SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 7. mars 2023

ÞEIM VAR EKKI SKAPAÐ NEMA AÐ SKILJA. Z. ÁSTARSAGA

Vigdís Grímsdóttir. Z. Ástarsaga. Iðunn 1996. 288 bls.

 

Ég sit hérna og man allt einsog það var. Allt einsog það er og verður alltaf þangað til yfir lýkur.
Og ég fer allt í einu að hlæja.
Óskaplega er ég nú harmræn og sorgleg manneskja.
Hérna sit ég ein og varpa bréfum og ljóðum á eldinn.
Einsog skáldsagnapersóna í rómantískri vellu.
Einsog kvikmyndapersóna í úreltri mynd.
En þetta er líf mitt.
Hvert orð mitt er satt, hver tilfinning raunveruleg.
Og hérna mun göngu minni ljúka.
                                                                              (218-219)

 

Með þessum orðum lýsir sögukonan, Anna, í nýjustu skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur, Z. Ástarsögu, í hnotskurn þeim ramma sem frásögn hennar er færð í. Anna er haldin banvænum sjúkdómi og hefur ákveðið að enda þjáningar sínar og líf sitt sjálf. Hún hefur valið stað og stund og eyðir síðustu nóttinni við að rifja upp ástarsamband sitt við Z og lesa frá henni bréf sem hún brennir síðan í eldi. Við fyrstu sýn má kannski einmitt ætla að hér sé um að ræða afar melódramatíska frásögn eða „rómantíska vellu“, eins og hún sjálf orðar það - efnið býður vissulega upp á það. En Vigdísi Grímsdóttur tekst þó gæfusamlega að stýra fram hjá helstu gildrum melódramans, en meðal helstu einkenna þess eru yfirborðslegar persónulýsingar og staðfesting á ríkjandi gildum og hugumyndum. Helstu kostir þessarar skáldsögu felast einmitt í að frásögnin miðar að því að kollvarpa ríkjandi hugmyndum um ástina, sérstaklega, og að persónur hennar eru margræðar, ekki allar þar sem þær eru séðar og taka breytingum í rás sögunnar.

 

Ástin

Eins og undirtitill bókarinnar bendir til er hér um ástarsögu að ræða, þó ekki hefðbundna ástarsögu eins og við þekkjum hana því að í frásagnarmiðju er ástarsamband tveggja kvenna, Önnu og Z. Og eins og aðaltitillinn, Z, bendir á er þessi ást að vissu leyti „bönnuð“ eða „falin“ í litrófi mannlífsins, líkt og stafurinn z er bannaður í íslensku máli þótt hann sé vissulega til staðar í stafrófinu.

En það er ekki eðli samkynhneigðra sambanda í sjálfu sér sem er viðfangsefni sögunnar, heldur öllu fremur eðli ástarinnar sem mannlegs fyrirbæris - óháð kyni og kynhneigð. Til að undirstrika þetta stillir Vigdís upp öðru ástarsambandi við hliðina á sambandi Önnu og Z, sambandi Arnþrúðar, systur Önnu, og Valgeirs, sem sagt ástarsambandi karls og konu. Þessi tvö ástarsambönd spegla síððan stöðugt hvort annað, þau eru borin saman leynt og ljóst og miðar sú speglun að því að sýna að ástin er ætíð söm við sig í öllum sínum fjölbreytileika og mismunandi birtingarmyndum. Það er einmitt sá lærdómur sem Arnþrúður lærir hina örlagaríku nótt sem sagan gerist á, en hún er í upphafi treg að samþykkja að ást Önnu og Z jafnist á við ástina milli hennar sjálfrar og Valgeirs: „... með okkur ríkti enginn samhljómur, hún var öðruvísi en ég á alla lund“ (34) segir hún í byrjun um Z. Í rás næturinnar verður Arnþrúði hins vegar smám saman ljóst að það er einmitt mikill samhljómur með tilfinningum hennar og tilfinningum Z, þær bregðast líkt við ótta og öryggisleysi, eru eins í afbrýðisemi sinni og þrá:

 

Mér hefur víst verið ætlað að læra margt á einni nóttu, nema þessi nótt og biðin eftir systur minni eigi að staðfesta það sem ég veit og hef alltaf vitað, að í raun og sannleika sé enginn munur á fólki þegar allt kemur til alls, að hugsanir hins venjulega manns séu ævinlega á svipuðum nótum og flestar þeirra beinist að einföldustu leiðinni í leit að lífshamingju. (154)

 

Niðurstaða Arnþrúðar verður að Z „elskar einsog ég“ (229) og um leið er það að sjálfsögðu sú niðurstaða sem frásögnin miðlar lesandanum og þannig reynir höfundur að vinna á móti þrálátum fordómum og hugmyndun manna um ástir samkynhneigðra.

