SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir16. ágúst 2020

NOKKUR SÝNI - Um Halldóru Thoroddsen

 
Halldóra Kristín Thoroddsen hafði sent frá sér tvær ljóðabækur þegar þriðja bók hennar, hinn stórskemmtilegi örsagnasveigur, 90 sýni úr minni mínu leit dagsins ljós árið 2002. Bókinni var ákaflega vel tekið en sagan segir að engri íslenskri bók hafi jafn oft verið stolið af bókasöfnum landsins og henni.1 Eins og titill verksins vitnar um er það byggt á æviminningum skáldkonunnar; hvert sýni er örsaga, minningabrot eða gluggi inn í tíma sem var. Bókin hefur verið gefin út tvisvar sinnum með tveimur ólíkum bókakápum. Kápan á fyrri útgáfunni sýnir mynd af mósaík en þannig kallast hún á við heiti bókarinnar – smábrotin; textarnir; sem birtast eru í tímaröð og mynda brotakennda mynd af lífi sögukonu eða sviðsetts höfundar.2
 
Þótt sögurnar séu smáar og hverfist að mestu um líf sögukonunnar, fjölskyldu hennar og vini vísa þær út fyrir sig og segja enn stærri sögu en aðeins einnar manneskju eins og Friðrika Benónýsdóttir bendir á í ritdómi um bókina:
 
Sögurnar eru í réttri tímaröð og smám saman mynda þær heild, þótt ósamstæðar séu og sýna ekki aðeins lífshlaup eins einstaklings heldur endurspegla um leið breytingar á lífsháttum og gildismati þjóðarinnar síðustu 40 árin eða svo. Hér kemst til skila hugsunarháttur kaldastríðsáranna, hippatímabilið, videovæðingin, tölvubyltingin, og margt fleira. Brugðið er upp leiftrum af hugmyndum aldamótakynslóðarinnar, frjálslyndi og kreddufestu 68-kynslóðarinnar og hetjudýrkun tölvukynslóðarinnar, svo nokkur dæmi séu nefnd.3
 
Í formála að verkinu segir Halldóra:
 
 
Hér eru skráð níutíu sýni úr minni mínu. Við þessa sýnistöku verður innihaldið aftur til, getur sest að í lífverum og fjölgað sér. Lifnar við, hættir að vera grunur um möguleika eða far eftir skugga.4
 
 
Það er einkar skemmtilegt hvernig hún bendir á að innihaldið verði aftur til við sýnistökuna því þegar fólk rifjar upp minningar endurupplifir það gjarnan fortíðina að einhverju leyti; heyrir kannski hlátur liðinna ástvina óma í kollinum á sér eða finnur fyrir sömu tilfinningum og það fann fyrir á þeirri stundu sem tiltekinn atburður átti sér stað.5 Sýnin í bók Halldóru hafa þó líkast til ekki aðeins áhrif á skáldkonuna eina því eins og hún nefnir getur innihald þeirra „sest að í lífverum og fjölgað sér“. Það má skilja þannig að sögurnar kunni að orka á tilfinningar lesenda, vekja þá til umhugsunar og fá þá til að rifja upp eigin fortíð þannig að upp rísi nýjar sögur. Sálfræðingurinn og rithöfundurinn Keith Oatley hefur einmitt bent á að í rannsóknum á tilfinningalegum viðbrögðum fólks við texta hafi komið í ljós að fólk nefni oftast ákveðna tilfinningu, hugsun eða minningu þegar það er beðið um að ræða textann sem það les.6 Þar sem að sögur Halldóru byggja á minningum er ekki útilokað að sumar þeirra ýfi upp persónulegar minningar lesenda af svipaðri reynslu og greint er frá. Hugsanlega kannast til dæmis einhverjir lesendur við að hafa leikið sér með snyrtivörur sem börn þótt útkoman hafi kannski ekki verið alveg eins kostuleg og sagt er frá í sögunni „Þegar ég varalitaði mig illa, braut varalitinn og reyndi að flýja“:
 
