SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 9. desember 2022

BÓK FYRIR YNGSTU KYNSLÓÐINA Leitin að Lúru

Margrét Tryggvadóttir og Anna C. Leplar. Leitin að Lúru. Reykjavík: Mál og menning 2022.

 

Til að vekja áhuga barna á bókum og búa til lestrarhesta framtíðarinnar er nauðsynlegt að byrja sem fyrst að lesa fyrir minnstu börnin. Ein bók sem er tilvalin til að lesa fyrir lítil börn er Leitinni að Lúru, sem er nýkomin út. Þar leggja þær saman, rithöfundurinn Margrét Tryggvadóttir og myndhöfundurinn Anna C. Leplar.

Í Leitinni að Lúru er sögð einföld saga um hundinn Kaffon sem langar til að leika sér en besti leikfélaginn, Lúra, er horfin og hann fer því af stað að leita hennar. Hann hittir geiturnar, krumma, endur með ungana sína, kindurnar, nautið Glæsir, grísina, hest og hænur og spyr um Lúru en enginn getur hjálpað honum.

Smám sama gefur Kaffon upp einkenni á Lúru en það er ekki fyrr en full lýsing er komin að hænan Lotta kveikir á perunni.

 

 

"Vinkona mín með rófuna löngu, grænu augun, veiðihárin stinn, beittu klærnar, mjúku eyrun, bröndótta feldinn og tunguna hrjúfu. Hún Lúra sem bæði malar og mjálmar!"

"Já, þú ert að tala um köttinn!"

"Af hverju sagðir þú það ekki strax?" spyr Lotta.

 

Kisan Lúra reynist liggja á eggjum inni í hæsnakofa og er að sjálfsögðu til í að koma út og leika við besta vin sinn.

Yngstu börnin eiga áreiðanlega eftir að njóta þess að heyra söguna af leitinni að Lúru og skoða skemmtilegar myndir Önnu C. Leplar, sem eru í jafnstóru hlutverki og texti bókarinnar, og kynnast um leið ólíkum dýrum og fuglum.