SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 4. desember 2022

ELDGOS

Rán Flygenring. ELDGOS. Reykjavík: Angústúra 2022.

Rán Flygenring hefur smám saman verið að hasla sér völl sem einn af skemmtilegustu teiknimyndahöfundum á Íslandi. Bækur sem hún hefur ýmist unnið alfarið sjálf eða í samvinnu með öðrum textahöfundum hafa margar hverjar unnið til verðlauna og aðrar verið tilnefndar til verðlauna, bæði á Íslandi og erlendis. Hér má nefna bækurnar FUGLA (2017) og Söguna af Skarphéðni Dungal (2018) sem Rán vann í samvinnu við Hjörleif Hjartarson og bókina VIGDÍS - bókin um fyrsta konuforsetann (2019). Tvær þær fyrrnefndu hlutu tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, auk þess sem FUGLAR hlaut verðlaun FIT fyrir myndlýsingar og Sagan af Skarphéðni Dungal Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir myndlýsingar. Sömu verðlaun féllu einnig í skaut bókarinnar um Vigdísi, sem Rán bæði skrifaði sjálf og myndlýsti.

Nýverið sendi Rán síðan frá sér aðra frumsamda bók með eigin myndum, ELDGOS, en Rán segist vera með eldgos á heilanum og lagði hún leið sína að eldsumbrotunum á Reykjanesi hátt í tuttugu sinnum, að sögn. Í kynningu bókaútgáfunnar Angústúru um bókina segir að Rán hafi "nú fundið öllum þeim glumrugangi og glundroða sem hún varð þar vitni að farveg í þessari æsispennandi og stór­ hættulegu sögu".

ELDGOS er mjög skemmtilega hönnuð bók, teikningar Ránar eru í aðalhlutverki, litanotkun falleg og eins og bera ber er rautt og svart í aðalhlutverki. Texti Ránar er fyrirferðarminni en segir fjöruga sögu af drengnum Kaktusi og ferð hans að eldsumbrotunum. Mamma Kaktusar, Brá, vinnur sem leiðsögumaður og vegna lúsafaraldurs í skólanum hans Kaktusar verður hann að fylgja henni í vinnuna einn dag. Síðar í bókinni kemur í ljós að Kaktus er sjálfur grálúsugur og lýsnar eiga eftir að koma við sögu á óvæntan hátt!

Þótt texti Ránar sé ekki langur er hann hlaðinn húmor og íroníu sem bæði börn og fullorðnir ættu að njóta. Rán slær ekkert af í orðalagi og börnin geta lært fullt af nýjum orðum við lestur bókarinnar. Ágætt dæmi um alla þessa þætti er ræðan sem Brá fer með í rútunni fyrir erlendu túristana:

 

"Hér sjáum við íslenska náttúru í allri sinni dýrð!", segir Brá í hátalarann. "Sauðfé á beit & brimsorfin björg, litförótt stóð og sveimér þá, þarna eru lundar á flugi! Vissuð þið að lundar ..."

 

Katkusi líst miðlungsvel á ferðalagið þar til þau nálgast eldsumbrotasvæðið en svo vill til að ferðin er farin er á upphafsdegi gossins í Geldingadölum og því óvæntur glaðningur fyrir ferðamennina - og Kaktus.

Ferðamennirnir og Kaktus verða vitni að stórkostlegu náttúruundri og lesendur bókarinnar læra mikið af nýjum orðum:

 

En svo steingleyma þau sér alveg við að glápa á hraunfossa og hraunlæki, hraunpolla og hraunslettur, helluhraun, apalhraun, basalt og vikur og hárfína glerþræði, ösku og gosstróka, skríðandi, vellandi hraunbreiðu sem þekur landslagið hægt og rólega.

 

Það kemur reyndar í ljós að Kaktus kann ýmislegt fyrir sér um eldgos og þekkir nöfn á ólíkum hrauntegundum og þegar manna hans spyr undrandi: "Síðan hvenær veist þú allt um hraun, Kaktus?" er svarið að sjálfsögðu: "Ég las þetta í bók."

Ýmislegt skemmtilegt gerist bæði í texta og myndum Ránar sem ekki verður upplýst nánar um hér, en óhætt er að mæla með þessari nýju bók hennar fyrir börn á öllum aldri og fullorðið fólk. Þetta er tilvalin bók til að lesa með börnum og hafa gaman af.