SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 1. mars 2019

ÖRLÖG ÖREIGANNA - Um Blómin frá Maó

 

Í gegnum árin hafa grasserað alls konar róttækar fylkingar, sellur og kommúnur sem oft hafa leitt til blóðugrar byltingar. Hlín Agnarsdóttir fjallar í skáldsögu sinni, Blómin frá Maó (2009), um unga norðanstúlku, Sigurborgu Eyfjörð, sem gerist baráttukona í „Öreigasamtökunum pró Kína, maóistarlenínistar“ (skammstafað ÖSP m-l )sem berst fyrir kommúnísku alræðisríki á Íslandi á áttunda áratugnum. Félagsstarfið felst í fundum, útgáfu dreifirita og lestri áróðursrita, undirbúningi verkfalla og öreigabyltingar en nær hámarki með pílagrímsferð til Kína þar sem Sigurborg hittir átrúnaðargoðið, Maó sjálfan, og örlög hennar ráðast.

 
Þetta er sagan endalausa af heitri sannfæringu og róttækum skoðunum sem fara út í öfga, heilaþvotti og blindri trú á leiðtogann og loks skipbroti þegar hugmyndafræðin rekst á við veruleikann. Hlín tekur efnið skemmtilegum tökum en frá þessu tímabili Íslandssögunnar er nægur efniviður.
 
Á áttunda áratugnum var allt að gerast: kvenfrelsisbaráttan í algleymingi, hippamenningin á síðblómaskeiði, mótmæli við stríðsrekstur Bandaríkjanna í Víetnam í fullum gangi og beiskur sannleikurinn um menningarbyltinguna í Kína að koma í ljós. Þetta var kraumandi hugmyndapottur og áhrifin náðu til samfélags, lista og bókmennta; aldeilis verðugt söguefni sem Hlín tekst á við af þekkingu, innsæi og nettbeiskum húmor.
 
Í sögunni eru skemmtilegar persónur sem manni þykir strax vænt um. Móðir Sigurborgar og amma eru alvöru alþýðukonur sem bera harm sinn í hljóði, frú Þorbjörg leigusali er kostuleg persóna og hinn heittrúaði Már formaður er dreginn sundur og saman í háði. Þegar sá er gállinn á Hlín minnir kaldhæðnislegur stíllinn helst á íroníu Steinunnar Sig og Auðar Haralds. Lýsingarnar á kommúnulífinu, félagsstarfinu og hugsjónunum eru t.d. grátbroslegar og íronískar. Gaman að lesa þessa bók saman við Katrínarsögu Halldóru Thoroddsen (2018) og fleiri verk sem gera upp við 68 kynslóðina.
 
Kenningar og hugmyndafræði halda áfram steyta á skerjum núna eins og áður. Bankahrunið fær sinn skammt í bókinni, í meinlegum tón enda er Sigurborg þá eftir áratuga strit loksins orðinn alvöru öreigi, atvinnulaus og skuldum vafinn. Og aurarnir sem Sigurborg erfði eftir ömmu sína „eru horfnir úr sjóðum Kaupþings og sestir að á eyjum í Karíbahafinu og dvelja þar í hlýju skattaskjóli hitabeltisloftlagsins og munu því þjóna öðrum en mér og Jóni í framtíðinni. Bankinn er sem sagt búinn að selja ömmu sína og mína líka“ (10-11).
 
 
 
Greinin birtist fyrst í Mbl, 29.11.2009
Mynd af Hlín: rúv
 

Tengt efni