 
Þegar mamma skrapp frá sennilega til þess að hengja upp þvott, sagði hún að ég mætti ekkert fara á meðan. Strax og hún var farin notaði ég tækifærið, klifraði upp á koll í baðherberginu til þess að varalita mig fyrir framan spegilinn. Það gekk illa. Ég makaði varalit út um allt andlit þó að ég reyndi að vanda mig. Eyðilagði varalitinn. Ég flúði út í ofboði. Þegar út var komið sá ég mömmu nálgast og tók til fótanna. Á flóttanum hrasaði ég um stein í garðinum á móti og fór að gráta. Út úr húsinu komu mæðgur og dóttirin hrópaði: „Jesús Kristur hún er alblóðug.“ Hún hljóp til mín og kallaði til mömmu sinnar: „Þetta er allt í lagi, þetta er bara varalitur.“ Ég var miður mín af skömm. Ekki vistaðist meira en þetta einangraða atvik sem ég álít vera mitt persónulega syndafall. Þess má geta að dóttir konunnar er núna svilkona mín. (7)
 
 
Smáar sögur – eins og sýni Halldóru – eru einatt kallaðar örsögur (e. microfiction) á íslensku. Það er þó ekki eina yfirheitið sem haft hefur verið yfir sögur af þessu tagi því þær hafa einnig verið nefndar leiftursögur (e. flash fiction) en það hugtak virðist hafa orðið ofan á sem heildarheiti í Bandaríkjunum. Hugtakið vísar til þess að sögurnar eru eins og leiftur eða blossi; þær hverfast enda gjarnan um afmarkaða hugmynd, stakan atburð, augnablik eða sundruð brot. Minningar eru gjarnan í brotum en þær geta jafnframt verið kveikjan að leiftursögum eins og sést glögglega í bók Halldóru.7 Sagan „Þegar mér varð á í umferðinni“ er gott dæmi um það:
 
 
Ég beið við biðskyldu eftir að komast inn á Vesturlandsveginn og það var einn bíll fyrir framan mig sem ég veitti ekki mikla eftirtekt. Ég fylgdist grannt með umferðinni á aðalbrautinni og þegar ég sá lag ók ég af stað. Eini hnökrinn við þessa ákvörðun mína var sá að bílstjórinn á undan mér var ekki sama sinnis svo að ég ók aftan á hann. Ég átti bágt með að trúa eigin augum þegar dyrnar opnuðust á bifreiðinni og út steig faðir minn. Hann var pollrólegur að vanda og sagði: „Var þetta nú ekki óþarfi Dóra mín.“ (59)
 
 
Stílsnilld einkennir alla texta Halldóru en hún hafði einstakt lag á að beita húmor og íróníu. Það ætti því ekki að koma á óvart að sögurnar í 90 sýni úr minni mínu séu gjarnan mjög fyndnar. Raunar minnir formgerð þeirra oft á brandara en þeir eiga það sameiginlegt með örsögum að hafa verið skilgreindir sem stuttar sögur. Brandarar skiptast í tvö hluta; annars vegar kynningu persóna og aðstæðna og hins vegar óvæntan endi sem varpar einatt nýju ljósi á það sem áður hefur verið sagt og vekur kátínu. Takmarkaðar upplýsingar, til dæmis um persónur, atburði, sögusvið og stemmingu, eru auk þess einkennandi fyrir þá eins og fyrir örsögur.8 Þótt bók Halldóru sé ekki skilgreind sem brandarabók skín glettnin oft af lokalínum sagnanna eins og sést til dæmis í sögunni „Þegar ég hékk í trénu“:
 
 
Ég bar út bréf þennan umhleypingasama vetur. Svívirt af hundum og mönnum. Eftir þá reynslu settist að í mér hundahræðsla sem ég á enn við að stríða en ég hef að einhverju leyti komist yfir mannafælnina. Einn daginn þegar ég var að klára stykkið mitt í Fossvoginum skall á aftakaveður. Slíkur var veðurofsinn að ég gat mér enga björg veitt, hékk í birkihríslu, laufhrædd og bréfberataskan stóð lárétt út frá mér. Þá opnaðist gluggi á annarri hæði og hrópað var frekjulegri karlmannsröddu: „Viltu hætta að riðlast svona á hríslunum.“ (63)
 
