FALLEG, HEIMSPEKILEG SAGA FYRIR BÖRN
Auður Þórhallsdóttir. Með vindinum liggur leiðin heim. Patreksfirði: Skriða 2022, 43 bls.
Auður Þórhallsdóttir gefur út tvær bækur í ár. Önnur þeirra, Miðbæjarrottan: Þetta kemur allt með kalda vatninu, er framhald bókarinnar Miðbæjarrottan: Borgarsaga sem kom út fyrir tveimur árum en hin heitir Með vindum liggur leiðin heim og er mjög falleg saga fyrir börn um lítinn andarunga sem villist frá móður sinni og systkinum og er tekinn í fóstur hjá mannfólki.
Þetta er afar vel skrifuð saga, á vönduðu, ljóðrænu máli sem miðlar hlýjum tilfinningum, heimspekilegum hugleiðingum og vísdómsorðum um lífið og tilveruna.
Lífsspekin er að mestu lögð í munn hundsins á heimilinu sem er vinur litla andarungans. Það er hundurinn sem finnur ungann þegar hann villist frá fjölskyldu sinni og fer með hann heim til mannfólksins sem annast hann:
Á hverjum degi fara börnin og hundurinn með ungann niður að læk til þess að æfa sundtökin og þau hjálpast að við að grafa eftir ormum og tína upp marflær svo hann fái líka öll þau næringarefni sem hann þarf.Unginn stækkar hratt, braggast og líður vel hjá fjölskyldunni. Á kvöldin, eftir langan dag, fær hann að kúra við hálsakot barnanna sem er það besta sem hann veit. Þau koma honum svo fyrir í kassanum sínum og bjóða blíðlega góða nótt en eftir að þau sofna skríður unginn upp í ból hundsins og kúrir sig djúpt inn í heitan feldinn.Á næturnar dreymir hann mömmu sína og honum finnst hann vera kominn aftur í hreiðrið.
Einn síðsumarsdag sér unginn hóp "fugla sem flýgur hátt yfir höfði hans" og þá finnur hann "að innra með sér býr þrá eftir því að breiða út vængina og hefja sig á loft. En vængirnir eru of litlir til að lyfta honum upp og undarleg tilfinning hreiðrar um sig í maga ungans". Eftir þetta færist depurð yfir ungann sem situr og horfir út um gluggann, yfir sjóinn - á fljúgandi fugla. "Gamli hundurinn sem skilur heiminn spyr ungann ekki hvað sé að en hann veit að í hjarta sínu hefur unginn svarið" og segir við hann:
"Litli vinur, ástæða þess að börnin fara með þig hingað á hverjum degi er sú að fjölskyldan vill að þú finnir frelsið aftur. Þegar þú ert orðinn nógu stór til að bjarga þér sjálfur, þegar vængirnir þínir eru orðnir stórir og fjaðrirnar þéttar þá getur þú flogið burt, á vit ævintýranna. Til þess þarftu enga kennslu, það er í eðli þínu að aðlagast náttúrunni. Í því felst frelsi fuglanna og það er þitt raunverulega hlutverk."
Í fyllingu tímans breytist unginn í fullvaxna önd, "breiðir út vængi sína og hefur sig á loft. Hann lítur hvorki við né spáir í það hvert hann er að fara heldur lætur sig berast með haustvindunum."
Eins og áður segir er texti Auðar afar fallegur og ljóðrænn. Það er ekki slegið af kröfum þótt bókin sé ætluð börnum. Bókina prýða einnig skemmtilegar blýantsteikningar höfundar og bókin er fallega hönnuð af Bjarka Björgvinssyni.
Með vindinum liggur leiðin heim er bók sem tilvalið er að lesa fyrir ung börn. Þau geta lært mikið um lífið, náttúruna og tilveruna af sögunni og um leið lært ný orð. Að lesa þessa bók með börnum ætti að skapa gæðastund fyrir alla.