SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 1. janúar 2022

AÐ MÝKJA VITUNDINA. Borg bróður míns

Kristín Ómarsdóttir. Borg bróður míns. Reykjavík: Benedikt bókaútgáfa 2021, 198 bls.
 
 
Titillinn á nýju bók Kristínar Ómarsdóttur kann að vekja heilabrot. Hvar er Borg bróður míns? Um það eru engar vísbendingar í bókinni en þó virðist sögusviðið í flestum tilvikum vera borg, dálítið framandi borg með köstulum, borgarhliði, borgarmúr, vaktmönnum, her, frúarkirkju og bestu sólarströndum veraldar. Reyndar er sögusviðið himnaríki í tveimur sagnanna og þar er guð „sem býr og starfar í risastóru vöruhúsi“ (30), klæðist gráröndóttum kjóll og blæs í trompet. Himnaríki hefur reyndar áður verið sögusvið hjá Kristínu, til að mynda í skáldsögunni Elskan mín, ég dey er oft fjör á barnum í Himnaríki þar sem sex barna móðir heillar guð með kynþokka sínum.
 
Það er vafalaust meðvitað hjá höfundi að hafa sögusviðið órætt – og það sama gildir um sögutímann, enda segir í einni af fyrstu sögum bókarinnar: „Tímaskynið er þráður, ef hann slitnar verður þú að mýkja vitundina“ (22). Þegar allt kemur til alls skiptir þetta tvennt - sögusvið og tími - litlu máli, það eru mannleg samskipti og tilfinningar sem flestar þeirra 55 sagna sem bókina mynda snúast um. Og ef lesandi hlýðir ofan nefndu ráði og mýkir vitund sína má hafa ómælda ánægju af því að ferðast um í heimi bókarinnar, sem er þrátt fyrir allt kunnuglegur, þetta er hinn skáldaði heimur Kristínar Ómarsdóttur, sem er engum öðrum heimum líkur en kær þeim sem áður hafa dvalið þar - í fyrri verkum höfundarins.
 
 
En það er borg sem rís upp í texta bókarinnar, borg smíðuð úr orðum skáldsins. Og borgin lifnar fyrir hugskotssjónum lesanda smátt og smátt með húsum, landslagi, náttúru og mannlífi. Þetta er litrík borg, lýst á lifandi máta og fjörugan þótt efniviðurinn sé oft á tíðum óhugnanlegur. Kristín leggur mikið upp úr að lýsa umhverfinu, klæðnaði fólksins og litum á hvoru tveggja. Litrík bókarkápan gefur fyrirheit um það sem finnst innan bókaspjaldanna, einmitt litirnar sem þar birtast ganga aftur í hverri sögu á fætur annarri. Mannlífið sem þrífst innan borgarinnar er fjölbreytilegt, fólk elskast og hatast og tekst á um gildin, sannleikann og frelsið.
 
Yfirvofandi ógn
„Þær hittust í frúarkirkjunni sem hvarf af yfirborði jarðar fáum vikum síðar“ segir í upphafi annarrar sögu og í fleiri sögum er líkt og ógn vofi yfir og heimurinn sé á heljarþröm, fólk er á flótta og heragi og kúgun birtist víða. Strax á fyrstu síðu bókarinnar fáum við að vita að „vaktmenn gæta borgarhliðsins, lofthelginnar, fylgjast með veðrabrigðum, flugferðum og erindum á landi og sjó“. Þessir vaktmenn hafa stjórn á flaumi fólks, „vörpulegir drengir á einkennisbúningi stíga út úr glerskýlum og ganga til móts við almenning sem er misvel á sig kominn“, þremur er hleypt inn til yfirheyrslu í einu.
 
Í sögunni „Yfirvararskegg“ segir af frú Vöndu Blúm („eftirnafn sem fylgir ekki sæði“) sem reynir að smygla sér til borgarinnar í líkkistu. Þegar hún er handtekin í tollinum og handjárnuð hrópar hún: „Ég er frjáls mannvera í frjálsum heimi“ en allt kemur fyrir ekki og hún er svipt gimsteinunum sem hún er með í för (og vör): „Samkvæmt lagaheimildum máttu tollverðir taka skartgripi og annað verðmæti flóttafólks eignarnámi“. Vanda Blúm er þó „heppin“ því „samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu blóðrannsóknar“ er hún „hrein, clean, чистый, öðrum kosti hefði hún verið send beina leið til baka“. Í annarri sögu sem kallast „Heimanmundur“ er konu haldið fanginni í lítilli íbúð á 27. hæð þar sem faðir hennar hefur ákveðið að kippa í taumana og læsa hana inni. Þetta eru aðeins örfá dæmi um sögur þar sem fjallað er um andstæðurnar vald og frelsi og óhugnaði miðlað á einfaldan en áhrifaríkan máta.
 