 
Persónurnar sem verða á vegi sögukonunnar eru margvíslegar en meðal annars bregður ýmsu þekktu fólki úr íslensku bókmenntalífi fyrir í sögunum; svo sem Jóhannesi úr Kötlum, Degi Sigurðssyni (bróður skáldkonunnar), Vilborgu Dagbjartsdóttur, Þorgeiri Þorgeirsyni og Halldóri Laxness. Sérlega eftirminnileg er sagan „Þegar Halldór bauð mér Havanavindilinn“ sem segir á kómískan hátt frá samskiptum Halldóru og nóbelskáldsins:
 
 
Ég gekk frá Ljótalandi yfir á Gljúfrastein í blíðskaparveðri. Það var venju fremur bjart yfir mér. Halldór var einn heima á Gljúfrasteini. Hann var líka í góðu skapi og tók ekki annað í mál en að ég drykki með sér kaffi. Eftir kaffið bauð hann mér upp á Havanavindil sér til samlætis. Hann var svo blíður og gestrisinn að hann sagði að ef mér yrði illt af honum væri mér meira en velkomið að gubba í klósettið í forstofunni. (46)
 
 
Hér hafa aðeins verið gefin nokkur sýnishorn af örsögum Halldóru en þær eiga það þó sameiginlegt með öðrum sögum úr 90 sýni úr minni mínu að vera snjallar, skemmtilegar og segja einstaklega margt þótt orðfáar séu. Sumar sögurnar í verki skáldkonunnar eru um alvarleg málefni og búa yfir snarpri samfélagsádeilu en þó eru þær sagðar á skoplegan hátt enda hlýjan og húmorinn sjaldnast langt undan. Sigríður Albertsdóttir kemst vel að orði í ritdómi sem hún skrifaði um bókina á sínum tíma en hann endar hún á þessum orðum: „90 sýni úr minni mínu sýnir að hamingjan býr hér og nú. En hún býr einnig í fortíðinni sem hér birtist í fallegri og litríkri mósaíkmynd Halldóru Thoroddsen.“9 Undir þessi orð má taka þótt skilningur fólks á hamingjunni kunni að vera misjafn rétt eins og sagan „Þegar ég spurði pabba um hamingjuna“ vitnar svo skemmtilega um:
 
Eftir lestur Möttu Maju bókanna varð mér hamingjan hugleikin. Ég spurði meðal annars föður minn að því hvort hann hefði verið hamingjusamur í lífinu. „Ja ... ég hef alltaf haft nóg fyrir stafni,“ svaraði gamli maðurinn og hélt að þar með væri málið útrætt. Þetta svar fannst mér afar ófullnægjandi og alls ekki í anda Möttu Maju. Þegar ég fór að þjarma að honum sagði hann svolítið afundinn: „Ertu viss um að þetta sé íslenskt orð? Þetta var ekki mikið notað þegar ég var að alast upp.“ (28)
 
 
Heimildir
 
1 Þessa flökkusögu sagði sagði mér bókavörður, ég sel hana ekki dýrara en ég keypti.
 
2 Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir, „Mjóna, dropi eða skordýr? Nokkrir þankar um smáar smásögur“, Tímarit Máls og menningar 3/2019, bls. 81-95, hér bls. 88.
 
3 Friðrika Benónýs, „„Ég er allt sem einu sinni var““, Morgunblaðið, 13. nóvember 2002, bls. B 5.
 
4 Halldóra Kristín Thoroddsen, 90 sýni úr minni mínu, Reykjavík: Mál og menning, 2002, bls. 6. Hér eftir verður vísað í verk Halldóru í sviga eftir hverri tilvitnun.
 
5 Guðrún Steinþórsdóttir, „minnið er gatasigti“. Um minni og tráma í Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur“, Ritið 2/2020, bls. 125-160, hér bls. 136-137.
 
6 Keith Oatley, The Passionate Muse: Exploring Emotion in Stories, Oxford, New York: Oxford University Press 2012, bls. 32.
 
7 Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir, „Mjóna, dropi eða skordýr?, bls. 88.
 
8 Sama heimild, bls. 91.
 
9 Sigríður Albertsdóttir, „Hamingjan er hér og nú“, DV, 11. desember 2002. Ritdómurinn er aðgengilegur á Skáld.is og má nálgast hér.

 

Tengt efni