SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 5. febrúar 2023

AÐ SÆTTAST VIÐ ÓTTA SINN. Varurð eftir Draumeyju Aradóttur

Draumey Aradóttir. Varurð. Sæmundur 2022, 80 bls.

 
Allir eiga sína frásögn að hlýða á
sínar sögur að segja
sinn ótta að sættast við
 
        allir þurfa að mæta sjálfum sér
        í spurn
 
þú mætir þér
en af ótta við svarið líður á löngu
þar til þú áræðir að spyrja

 

Þessar ljóðlínur eru að finna í löngu frásagnarljóði sem ber yfirskriftina AÐ LIFA ER AÐ DEYJA og myndar annan hluta ljóðabókarinnar Varurð eftir Draumeyju Aradóttur. Á undan þessum kafla bókarinnar stendur tilvitnun í J. Kristnamurti: „Með því að horfast í augu við þá staðreynd / að þú berð ábyrgð á því / sem þú hugsar, finnur og gerir / geturðu frelsað þig úr viðjum óttans.“ Ljóðmælandi Varurðar segir sögu sína, tekst á við óttann sem búið hefur hið innra lengi og yfirvinnur hann, eins og lýst er í þessu sterka ljóði.

Líklega er óhætt að fullyrða að hér sé um sjálfævisögulegt ljóð að ræða, að höfundur og ljóðmælandi sé einn og sá sami, og reyndar er líklegt að öll ljóð bókarinnar séu sprottin beint úr lífsreynslu höfundar.

Í ofannefndu ljóði fer ljóðveran í háskalegt ferðalag og mætir ýmsum ógnum. Ferðin liggur í gegnum skóg þar sem: „Sverar rætur tröllvaxinna trjáa hluta sundur rakan leirstíginn // banhungraðar iglur hringa sig hljóðlaust upp úr eðjunni / skríða upp fótleggina, bíta sig fastar með kröftugum kjálkunum / og sjúga sig mettar“. Og fleiri óhugguleg kvikindi mæta henni á leiðinni; risamaurar, „með nálbeitta rana“, slöngur, leðurblökur og sjálflýsandi ormar. Ferðalagið inn í frumskóg óttans verður þó ekki umflúið:

 

tilvist þín er undir förinni komin
hver sem ferðalok verða
hver sem þú 
verður þá

 

Þótt skógurinn sé uggvænlegur og ljóðveran hnjóti „um kræklótta trjáboli“ þegar „skógurinn þéttist, slóðinn þrengist, rakinn eykst“ og eðjan dragi hana „dýpra / og dýpra undir svikult / yfirborðið“ og hún finni rifna ofan af „viðkvæmum hrúðrum gamalla sára / sem aldrei greru“, þá á hún „engra kosta völ / það er engin leið til baka“. Leiðin liggur um óralanga hengibrú, upp himinháan hamar og inn í myrkan helli, „glorsoltið svarthol“, og að „seigfljótandi síki / með sjálflýsandi ormum“:

 

þarna beið hann þá
daunillur óttinn
þar sem síst skyldi
ósigrandi að sjá

 

Og hér er framundan mesta prófraunin, en ljóðveran „mjakar [sér] á maganum eftir slímugum stiklunum / svo andlitið strýkst við myglugrænt yfirborð síkisins“ og:

 

gefst upp fyrir óttanum, sársaukanum, lífinu
deyrð sjálfri þér og rennur ofan í
 
         í fyrsta sinn
         mætirðu augum hans
 
hugurinn nemur staðar, tíminn raknar upp
það er ekkert áður eða eftir, ekkert sem var eða verður síðar
aðeins þessi heilaga kyrrð
 
         þar sem lífið deyr
         til að geta lifað

 

Hér er lýst endurfæðingu sem um leið er sigur á áragömlum ótta: „Þú horfir hljóðum huga í hvikul augu óttans / frjáls undan fyrri hugmyndum þín um hann // horfir einlæglega á flóttalegt blik augna hans / og umvefur hann sama kærleika og hin börnin þín“. Ljóðveran finnur friðsældina fylla sig: „hún er varurðin / handa hugsana þinna.“ Í kjölfarið fara fram hamskipti:

 

Öllu sem aðrir hafa rétt að þér, gert þig að, gert þér
öllu sem þú hefur ekki vísvitandi valið þér
varparðu á bálið
 
flettir þig hamnum
hugmyndum þínum, kreddum og reynslu
flettir hverju laginu á fætur öðru
 
         loks stendurðu ein eftir
         með sjálfri þér
         og frásögn þinni
 
hamslaus skrifarðu sáttmála við óttann
með bleki úr eigin blóði
úr blóði drifinni þránni eftir að vera sú sem þú ert
sú sem þú vilt vera
sú sem þú hefur alla tíð verið 
 
         undir hamnum

 

Þessi ljóðabálkur er mögnuð lýsing á sjálfsvinnu þess sem þarf að takast á við áfall, sigrast á því og taka á móti „takmarkalausum fögnuðinum / sem fylgir.“ Í kaflanum á undan, fyrsta hluta ljóðabókarinnar, eru sautján ljóð og í flestum þeirra hverfur ljóðveran aftur til bernskunnar, sem er viðkvæmasta tímabilið í lífi flestra og það er til þess æviskeiðis sem rekja má áföllin sem hún þarf að takast á við síðar. Þriðja ljóðið lýsir þessu á afbragðs góðan hátt:

 