 

Dauðinn

Ástin og dauðinn hafa löngum verið samslungin söguemi og svo er einnig hér. Þótt samband Önnu og Z sé í fyrirrúmi í frásögninni, og titill sögunnar bendi til þess að hér sé ástarsaga á ferðinni, þá er dauðinn ekki síður það efni sem sífellt þrengir sér fram í þessum texta. Sjálfur rammi sögunnar markast af stefnumóti Önnu við dauðann. Frásögnin hefst þegar hún hefur lagt upp í sína hinstu ferð, upp í sumarbústað sem hefur verið afdrep þeirra Z og uppáhaldsstaður. Lokakaflinn lýsir síðan komu Z, Arnþrúðar og Valgeirs í bústaðinn þar sem þau finna Önnu dána. Og það er ekki bara í söguefninu sem dauðinn er sífellt nálægur heldur einnig í öllu myndmáli textans. Fyrsti kaflinn er fullur af dauðatáknum og vísunum. Anna er að leggja af stað upp í ferð sem felur í sér „hið eina endanlega öryggi", tími hennar er liðinn og hún situr og fóðrar eld á bréfum og steineggjum (gjöfum hennar til Z) eða fjöreggjum sem sortna og herðast í logunum. Slíkar vísanir til dauðans er að finna gegnum allan textann til lokaorðanna: „ - Ætli sé ekki kominn tími til að slökkva.“

Ást Önnu og Z er mörkuð dauðanum allt frá byrjun því sama dag og samband þeirra hefst fær Anna fréttir af hinum banvæna sjúkdómi sínum. Sú staðreynd setur óhjákvæmilega mark sitt á ástarsambandið, þó á mjög sérstakan hátt þar sem Anna tekur þá ákvörðun að leyna veikindum sínum fyrir Z þar til þeim verður ekki leynt lengur. Hún telur sér trú um að með því sé hún í aðra röndina að hlífa ástkonu sinni við sársauka (sem er skammgóður vermir) og í hina röndina að hlífa sjálfri sér við því að Z umgangist hana sem sjúkling fremur en ástkonu. Þetta „leyndarmál“ Önnu hlýtur að búa að baki háttalagi hennar og tilfinningalegum viðbrögðum, sem hvor tveggja eru oft á tíðum ólík því sem við má búast af ástfanginni manneskju en verða skiljanleg í ljósi skapadómsins sem yfir henni vofir. Sjálf líkir Anna sér við blóðsugu eða vampíru:

 

Ég get nefnilega án þess að hika líkt tilfinningum mínum við bitvarg sem sýgur blygðunarlaus þitt heita blóð og nærist á samvisku þinni. Án blóðs þíns og samvisku hefði ég aldrei lagt af stað. (11)

 

Ef Anna hefur bergt á blóði Z, í mynd vampírunnar, má þá ekki ætla að Z sé einnig mörkuð dauðanum á þann hátt sem ekki verður til baka snúið? (Hérna væri hægt að halda áfram að spinna laglegar oftúlkanir út frá mynd blóðs og veikinda - en ég læt ekki freistast.)

Ég gæti trúað að af þessari samfléttun ástar og yfirvofandi dauða skapist aðal deiluefni lesenda bókarinnar. Spurningum um áhrif hins síðarnefnda á hið fyrrnefnda er erfitt að svara og einnig er erfitt að leggja mat á eða „dæma“ þá ákvörðun Önnu að láta Z „vaða í villu“ lengi framan af, sem óhjákvæmilega verður til þess að draumar hennar og framtíðaráform rekast grimmdarlega á við raunveruleikann þegar Anna leysir frá skjóðunni. Það er líka ekki á hreinu hver höfundarafstaðan hér er - en í sjálfu sér skiptir það ekki máli; hver lesandi á rétt á því að hafa sína siðferðilegu skoðun á þessu máli.

