinn
að ofurlitlu leyti
í leikritaskrifum frá æsku
 
en þú ert ekki meir
lifir einungis í minningunum
óljóst í andlitsdráttum okkar
 
þú lifir á ljósmyndum
í ljúfsárum næturdraumum
og í tárum sem falla
 
þú ert
heil manneskja horfin
(bls. 49)
 
 

Síðan fær móðurhlutverkið annan ljóma þegar ljóðmælandi er sjálf orðin móðir. Þá öðlast hún aðra sýn á móðurgerðina og hversu vandasöm hún er. Þær eru fáar stundirnar þar sem hún getur hvílst og er því lýst nokkuð umbúðalaust hversu krefjandi uppeldið er, sem er hressandi einlægni, en að sama skapi er það gefandi þegar vel gengur. Hún er nú komin í spor móður sinnar sem ljær henni betri skilning á henni:

. . .
ég er stundum hrædd mamma
stressuð og svo þreytt
ég held ég skilji þig betur núna
finnst ég aldrei gera nóg
en
þegar hún hlær
þá lyftist hjarta mitt í þyngdarlausa gleði
 
augu hennar treysta á mig
(bls. 85)

 

Ljóð þriðja hlutans kallast líka á við ljóðin í fyrsta hlutanum. Þar koma aftur við sögu vöffluilmur og álbaukar með englamynstri sem er mögulega til marks um að sagan endurtaki sig, ljóðmælandi breytist í móður sína og þannig lifir móðirin áfram, móður fram að móður. Þá eru vísanir í ýmsar vögguvísur haganlega fléttaðar saman við ljóðin svo að þær fara sumar hverjar að óma í höfði lesanda. Vögguvísur hafa jafnan reynst vel til að róa börn í svefn og þá getur mamman einnig fengið sinn lúr.

Mamma þarf að sofa geymir fallegan og einlægan óð til móðurinnar sem þarf að axla þessa miklu ábyrgð að ala upp barn og sinna því í hvívetna. Því fer vel á að enda þessa stuttu umfjöllun á ljóði sem er með þeim betri í bókinni og lýsir þessu vandasama hlutverki afar vel:

konan er handalaus
konan sem er móðir
er handalaus
hún er sífellt að bera
bera barn
bera poka
bera á borð
bera allt uppi
 
konan er fött
konan sem er móðir
er fött
sveigð í stöðugri togstreitu
fött í baki
en fattar allt
fattar að barnið muni
vakna
tveimur mínútum fyrir
grátinn
(bls. 83)

 

 

Heimild:

Davíð Stefánsson. (1977). Svartar fjaðrir: Mamma ætlar að sofna. Í Njörður P. Njarðvík, Óskar Ó. Halldórsson, Vésteinn Ólason (ritstj.) Ljóð: Úrval (bls. 59). Rannsóknastofnun í bókmenntafræði og Menningarsjóður.