SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir12. desember 2022

SPENDÝRIÐ KONA - um ljóðabókina Kona/Spendýr eftir Ragnheiði Lárusdóttur

Kona/Spendýr eftir Ragnheiði Lárusdóttur er þriðja ljóðabók hennar, og jafnframt þriðja verk, á jafnmörgum árum en hún hefur, að eigin sögn, skrifað ljóð frá því að hún lærði að skrifa. Það er heldur enginn byrjendabragur á fyrstu ljóðabók Ragnheiðar, 1900 og eitthvað (2019 ) enda hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og var auk þess tilnefnd til Maístjörnunnar. Næsta verk kom út ári síðar,  Glerflísakliður, og núna í ár Kona/Spendýr sem hér verður til umfjöllunar.

Ljóðabókin Kona/Spendýr telur 57 blaðsíður og skiptist í fimm kafla. Fyrsti kaflinn ber yfirskriftina „Kona“, næsti „Spendýr“, þriðji „Úr dagbók húsmóður“, fjórði „Hversdagur hennar“ og sá fimmti „Og svo“. Kaflarnir bera lýsandi heiti þar sem fjallað er um hvernig það er að vera kona í karlaheimi, burðast með þennan kvenlíkama, þriðju vaktina, allt áreitið frá karlmönnum sem konur þurfa að þola og loks það sem bíður sem er öllu óræðara en kann að vísa til þeirra veikinda sem eiga mjög greiða leið að uppgefinni og útslitinni konu.

Bókin er eldfim og feminísk og hressandi lesning. Fyrsta ljóð bókar slær tóninn en það er án titils:

Kona
sem leitar
hamingju
bíður
upphafningar
velvildar
viðurkenningar
í heimi sem er hannaður af körlum
handa körlum
 
(Kona, bls. 9)

 

Ragnheiður skefur hvergi utan af því. Erindi hennar er ljóst, að lýsa því hvernig það er að vera kona í heimi karla:

Hún og hann
 
Hún færir honum
heita konu
 
hann tekur hnífapör
og sker burt
höfuð
handleggi
fótleggi
 
eftir stendur
brjóst
píka
rass
staðgóður málsverður
 
(Kona, bls. 15)
 

Það er varla pláss fyrir konuna í þessum heimi og hálfu erfiðara fyrir hana að finna hamingjuna heldur en mennina sem heimurinn er sniðinn utan um. Því er ekki að undra að stelpan vilji vera strákur og baki „sér typpi“ til að setja inn í gallabuxur sem hún stelur af bróður sínum (bls. 13). Enda er það að vera kona einungis ávísun á veikindi:

Að vera fædd kvenkyns
 
er ávísun á veikindi
konuveikindi
blæðingar, egglos, fæðingar
svæfingar
speglanir
keisaraskurði
utanlegsfóstur
meðgöngurof
aukaverkanir getnaðarvarna
krabbameinsrannsóknir
sundurklippt og rifin kynfæri
leyniveikindi, sem enginn vill tala um og enginn vill heyra af
 
(Kona, bls. 14)
 

Efni ljóðanna er um margt kunnuglegt og trúlega er auðvelt fyrir margar konur að spegla sig í þeim. Inn á milli eru þó einnig ljóð sem eru sértækari um efni. Ætla má að þau séu sprottin beint úr reynsluheimi höfundar og geymi sára og djúpstæða reynslu:

III
 
Hann er nýfæddur í höndum fæðingalæknis
grár með stóra rifu á höfði
hann andar ekki
læknirinn kann ekki að barkaþræða ungbarn
 
fimmtán ára í sjúkrarúmi
ískaldur og hvítur
í öndunarvél
með slöngur úr úr líkamanum
 
konan vonar
 
(Spendýr, bls. 27)
 

Efni ljóðsins er átakanlegt og leiðir óhjákvæmilega hugann að öllum þeim barnadauða sem konur hafa þurft að upplifa um aldir og hefur sett mark sitt á þær.[1] Þá er því lýst í öðru ljóði kaflans um „Spendýr“ þegar konan liggur á fæðingarstofunni og „skaut konunnar verður að skólaverkefni“ (bls. 26). Skaut konunnar er allra, líkt og kemur svo vel fram í einu ljóðanna sem heyrir undir næsta kafla bókar:

I
 
Kona
 
þrífur glugga utan og innan
þurrkar af öllu innanstokks
skúrar gólf
gerir baðherbergi hrein
skeinir börn og baðar
horfir á líkama sinn í spegli
líkama sem hefur
borið alla fjölskyldu hennar
allir hafa verið í líkama hennar
allir
 
(Úr dagbók húsmóður, bls. 33)    
 

Húsmóðirin þarf að sinna öllu og öllum og því samfara að vera „óaðfinnanleg útlits“ (bls. 34). Auk þess að sinna heimili og heimilisfólki þarf hún að „stunda fulla vinnu, fara í ræktina, sækja tónleika og menningarviðburði/ mæta á allar uppákomur, með veitingar/ þar sem börnin eru að keppa“ (bls. 35) Þetta er svo að segja uppskrift að kulnun en hún er mun algengari meðal kvenna en karla.

Í kaflanum sem kemur á eftir er fjallað um „Hversdag hennar“ og honum fylgir hið eilífa þukl og káf, líkamlegt og andlegt, sem konan hefur þurft að þola um aldir. Þar er að finna nokkur ljóð um unglingsstúlku sem þarf að verjast karlmönnum „með gráðugar hendur“ (bls. 47) við ýmsar aðstæður og lýsa þau afar vel veruleika flestra kvenna, sem og hvernig þetta horfir við stúlkunni sem á þessu að venjast. Svona er þetta bara:

IX
 
Hún segir engum frá
þetta er ekkert merkilegt
allir hafa lent í þessu
og mörgu miklu verra
hún er heppin stelpa
 
(Hversdagur hennar, bls. 49)

 

Lokahnykkurinn „Og svo“ geymir fáein ljóð sem eru ekki jafn ljós og þau sem fara á undan. Það mætti skilja hann sem svo að líkaminn er að gefa sig, og eðlilega, eftir allt sem á undan er gengið; allt áreitið, alla vinnuna, allar óraunhæfu kröfurnar, allan missinn, alla mismunina. Allt þetta hefur gengið mjög nærri konunni og sett mark sitt á hana:

Far
 
Þegar dauðinn klappar konunni á kollinn
sést lófafarið æ síðan
þungi þess torveldar konunni líf og starf
 
(Og svo, bls. 53)

 

Það er alveg óhætt að mæla með þessum kraftmiklu og raunsönnu ljóðum um hvernig það er að vera kona í heimi þar sem hún vart rúmast nema á bás, líkt og kýr. Það fer því vel á að enda þessa stuttu umfjöllun á einni ljóðlínu bókar, úr kaflanum Spendýr: „muuu“    

 

[1] Við þetta má bæta að vissulega fær slíkur missir einnig á feðurna en bæði í bók og umfjöllun er verið að fjalla einvörðungu um konur en ekki menn, aldrei þessu vant!