Með því að marka ástarsamband Önnu og Z af dauðanum á þennan hátt hefur Vigdís fært ástarsöguna inn í bókmenntalegt minni sem er alþekkt: saga þeirra verður saga Tristans og Isoldar, saga Werthers og Lottu, saga Rómeó og Júlíu; saga elskendanna sem ekki var skapað nema að skilja. Það er vissulega snjallt og óvenjulegt að sjá ástir tveggja kvenna færðar í búning slíkra eilífra elskenda.

 

Orðin

 

sumt er ekki hægt að segja, sumt er ekki hægt að skrifa af því að það hefur enga rödd, engan hljóm, orð einsog helvíti segja ekki það sem hver stafur felur raunverulega í sér, engin útskýring nægir til að opna orðið og sýna þér inn í heim þess, þann heim sem ég þekki, til þess þyrfti líka orð, jafngagnslaus og útslitin og orðið sjálft, sömu sögu er að segja um öll hin orðin og líka klausuna góðu,
ég elska þig,
elska þig.
          (168)

 

Í þessari tilvitnun í Z kristallast kjarni allrar táknfræði; að merking verður aldrei höndluð til fulls því táknin benda bara á önnur tákn, orðin á önnur orð, en ekki á neinn veruleika sem hægt er að höndla, skilgreina og skilja. Og þetta er vitaskuld einnig vandi rithöfundarins í hnotskurn: hvernig á hann að lýsa með orðum heimi tilfinninga og hugmynda svo að ekki fari á milli mála það sem ætlunin er að miðla? Það er vitaskuld ekki hægt og það er einmitt sá vandi sem liggur til grundvallar allri umræðu um bókmenntir og texta yfirleitt. Ef ekkert „færi á milli mála“ þyrfti ekki að hafa um það fleiri orð, umræða og skoðanaskipti væru óþörf.

En það er að sjálfsögðu ekki þessi vandi sem liggur Z á hjarta í ofan birtri tilvitnun. Hún er að reyna að orða þann vanda sem þeim er á höndum sem vill tjá ást sína í tungumálinu. (Og þetta er um leið vandi höfundarins sem vill tjá eðli ástarinnar í texta sínum.) En ástin og tungumálið „haga sér“ kannski þegar öllu er á botninn hvolft ekki ósvipað. Hvort tveggja er rekið áfram á þránni eftir merkingu, merkingu sem aldrei verður þó höndluð til fulls. En þráin við[1]heldur viðleitninni til að elska og til að tala og þannig til að skilja sjálfan sig og heiminn. „Ég skrifaði af þrá og stundum af þráa“ (bls. 13) segir Anna snemma í frásögn sinni og orðar þar með grundvöll bæði sögu sinnar og söguefnis.

Z. Ástarsaga er bæði lík og ólík fyrri bókum Vigdísar Grímsdóttur. Líkindin felast fyrst og fremst í því að hér sem áður vílar Vigdís ekki fyrir sér að fjalla um stóru eilífðarefnin eins og ást, dauða, siðferði og mannlega samkennd. Einnig minnir sjálfur frásagnarramminn á Ég heiti Ísbjörg. Ég er Ijón (1989), Stúlkuna í skóginum (1992) og Grandaveg 7 (1994) í því að allar þessar sögur gerast á einum sólarhring þótt innri tími þeirra spanni mörg ár. Einnig kallar Z. Ástarsaga á samanburð við ljóðabókina Lendar elskhugans (1991) þar sem hún fjallar að öðrum þræði um sama efni.

Það sem skilur hins vegar þessa bók frá flestum öðrum bókum Vigdísar er að hér er bæði frásagnarháttur og söguflétta mun einfaldari en lesendur þekkja úr fyrri verkum hennar. Að því leyti er þessi bók að mörgu leyti aðgengilegri en ýmsar fyrri bækur hennar og ætti að höfða til stærri lesendahóps en áður. En vissulega býður þessi texti í öllum einfaldleika sínum upp á stríðari lestur, lestur milli lína og handan orða. Þannig eru allar góðar skáldsögur.

Ritdómurinn birtist áður í Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 1997, bls. 107-110