Senur úr hjónabandi
Nokkrar sögurnar lýsa senum úr hjónabandi, en Kristín Ómarsdóttir vísað einmitt til leikrits Ingmars Bergmans í samtali um bókina og benti á hliðstæður á milli verks Bergmans og nokkurra sagna sinna. Þessar sögur er að finna um miðbik bókarinnar og saman mynda þær ákveðna heild. Í flestum sagnanna er flett ofan af yfirborði sem virðist slétt og fellt en reynist rotið og jafnvel hatursfullt þegar líður á frásögnina. Hér má nefna sögurnar „Handáburður“, „Leit að dýpri (nýrri, öðruvísi) merkingu“, „Lofthelgin“, „Á toppi tilverunnar“, „Augnablik í rúðu“, „Heimaleikrit (fyrir fullorðna), „Brunarústir“ og „Kapphlaup(ið) um / við tímann“. Sumir titlanna gefa í skyn þá íróníu sem stíll sagnanna einkennist af, þær eru leikrænar, morðfyndnar, um leið og þær miðla stöðnuðum og í sumum tilvikum óhugnanlegum samböndum. Sagan „Söngur karls“ hefst þannig:
 
Fyrir annan helming himinsins skrifa ég þér. Kona, ég elska þig svo heitt af því ég er ósjálfbjarga. Ég elska þig líka af því ég kann ekki að sjóða egg. Eða hita vatn í te. Kona. Ég elska þig líka af því að þú þarft á afþreyingu að halda. Mikilli afþreyingu og skemmtun. [...] Ég er svo lítill að ég kann ekki einu sinni að sjóða kartöflur. Að ég kann ekki að veifa klósettburstanum. Kenndu mér það kona mín. Það ert þú sem ert pedófíllinn í herberginu.
 
Þetta er háðsleg og meinfyndin hjónabandsmynd sem margir geta vafalaust tengt við, jafnvel enn í dag.
 
Ástin og erótíkin
„Það þarf ekki málverk eða öxl til að æsa fólk til ásta, útiloft, vindur, gult blóm, nægir. En til þess að komast nær stjörnunum er aðgangur að öðrum líkama hentugasti fararkosturinn“ segir í sögunni „Andstyggilegur helvítis pistill“ og eins og í öllum verkum Kristínar eru líkamlegar ástir og nautnir af öllu tagi fyrirferðamiklar í Borg bróður míns. Í áðurnefndri sögu segir líka:
 
Fólk lýsir nýjum elskhuga á sama hátt og nýrri vöru úr búð. Viltu dæmi? Hún er hávaxin. Hún elskar fugla. Hún má ekki sjá betlara þá kippist hún við. Hún veit altaf hvað hún vill. Næstum því eins og lýsing á vöru. Undir öllu - í pottinum - liggur samningur um lágmarks þjónustu á báða bóga fyrir báða og alla aðila og skipti á gjöfum. Því þetta var og er og verður ef svo fer fram sem horfir einungis spurning um aðgang að líkama - hæfileikar í ástarbrögðum, bréfaskriftir, ljóðagerð og tilfinningalagni gera vissulega gagnið sitt til að villa um fyrir markmiðinu sem er þetta: aðgangur að líkama annarrar manneskju.
 
En ekki er alltaf svo háðslegur tónn í lýsingu á ástinni, stundum er fólk ekki með sjálfu sér af ást, líkt og í sögunni „Hún drekkur vitavonlaust blóð, þambar og drekkur“ þar sem tvær konur „gáfust kynhvötinni á vald og elskuðust og elskuðust og elskuðust þótt þröngt fær um þær í bílnum - stærð rýmis skiptir litlu í ást - bak við tré og fyrir framan tré og til hliðar við tré og ofan á fjöldagröf einstæðinga.“
 
Sjónarhorn njósnarans
Þegar Kristín Ómarsdóttir tók við ljóðaverðlaununum Maístjörnunni, sem hún hlaut fyrir Kóngulær í sýningargluggum 2018, sagði hún í þakkarræðu sinni að hún hefði að mörgu leyti helgað líf sitt njósnum. Í fyrrnefndri sögu, „Heimanmundur“, segir:
 
Skemmtilegast þótti mér að horfa á fólk, jafn skemmtilegt og að elska fólk. Horfa á hvernig fólk - innifalið í orðinu eru dýr - horfir út, lýtur höfði yfir matargerð, sækir skál hátt upp í skáp, hvernig það snýr höfðinu við, lítur upp í loft, gáir til veðurs, stekkur út um glugga. Glápið saddi ekki kynferðislegt hungur. Það var áhugamál og yndi, laust við hagsmunatengsl og gróðasjónarmið.
 
Þessi orð sem lögð eru í munn innilokaðrar konu birta kannski í hnotskurn frásagnaraðferð Kristínar Ómarsdóttur; hún horfir á (njósnar um) háttalag fólks, lýsir því á áhrifaríkan og magnaðan hátt án þess að útskýra, túlka eða boða einhvern ákveðinn skilning - það er hlutverk lesandans að virkja sín skilningarvit, njóta og túlka upp á eigin spýtur.
 
Ég mæli með að lesendur þessara sagna lesi þær upphátt því það er svo mikil músík og sterk hrynjandi í texta Kristínar sem fer ef til vill forgörðum ef lesið er í hljóði. Skemmtilegast væri að lesa upphátt fyrir einhvern annan, það væri tíma vel varið. Og muna að mýkja vitundina.
 
 
 
 

 

Tengt efni