SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir19. mars 2019

NÁTTÚRAN SÆKIR Á. Blálogaland

Sigurbjörg Þrastardóttir, Blálogaland, Forlagið 1999.

Blálogaland er fyrsta ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur sem er þó ekki alls kostar óvön að vinna með texta því hún er menntuð í bókmenntafræði og hefur starfað sem blaðamaður. Þessi reynsla skilar sér vafalaust í ljóðagerðinni því það er lítill „byrjendabragur“ á þeim ljóðum sem fylla þessa bók.

Ljóðin mætti sjálfsagt flokka sem náttúruljóð og hér er ort um íslenska náttúru, oft á mjög skemmtilegan hátt, en ekki síður um náttúruna í manneskjunni í margs konar skilningi. Bókin er þétt í byggingu, skiptist í fjóra kafla og heiti hverskafla vísar til náttúrunnar: JÖRÐ AF JÖRÐU, VATN FRÁ VATNI, LOFT ÚR LOFTI og ELDUR UM ELD. Fyrstu þrír kaflarnir innihalda ellefu ljóð hver, en sá síðasti fimmtán ljóð. Ort er í „frjálsu formi“ en höfundur nýtir sér kunnugleg skáldskaparbrögð, til dæmis er stuðlasetning áberandi í flestum ljóðanna.

Það er íslensk náttúra sem alls staðar blasir við af síðum Blálogalands og titill bókarinnar vísar til. Höfundur yrkir beint til landsins í ljóðum eins og „Föðurland“ og „Ísafold“. Ísland birtist sem kalt, hreint og blátt í ljóðunum og tilfinning ljóðmælanda gagnvart landi sínu er væntumþykja og undrun í bland. Afstaða ljóðmælanda gagnvart landinu minnir nokkuð á ljóð Lindu Vilhjálmsdóttur og er þar ekki leiðum að líkjast.

Oft eru dregnar óvæntar og skemmtilegar myndir af tengslum manns og náttúru eins og til að mynda í ljóðinu „Slóðir“ þar sem lýst er fjallgöngu sem endar þannig:

 

hér vil ég fótbrotna
hér vil ég liggja
og bíða björgunar. (19)

 

Þessi kankvísi, „húmoríski“ tónn kveður víða við í ljóðum Sigurbjargar og fer hún sérlega vel með hann. Nefna má ljóðið „Vitnisburður“ sem segir skemmtilega sögu:

 

Sat þarna í nóttinni
og næðingnum
leit til með ánum
öfundaði þær af ullinni
þegar
skyndilega var með mér
herskari furðufugla
(var þó alls óhræddur)
 
þeir ræsktu sig vandlega
en
áður en nokkur þeirra
kom upp orði
reið yfir mikil vindhviða
 
sá á eftir þeim
út um öll tún
eltandi geislabauga. (28)

 

Í öðrum ljóðum bókarinnar eru dregnar stuttar einfaldar myndir sem byggjast á hnitmiðaðri myndhverfingu eða líkingu, svo sem í ljóðinu „Skjótt“:

 

Kemur nóttin
á hljóðlátu skeiði
dimmblá hryssa
með beinhvíta stjörnu
í enni. (44)

 

Í ljóðinu „Vaka“ leikur höfundur sér á skemmtilegan hátt með orð sem tengjast tölvunni (atvinnutæki nútímarithöfunda) og bregður upp dulúðugri og tvíræðri mynd:

 

Hálfur skjár
fáir á ferli
væl í uglu
slegnir lyklar
krafs í hurð
von bráðar
afturelding
= fullur skjár
nýtt tungl
 
músin enn
við þröskuldinn. (45)

 

Það er athyglisvert að náttúran er að sækja á sem yrkisefni íslenskra ljóðskálda af yngri kynslóðinni og það má vel tala um nýja og ferska náttúrusýn í skáldskap síðustu ára. Sigurbjörg Þrastardóttir bætir hér við tón í þessa nýju symfóníu með Blálogalandi sínu með eftirtektarverðum hætti.

 

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 1999

 

Tengt efni