SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir14. janúar 2023

Í MYND GYÐJUNNAR

Berglind Gunnarsdóttir. Í mynd Gyðjunnar. Saga hennar í skáldskap, náttúru og trú. Reykjavík: Ormstunga 2022, 82 bls.

„Þungur hrammur gyðjuleysis lá yfir landinu öllu“ segir í Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur (1987, bls. 181) og vísa orðin til beggja sviða skáldsögunnar, fortíðarsviðsins þar sem Óðinn hefur komið með járn/vopn inn í helgustu vé gyðjunnar og nútíðarsviðsins þar sem geislavirkt ský hefur borist yfir Skandinavíu vegna Tsjernóbílslyssins. Margir samtíma kvenrithöfundar hafa, líkt og Svava, sótt til fornra frásaga af gyðjum til að vekja upp kvenlegan kraft gyðjanna og tengja inn í frásagnir sem gagnrýna misnotkun manna á náttúrunni og auðlindum hennar í verkum sem, líkt og Gunnlaðar saga, hafa sterkan náttúruverndarboðskap fram að færa.

Berglind Gunnarsdóttir sendi síðastliðið haust frá sér bók sem fjallar um mismunandi birtingarmyndir Gyðjunnar í gegnum aldirnar. Bókin Í MYND GYÐJUNNAR. Saga hennar í skáldskap, náttúru og trú er í litlu broti og telur 73 blaðsíður, auk heimildaskrár og atriðaorðaskrá. Þar fjallar Berglind um gyðjutrú, mæðraveldi og náttúrutrú í gegnum aldir, auk þess sem hún fjallar um ljóðlist enska skáldsins John Keats og spænska skáldsins García Lorca. Örfá fleiri skáld eru nefnd en hvergi er þó minnst á þá tilheigingu sem hér er nefnd í upphafi þótt að nægu sé að taka. (Auk Gunnlaðar sögu Svövu Jakobsdóttur mætti nefna þríleik Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu og nýjustu bók hennar Undir Yggdrasil (2020) og fleiri verk.) En það er auðvitað ósanngjarnt að ætlast til að Berglind fjalli um annað en hún ætlaði sér og taka má fram að hún er meðvituð um tengsl náttúruverndar og áherslu á Gyðjuna hjá nútímakonum, á bls. 72-73 segir: „Andlega leitin í tengslum við náttúruna og aukna náttúruvernd heldur áfram og þar á Gyðjan sinn ævarandi sess og eflir sjálfsmynd kvenna og styrk.“

 

Á baksíðu bókarinnar má lesa eftirfarandi texta:

 

Við hittum fyrir Gyðjuna á steinöld; hún tengist náið náttúru og dýralífi og birtist til að mynda sem Augngyðja, Fuglagyðja og Tunglgyðja.
     „Hún var hið ríkjandi afl alls lífs og fékk kraft sinn úr vötnum og uppsprettulindum, frá sól og tungli og rakri jörð." Fyrstu samfélög bænda dýrkuðu hana og til eru ummerki um Gyðjuna forsögulegu víða í Evrópu. Höfuðsetur Gyðjunnar varði lengst á Krít og víðar í Eyjahafi. 
     Arftakar hennar eru gyðjur goðsagnaheimanna sem við þekkjum og María guðsmóðir meðal kristinna manna. Og á nítjándu öld birtist Tunglgyðjan aftur á sviðinu í skáldskap og lífi ljóðskáldanna allt fram á okkar dag.

 

Bókin skiptist í inngang (bls. 7-9) og tvo hluta. Í fyrri hluta eru tveir kaflar: „Gyðjan mikla, grundvöllur allrar náttúru“ (bls. 15-24) og „Gyðjur goðsagnaheimanna“ (bls. 25-31). Í síðari hlutanum eru þrír kaflar: „Tunglgyðjan - Frjómáttur skálda“ (bls. 42-59) þar sem fjallað er um ljóðlist John Keats; „Náttúrudulúð í ljóðum García Lorca“ (bls. 60-70) og „Dulhyggja á tuttugustu öld“ (bls. 71-73).

Í fyrri hlutanum fer Berglind yfir sögu gyðju- og náttúrutrúar í gegnum aldir, en köflunum um ljóðskáldin tvö í seinni hlutanum mætti líkja við ritgerðir. Skilgreina má bók Berglindar sem alþýðlegt fræðirit, því þótt henni fylgi löng heimildaskrá og atriðisorðaskrá  eru heimildatilvísanir dálítið á reiki, stundum koma fyrir beinar tilvitnanir innan gæsalappa án þess að ljóst sé hvaðan tilvitnunin er tekið.  Fremst í bókinni skrifar Berglind:

 

Í mynd Gyðjunnar fjallar meðal annars um hina miklu forsögulegu Gyðju sem ýmsir fræðimenn telja að hafi verið dýrkuð alla götur frá steinöld fram á bronsöld og hafi þar með verið kjarni elstu trúarbragða mannkyns. Einn áhrifamesti talsmaður þessarar kenningar er Marija Gimbutas frá Litáen sem var prófessor í evrópskri fornleifafræði og indóeveópskum fræðum við Kaliforníuháskóla í Los Angeles 1964-1991. Í þessu riti er bók hennar, The Language of the Goddess (1989), höfð til hliðsjónar. 

 

Það má því gera ráð fyrir að Berglind byggi mest á bók Gimbutas en einnig vísar hún oft (óbeint) til rits Robert Graves (1895-1985), The white goddess: A historical grammar of poetic myth (1988).

Aðall bókar Berglindar er hversu vel hún er skrifuð. Textinn er á vönduðu og fallegu máli, enda höfundur rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Bókinni lýkur á ljóði eftir Berglindi sjálfa, úr ljóðabókinni Ekki einhöm sem kom út 2013.

 

Hún hefur kveikt, tunglgyðjan, skapari tímans
og mælieininga hans; verndari kvenna og
nýfæddra barna, og dýra og tíðablóðs kvenna;
skínandi Mardöll sem sendir ljósgeisla yfir hafflötinn;
hin mjólkurhvíta Albina og sú sem gaf hofgyðjum sínum
mátt til að stöðva fljótin í farvegi sínum,
snúa við ferð plánetanna á himinhvelinu
og láta trén storma niður fjallshlíðarnar.
Hún er Kórýþalía, Astateia amasónanna,
gyðja innsæir og náttúrulögmála.