![](https://skald.is/rails/active_storage/representations/eyJfcmFpbHMiOnsibWVzc2FnZSI6IkJBaHBBa0VJIiwiZXhwIjpudWxsLCJwdXIiOiJibG9iX2lkIn19--e402675fae6691d2561971797d407f59adc7d14a/eyJfcmFpbHMiOnsibWVzc2FnZSI6IkJBaDdDem9VYzJGdGNHeHBibWRmWm1GamRHOXlTU0lLTkRveU9qQUdPZ1pGVkRvTWNYVmhiR2wwZVdsYU9ncHpkSEpwY0ZRNkRtbHVkR1Z5YkdGalpVa2lDVXBRUlVjR093WlVPZzlqYjJ4dmNuTndZV05sU1NJSmMxSkhRZ1k3QmxRNkRHTnZiblpsY25RdyIsImV4cCI6bnVsbCwicHVyIjoidmFyaWF0aW9uIn19--025048454440a4ffbe1bfbd2ffec4bffda87ad8b/c9ab35_cc3479a213af4bc985f8a4f157f56833~mv2.jpg)
Halldóra K. Thoroddssen
Halldóra K. Thoroddsen fæddist í Reykjavík 1950. Eftir stúdentspróf stundaði hún nám við sálfræðideild Kaupmannahafnarháskóla um hríð en hætti og útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands 1978. Seinna lá leiðin í Myndlista-og handíðaskóla Íslands og þaðan útskrifaðist hún 1985. Hún hefur starfað við kennslu og umönnun, útlitsteiknun á dagblaði, námskrárgerð í Menntamálaráðuneytinu og dagskrárgerð í útvarpi. Halldóra hefur haldið tvær málverkasýningar, skrifað greinar í blöð og tímarit, flutt útvarpspistla og fjallað um myndlist í sýningarskrám og um bókmenntir í sjónvarpi.
Halldóra hefur sent frá sér ljóðabækur, örsögusafn, smásögusafn, nóvellu/skáldsögu og skáldsögu. Hún hlaut Fjöruverðlaunin fyrir bók sína ,,Tvöfalt gler” árið 2016 og bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2017 fyrir sömu bók.
Halldóra lést í Reykjavík, 18. júlí 2020.
Ritaskrá
- 2018 Katrínarsaga
- 2017 Orðsendingar
- 2016 Tvöfalt gler (frumútgefið 2015 í tímaritröðinni 1005)
- 2007 Aukaverkanir
- 2005 Gangandi vegfarandi
- 2002 90 sýni úr minni mínu
- 1998 Hárfínar athugasemdir
- 1990 Stofuljóð
Verðlaun og viðurkenningar
- 2017 Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins: Tvöfalt gler
- 2016 Fjöruverðlaunin: Tvöfalt gler