SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir29. mars 2023

HALLÓ, ÞÚ GAMLI SÁRSAUKI. Óskilamunir

Eva Rún Snorradóttir. Óskilamunir. Reykjavík: Benedikt 2021, 147 bls.

 

 

Í Óskilamunum eftir Evu Rún Snorradóttur eru þrjátíu og þrjár frásagnir sem lesa má sem sjálfstæðar sögur – og ljóð inni á milli – en saman mynda þær einnig ákveðna heild sem opinberast bæði í gegnum rödd sögukonu og endurtekin stef eða þemu. Bókinni mætti lýsa sem smásagnasveig sem myndaður er í kringum ákveðið grunnstef. Í annarri sögu bókarinnar, sem ber yfirskriftina „Hvítur hestur“, er grunnstefinu lýst og um leið gefin skýring á titli bókarinnar:

 

Sársauki í óskilum hverfur bara sífellt lengra inn í þig, grasserer þar og rís svo upp á óvæntum augnablikum. Verkefnið þitt er að sjá hann. Taka hann inn. Heilsa honum: Halló, þú gamli sársauki. Leyfa honum að hneggja soldið, sýna sig, montinn og rismikinn eins og hvítur hestur og þjóta svo út í eilífðina (17).

 

 

Þessi orð eru tilvitnun í „þerapista“ sögukonu sem bendir til þess að hún sé í sálrænni meðferð vegna sársauka og óuppgerðra mála úr fortíðinni og að með því að skrifa um sársaukann sé sögukona að fara að ráðum þerapistans. Í frásögnum felst því von um sálræna hreinsun, karþarsis, svo vísað sé til hugtaks Aristótelesar sem taldi slíka hreinsun reyndar meginmarkmið skáldskapar, líkt og hann lýsir í bók sinni Um skáldskaparlistina.

Fremst í Óskilamunum standa nokkurs konar einkunnarorð, tilvísun í pólsk-svissneska sálfræðinginn Alice Miller sem bendir á að hægt sé að uppgötva innra með sér auðlegð þar sem áður virtist aðeins ríkja tóm eða óttavekjandi fantasíur. Og með því að breyta óttanum í auðlegð geti manneskjan skapað sér rými (heimili) sem áður var ekki til. Höfundur/sögukona leggur út frá þessum orðum í nokkrum línum sem fara á undan sjálfum sögunum og lýsa í raun því markmiði sem stefnt er að í bókinni. Hún þarf að: „Sækja sársaukann og koma honum heim“ og hún er tilbúin til að berskjalda sig, „leggja allt undir, til að ná sáttum við innri skugga“ og „gefast upp. Gefast upp fyrir öllu saman. Uppeldinu, hugmyndunum, ástinni, mannasiðum, sjálfri þér. Öllu þessu sem hefur fleygt þér í ógöngur.“

Tilvitnunin í sálfræðinginn og þessi aðfaraorð gefa tóninn fyrir frásagnirnar sem fylgja. Í fyrstu sögunni, „Dagsferð á blómasýningu“, er lýst vanlíðan og ótta kvenna sem þrá að eignast saman barn og hafa gengið í gegnum tæknifrjóvganir sem hafa misheppnast. Þessum sársauka er hins vegar komið á framfæri á afar lágstemmdan hátt, hann lúrir undir yfirborði frásagnarinnar, fátt er sagt berum orðum en lesandinn skynjar óttann um að enn geti farið illa. Þessi saga segir okkur einnig að sögukona búi með annarri konu og sagan sem fylgir í kjölfarið segir frá daðri milli tveggja kvenna, sem aðallega fer fram í tölvupósti. Reyndar er margt fleira á ferðinni þar, sagan „Hvítur hestur“ er marglaga, líkt og gildir reyndar um allar sögur bókarinnar. Sögukona er stödd á fyrirlestri þar sem „erlent gagnkynhneigt par [er] að halda powerpoint-sýningu á verkum sínum“ (14) og segja frá gjörningi þar sem þau fá þátttakendur „til að vera önnur persóna, stíga inn í tilbúið hjónaband, með nýjum maka á ókunnugu heimili um stundarsakir þar sem þeir fylgdu handriti, framkvæmdu gjörðir fengnar úr hafsjó eðlileikans“ (16). Af ofansögðu má sjá að á fyrstu síðum Óskilamuna er komið á framfæri gríðarlegu magni upplýsinga um þá rödd sem talar í bókinni, um (van)líðan hennar og stöðu. Hún er „hinsegin“ og líður ekki vel á þeim „hafsjó eðlileikans“ sem hún lifir í. Slíkri líðan fylgir áköf leit að ásættanlegri sjálfsmynd sem þarf að kafa djúpt eftir:

 