ELDGOS
 
Í veröld barnsins eru engar viðvaranir
gular
appelsínugular
eða rauðar
 
engar almannavarnir
viðbragðsáætlanir
eða flóttaleiðir
 
aðeins myrkur gneisti álasandi augnaráðs
áður en eldurinn brýst út og hraunöldurnar vella
ein eftir aðra yfir gígbarminn
svíða og brenna
áður en þær loks
storkna
 
setlög af gjósku
í hverri frumu líkamans
þótt barnið sé löngu hætt að vera 
barn
 
Ljóðið sem fylgir á eftir lýsir tveimur óttaslegnum telpum sem sitja í „hnipri undir stiganum“ og „horfast í augu í / hvellustu orðahríðinni / hvössustu stungunum / beittustu brotunum // raða þeim saman / í nýja fjölskyldumynd / með mömmu og pabba / hvort á sínum endanum / þær friðarstillar á milli“. Þetta ljóð er sett upp á myndrænan máta með hvössum formum sem endurspegla hvassar stungur sem ort er um. Draumey beitir myndrænni uppsetningu ljóðmálsins víðar á skemmtilegan hátt.
 
Líkingar sóttar til eldsumbrota og hraunflæðis koma víða fyrir í bókinni, „hnífstunguorðum“ er líkt við hart hraungrýti sem „hruflar olnboga og hné“ og stillt upp sem andstæðu við „hlýlegt orð" sem setja ljóðveruna á léttan skýhnoðra og „eldfjallið sefur // en barnið skynjar svefnrof þess í hverri frumu líkamans / skynjar hvernig eldfjallið í stofunni rumskar / án nokkurs fyrirvara og fleygir í það / egghvössum naglaspýtum / eldsárum orðum, svo“ vísað sé í fleiri en eitt ljóð. Í ljóðinu SVEFNROF hrekkur ljóðveran „upp af draumnum / við hljóðlaust ópið sem hrindir af stað / enn einu hraunflæði óharnaðra minninga“.
 
En hafi sú sem talar í ljóðunum búið við óöryggi í bernsku, vegna aðstæðana sem lýst er í fleiri en einu ljóði sem vísað hefur verið til hér að ofan, má ætla að stærsta áfallið hafi átt sér stað þegar barnið dvaldi í sveit, eins og lýst er í ljóðunum BRÉF ÚR SVEITINNI, SUMARKOFFORT og ÓSKRIFAÐ BRÉF ÚR SVEITINNI. Tengt er á milli fyrstnefnda og síðastnefnda ljóðsins með myndrænum hætti:
 
 
[...] en ég er soldið hrædd við einn gamlan 
kall á hinum sveitabænum
 
                                            s
                                                   e
                                                            m
 
---
 
s
       e
                 m
 
heldur mér stundum fastri þegar hinir krakkarnir eru farnir
og lokar og læsir [...]
 
Hér má álykta að barnið hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og eru vísbendingar til þess í fleiri ljóðum. Ætla má að rætur óttans liggi í þessu áfalli sem ljóðveran reynir með ýmsum brögðum að ýta frá sér síðar á lífsleiðinni:
 
 
inni í svefnherbergi situr ung kona
og brýtur af stakri alúð saman ótta sinn
sveipar hann svörtum silkipappír
og leggur á botn ferðatöskunnar
 
allt er komið í hús
 
undir rúmi tromma gömlu draugarnir
glaðhlakkalega fingrum í gólf og spyrna
glettnir við fótum hvert sinn sem hún reynir
að ota töskunni að þeim
 
 
Fyrsti hluti Varurðar undirbyggir þannig ferðalagið sem lýst er í öðrum hluta en einnig má sjá vísi að uppgjöri ljóðverunnar og tilraunir hennar til að taka slaginn. Þar kemur „ljóðadísin“ til hjálpar: „leysir mig úr læðingi / svo allar varnir bresta / og upp stígur dulvís móðan / hulduorðin /þú“. Það er alþekkt hvernig ljóðlist - og önnur skrif - geta verið árangursrík leið til sjálfshjálpar, eins og ljóðabókin Varurð sýnir svo glöggt.
 
Í Varurð eru líka ljóð sem tengjast ekki beint þessu efni, en kannski óbeint. Í þriðja hluta bókarinnar eru fjölbreytt yrkisefni, til dæmis nokkur ljóð sem ætla má að ort séu í minningu foreldra og/eða afa og ömmu. Þetta eru ljóðin HINSTI DRAUMURINN, SÖKNUÐUR, ÁN ANDLITS, FÖÐURMISSIR, LJÓSMÓÐIR, SONARMISSIR, BRÓÐURMISSIR, SÓLMYRKRI og LÍFSLJÓÐIÐ. Þetta eru einkar áhrifarík og vel ort ljóð sem segja mikla sögu á hnitmiðuðu ljóðmáli.
 
Fjórði og síðasti hluti bókarinnar hefur að geyma ljóðið „Heimahöfn“ sem er flottur endapunktur á bókinni. Þar er dregin upp mögnuð náttúrumynd með vísunum til hins viðkvæma yrkisefni sem á undan ferð. Lokaorð ljóðsins, „endar vel“, eru einkar viðeigandi.
 
Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið varurð skynjun en kann einnig að vekja upp hugrenningatengsl við orðið varúð. Báðar þær merkingar eiga vel við þegar ljóðabókin Varurð er lesin.
 
Varurð er mjög áhrifarík ljóðabók sem lengi er hægt að pæla í. Margt fleira mætti draga fram, til dæmis endurtekin minni sem birtast í tilvitnunum sem standa á undan hverjum kafla bókarinnar. Ákveðin lífsheimspeki birtist í þeim tilvitnunum og speglast síðan í nokkrum ljóðanna. Hér verður ekki farið nánar út í það, en lesandinn fær nóg að hugsa um.