SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Jónsdóttir16. desember 2021

ÆVINTÝRALEGUR OG ÆSISPENNANDI JÓLAUNDIRBÚNINGUR

Myndlistar- og rithöfundaferill Sigrúnar Eldjárn spannar nú rúma fjóra áratugi og á þeim tíma hefur hún sent frá sér ótalmargar vandaðar barnabækur. Á árinu komu út tvær bækur eftir hana en önnur þeirra er ljóðabókin Rím og roms þar sem Sigrún er höfundur mynda en bróðir hennar, Þórarinn Eldjárn, orti ljóðin. Nú fyrir jólin kom síðan út bókin Rauð viðvörun! Jólin eru á leiðinni en þar er Sigrún bæði mynd- og textahöfundur.
 

Rauð viðvörun! segir frá systkinunum Jóa og Lóu sem átta sig á því 1. desember að nú gangi ekkert hangs, þau verði að fara að undirbúa jólin! Það er ýmislegt sem þarf að huga að svo jólin geti gengið í garð en aðalverkefnið er að útvega jólagjafir. Börnin eiga raunar ekki nægan pening til að kaupa gjafir og Jói er ómögulegur í að prjóna og smíða svo ekki geta þau búið gjafirnar til sjálf. Þau deyja hins vegar ekki ráðalaus og halda af stað í óhefðbundinn jólagjafaleiðangur sem hefst uppi á háalofti. Ýmsar hættur og dularfull atvik einkenna leiðangur þeirra og á vegi þeirra verða meðal annars töfrahlutir, grimmur hundur, þekkt jólavætt og önnur lítt þekkt. Með útsjónarsemi, sköpunarkrafti og smá heppni tekst þeim þó á endanum að „bjarga jólunum“ og gleðja ættingja sína með nýstárlegri og stórglæsilegri jólagjöf.
 
Bókin telur 24 stutta kafla og því tilvalið að lesa einn kafla á dag í aðventunni. Raunar er svo mikil spenna byggð upp í hverjum kafla að það getur reynst erfitt að leggja bókina frá sér. Ég las bókina til að mynda fyrir þriggja ára bókaorm sem tók ekki í mál að hætta að lesa hana fyrr en sagan var öll sögð. Hrein örvænting skein úr andliti barnsins þegar ég svo mikið sem stakk upp á að gera hlé á lestrinum, svo mikill var spenningurinn.
 
Myndlýsingar Sigrúnar eru vitaskuld stór og ekki síður mikilvægur þáttur í sögunni en textinn og með þeim lifnar sagan við á síðum bókarinnar. Myndirnar eru listilega vel unnar og gefa bókinni jólalegan og hátíðlegan blæ. Svo eru þær margar ansi fyndnar en ein af mínum uppáhalds er mynd af Lóu þar sem hvolfst hefur úr jólaskrautskassa yfir hana og „[h]ún líkist engu öðru en ljómandi fallegu jólatré“.
 
Rauð viðvörun! er hressandi og vönduð jólabók fyrir yngstu lesendurnar. Atburðarásin er á köflum nokkuð tilviljanakennd sem þarf þó ekki endilega að vera galli. Í sögunni fléttast alls kyns furður inn í jólaundirbúning barnanna og, líkt og svo margar bækur Sigrúnar, er Rauð viðvörun uppfull af ævintýralegu bulli og skondinni vitleysu sem kitlar hláturtaugar jafnt barnungra sem fullorðinna lesenda.