Ný sjálfsmynd er mikið djúpsævisuppbrot, fersk og máttug orka en samt þessi gjá eins og í flutningum, allt þitt er framandi og ekkert á sínum stað. Stundum kemur hún óvænt og ófyrirséð, eins og að þurfa að rjúka úr húsi sínu um miðja nótt. Hvað var ekki tilbúningur, hversu langt dreifðist þetta leikrit yfir sjálfsmynd mína? Ég var lengi að vaxa inn í það að vera lesbía. Ég hef verið í stöðugum landvinningum á eigin sögu. Af hverju liggja sjálfsmyndir vinkvenna minna aldrei til greiningar og álita í boðum og hittingum? Mig langaði að heyra um ógöngur þess að upplifa sig fundna, aðþrengjandi gildi fjölskyldunnar, lúmskar og síkvikar kröfur heterónormsins. Mig þyrstir í skýrslur af upplifun þeirra af því að vera kona í ástarsambandi við mann, í karllægu samfélagi í hægu bataferli til jöfnuðar. En mér leið eins og að stinga upp á þessu til umræðu og greiningar væri eins og að vilja ræða súrefni, ræða hvítu veggina. (19–20)

 

Þriðja sagan bætir svo enn einni víddinni við þegar sögukona ljóstrar því upp að hún hafi „ekki áhuga á kynlífi“, að hún sé með „almennt, náttúrulegt áhugaleysi á kynlífi […] einstaklingur á rófi sem aldrei er rætt“ (18–19). Titill sögunnar „Homoromantic“ vísar til þess að hún hefur „einungis rómantískar hvatir til kvenna, ekki kynferðislegar“ (20). Sögukona er að velta því fyrir sér hvort hún eigi „að opna kviku“ sína fyrir vinkonuhópnum, segja þeim frá þessum tilfinningum og hætta á skilningsleysi og höfnun með orðunum: „Þarf að gefa öllu nafn?“ (20). Það er beitt ádeila í þessari stuttu en mögnuðu frásögn sem fer sífellt dýpra í greiningu á samskiptum kynjanna, samskiptum vinkvenna og mismunandi stöðum einstakra kvenna í slíkum hópi. Eva Rún hefur áður skrifað magnaðar lýsingar á vinkonum, um mikilvægi þeirra í lífi hver annarrar og þann ómetanlegan stuðning sem konur geta haft hver af annarri um leið og þær geta verið harðir gagnrýnendur hver annarrar. „Vinátta kvenna er eilífðarvél“ segir í eftirminnilegu ljóði í Fræ sem frjógva myrkrið (2019) sem Eva Rún hlaut ljóðabókaverðlaunin Maístjörnuna fyrir.

Þemað um hafsjó eðlileikans og hinar lúmsku og síkviku kröfur heterónormsins styrkist með hverri sögu. Sögukona er á ferðalagi í „gegnum rykugar kenjar minninga og týndra sjálfsmynda“ svo vísað sé í orðalag úr sögunni „Snjógallinn“ (27) sem lýsir á skondinn hátt hvernig sögukona hefur nokkurs konar hamskipti þegar hún klæðist gömlum snjógalla. Í mörgum frásagnanna er hún á ferðalagi um staði og þorp á Íslandi og erlendar borgir, hittir alls konar fólk og lendir í fjölbreyttum aðstæðum sem allar skilja eftir sig minningar og mark á sálina. Sjónarhorn Evu Rúnar er alltaf greinandi, henni tekst að fletta lagi eftir lagi utan af atvikum og orðum samferðamanna, er alltaf fær um að kafa undir yfirborð atburða. Þetta gildir ekki síst um lýsingar hennar á ástarsamböndum, flóknum tilfinningum og valdabaráttu.

Eva Rún hefur afbragðs tök á að láta sársauka og húmor vegast á í texta sínum og mætti taka fjölmörg dæmi úr bókinni um slíkt. Stundum er textinn bæði fyndinn og meinhæðinn en alltaf býr þó einhver sársauki að baki. Sumar sögurnar eru einstaklega hugmyndaríkar og mætti til dæmis nefna sögu með yfirskriftinni „Persónan“ sem hefst á þennan veg:

 

Það er persóna innra með mér, einhver afskiptur og þurfandi partur af sjálfri mér, sem lætur mig ekki í friði. Þessi persóna vill að ég skrifi um sig, líf sitt, átök og örlög. Ég hef aldrei sýnt því nokkurn áhuga. Hún birtist í hugskotum mínum, ágeng og krefjandi, og segist eiga erindi við mig vegna þess að ég fæst við listir. Þetta er transkona en sagan fjallar ekki um það heldur um sigra og ósigra í ævistarfinu í einhverri iðn sem ég hef ekki áttað mig almennilega á því að ég gef henni ekki mikið færi á að tjá sig. Hún vill að það verði settur upp söngleikur á sviði þar sem saga hennar er sögð … (83)

 

Hér er snúið upp á sjálfmyndina á flókinn, fyndinn og áhugaverðan hátt.

