NÁTTÚRAN SÆKIR Á. Blálogaland
Sigurbjörg Þrastardóttir, Blálogaland, Forlagið 1999.
Blálogaland er fyrsta ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur sem er þó ekki alls kostar óvön að vinna með texta því hún er menntuð í bókmenntafræði og hefur starfað sem blaðamaður. Þessi reynsla skilar sér vafalaust í ljóðagerðinni því það er lítill „byrjendabragur“ á þeim ljóðum sem fylla þessa bók.
Ljóðin mætti sjálfsagt flokka sem náttúruljóð og hér er ort um íslenska náttúru, oft á mjög skemmtilegan hátt, en ekki síður um náttúruna í manneskjunni í margs konar skilningi. Bókin er þétt í byggingu, skiptist í fjóra kafla og heiti hverskafla vísar til náttúrunnar: JÖRÐ AF JÖRÐU, VATN FRÁ VATNI, LOFT ÚR LOFTI og ELDUR UM ELD. Fyrstu þrír kaflarnir innihalda ellefu ljóð hver, en sá síðasti fimmtán ljóð. Ort er í „frjálsu formi“ en höfundur nýtir sér kunnugleg skáldskaparbrögð, til dæmis er stuðlasetning áberandi í flestum ljóðanna.
Það er íslensk náttúra sem alls staðar blasir við af síðum Blálogalands og titill bókarinnar vísar til. Höfundur yrkir beint til landsins í ljóðum eins og „Föðurland“ og „Ísafold“. Ísland birtist sem kalt, hreint og blátt í ljóðunum og tilfinning ljóðmælanda gagnvart landi sínu er væntumþykja og undrun í bland. Afstaða ljóðmælanda gagnvart landinu minnir nokkuð á ljóð Lindu Vilhjálmsdóttur og er þar ekki leiðum að líkjast.
Oft eru dregnar óvæntar og skemmtilegar myndir af tengslum manns og náttúru eins og til að mynda í ljóðinu „Slóðir“ þar sem lýst er fjallgöngu sem endar þannig:
hér vil ég fótbrotnahér vil ég liggjaog bíða björgunar. (19)
Þessi kankvísi, „húmoríski“ tónn kveður víða við í ljóðum Sigurbjargar og fer hún sérlega vel með hann. Nefna má ljóðið „Vitnisburður“ sem segir skemmtilega sögu:
Sat þarna í nóttinniog næðingnumleit til með ánumöfundaði þær af ullinniþegarskyndilega var með mérherskari furðufugla(var þó alls óhræddur)þeir ræsktu sig vandlegaenáður en nokkur þeirrakom upp orðireið yfir mikil vindhviðasá á eftir þeimút um öll túneltandi geislabauga. (28)
Í öðrum ljóðum bókarinnar eru dregnar stuttar einfaldar myndir sem byggjast á hnitmiðaðri myndhverfingu eða líkingu, svo sem í ljóðinu „Skjótt“:
Kemur nóttiná hljóðlátu skeiðidimmblá hryssameð beinhvíta stjörnuí enni. (44)
Í ljóðinu „Vaka“ leikur höfundur sér á skemmtilegan hátt með orð sem tengjast tölvunni (atvinnutæki nútímarithöfunda) og bregður upp dulúðugri og tvíræðri mynd:
Hálfur skjárfáir á ferlivæl í ugluslegnir lyklarkrafs í hurðvon bráðarafturelding= fullur skjárnýtt tunglmúsin ennvið þröskuldinn. (45)
Það er athyglisvert að náttúran er að sækja á sem yrkisefni íslenskra ljóðskálda af yngri kynslóðinni og það má vel tala um nýja og ferska náttúrusýn í skáldskap síðustu ára. Sigurbjörg Þrastardóttir bætir hér við tón í þessa nýju symfóníu með Blálogalandi sínu með eftirtektarverðum hætti.
Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 1999