Í síðustu sögu bókarinnar, „Með tímanum,“ má segja að varpað sé ljósi á allar fyrri sögurnar á hnitmiðaðan hátt. Sögukona finnur íbúa æskuheimils síns í símaskránni, hringir í hann og biður um að fá að koma í heimsókn: „einskonar innri vettvangsferð“ (142). Markmið ferðarinnar er skýrt:

 

Ég gekk út frá því að þessi ferð yrði á sama tíma ferð á kunnuglegan stað, stað sem á djúpsævinu verður alltaf heimili mitt, en einnig leiðangur inn í óhreyfð síki; beint inn í minningar, drauma, vonir sem hafa brugðist, óra, martraðir. Ég myndi finna þarna hluta af sjálfri mér út um allt, eins og drasl eftir langt partý, og líkt og í tiltekt taka þá saman. (142)

 

Reynslan af heimsókninni er ekki eins og hún bjóst við, íbúðin kemur henni á óvart, hún er „svo smá“ og eldhúsinnréttingin sem í bernsku hennar var ný hefur verið látin „grotna niður“. Hún finnur fyrir skelfingu og líkamlegum sársauka: „það er ekkert annarlegra en þegar hið kunnuglegasta er framandlegt“ (144). En þó hefur eitthvað gerst:

 

Það hafði orðið röskun. Tærleiki staðar sem aldrei hafði verið vitjað var mengaður. […] Eitthvað hafði verið snert, fangað, tekið utan um. Eins og þegar sagt er móttekið í talstöð. Glerbrotum sópað saman í nýja ljósbláa fægiskóflu.

Allt mengast með tímanum hvort eð er. (144)

 

Geta má sér til um að svipað ferli sé á ferðinni í öllum frásögnum Óskilamuna; sögukona vitjar fólks og staða, atburða og gamalla tilfinninga. Hún snertir, fangar og tekur utan um alla óskilamunina; sópar brotum saman og tekst mögulega með því að móta nýja og heillega sjálfmynd sem getur risið upp hnarreist eins og þyrst planta sem hefur verið vökvuð.

Á einni af fyrstu síðum bókarinnar, á eftir tilvitnuninni í sálfræðinginn Alice Miller og aðfaraorðum höfundar/sögukonu og á undan fyrstu sögunni, eru einmitt þrjár litlar ljósmyndir af friðarlilju. Á fyrstu myndinni er plantan í slæmu ástandi með niðurlút blöð, á þeirri næstu er hún aðeins frísklegri og á síðustu myndinni stendur hún hnarreist í blómapottinum. Þessar ljósmyndir tengjast sögunni „Friðarlilja“ sem segir frá því þegar sögukona, nýskilin, hefur fengið lánaða íbúð hjá kunningjakonu sinni: „En það var eitt vesen sem fylgdi þessari íbúð, ég þurfti að sjá um friðarlilju. Það setti mig úr jafnvægi að sjá hana. Ég hafði alltaf átt í flóknu sambandi við friðarliljur og nú var ekki tíminn til að fara að vinna í því sambandi“ (129). En hún ákveður þó að vökva plöntuna:

 

Þegar ég kom í íbúðina var friðarliljan alveg niðurlút, blöð hennar með blómunum drupu niður á hvítan eldhúsbekkinn. Mér fannst hún pirrandi, svo dramatísk og full sjálfsánægju. Tók mynd af henni. Eins og sársauki hennar fróaði mínum í stundarkorn. Svo gaf ég henni vatn. Að kvöldi næsta dags var hún full reisnar. Ég þefaði af blómunum hennar og leið dálítið betur. (130)

 

Í frásögninni kemur fram að sögukona tekur myndir af plöntunni og liggur því beint við að álykta að það séu myndirnar fremst í bókinni. Önnur planta kemur reyndar við sögu í frásögninni „Plantan í biðstofunni“ þar sem sögukona stendur fyrir framan sérkennilega plöntu sem henni finnst horfa á sig og sjá sig; „við horfum hvor á aðra“ (104). Hún skynjar nýja orku sem stafar frá plöntunni: „djúpstæðri og auðmjúkri, lágstemmdri viðurkenningu á því sem er. Eitthvað sem ég hafði ekki upplifað áður“ (104). Af orku plöntunnar dregur sögukona eftirfarandi ályktun:

 

Ég þekkti bara það að stýra, að stýra reynslu minni yfir í það sem var eftirsóknarvert samkvæmt einhverjum aðfengnum stöðlum. Mat sjálfa mig og sögur mínar eftir þeim. Alltaf eftir djammið og tilviljanakennt kynlíf eins og nú voru átök innra með mér á milli tveggja póla. Það var tómið kunnuglega og sviðsetningin sem ég framreiddi fyrir vinkonur mínar. Fyrir mig var þetta bara leiðin til að lifa af: Láta sjónarspilið ríkja yfir tilfinningunum (104–105).

 

Líta má á það verk að safna saman óskilamunum sálarlífsins sem leið sögukonu til að takast á við tómið; að reyna að minnka sjónarspilið og horfast í augu við erfiðar tilfinningar. Hún er að breyta ótta í auðlegð, svo aftur sé vísað í einkunnarorð sálfræðingsins fremst í bókinni. Það sem stendur þó upp úr að lestri loknum er frábært vald Evu Rúnar á því að skrifa marglaga texta, þótt frásagnirnar kunni að virðast hversdagslegar á yfirborðinu er mikið dýpi undir sem vert er að kafa í.

 

Ritdómurinn birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2022.

 

 

Tengt efni