VEGFERÐ MANNSINS - OG DAUÐINN. Klukkan í turninum
Vilborg Dagbjartsdóttir: Klukkan í turninum. Forlagið 1992, 56 bls.
Ný ljóðabók eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur hlýtur að teljast til gleðitíðinda á íslenskum bókamarkaði. Þess fremur nú þegar liðinn er rúmur áratugur síðan Mál og menning gaf út safnritið Ljóð sem hafði að geyma þrjár áður útgefnar ljóðabækur Vilborgar ásamt nýjum ljóðum og ljóðaþýðingum. Frá því að Ljóð kom út árið 1981 hafa unnendur ljóða Vilborgar orðið að láta sér nægja það sem hún hefur birt í tímaritum og ef til vill hafa einhverjir verið svo heppnir að heyra hana lesa upp ljóð sín einhvers staðar. Nokkur ljóð sem áður hafa birst í TMM eru endurprentuð í nýju bókinni, en auk þeirra eru hér mörg ný frumsamin ljóð og tveir þýddir ljóðabálkar.
Klukkan í turninum er falleg bók, bæði að innihaldi og ytra byrði. Á kápu er málverk eftir Valgarð Gunnarsson og fellur myndin vel að efni ljóðanna um leið og hún vísar til titilsins. Myndin er samansett af bláum og gráleitum flötum, á forsíðu gnæfir grár turn sem minnir á Hallgrímskirkju. Fyrir framan turninn og fyrir miðri mynd stendur mannvera og er hringur sleginn um höfuð hennar og herðar sem setur þannig manneskjuna í brennidepil um leið og hringurinn myndar klukku á turninum sjálfum.
Manneskjan er miðpunktur flestra ljóðanna, kannski mætti orða það þannig að manneskjan og vegferð hennar um lífið sé sá þráður sem efni ljóðanna er spunnið úr. Með þann efnisþráð í huga má sjá ákveðna þróun í ljóðunum; í fyrsta hluta er aðallega ort um börn og tilveru þeirra; í þeim næsta má sjá hugleiðingar um tilfinningar mannsins (ást og hatur og allt þar á milli) um tímann, um bókmenntirnar; í þriðja hluta eru ljóðrænar myndir þar sem kyrrð og einsemd eru áberandi; og fjórði og síðasti hlutinn fjallar um dauðann. Hér er ég að sjálfsögðu að einfalda málið, en þennan þráð má vel finna í ljóðabókinni og gefur hann henni ákveðna stígandi og markvísi í byggingu.
Heimur barnakennarans
„Loksins loksins“ segir í einu fyrstu ljóðanna í bókinni, en ekki er verið að fagna nýju bókmenntaverki heldur því að loksins er komið páskafrí eftír harðan og snjóþungan vetur. „Loksins loksins páskafrí“ er ljóð lína úr ljóðinu „Lóusöngur“ sem er eitt magnaðasta ljóðið í bókinni. Ljóðið lætur lítið yfir sér í byrjun, lýst er Skólavörðuholtinu á þungum vetrardegi.
Með óvæntu myndmáli verða staður og stund skyndilega óræð, skil nútíðar og fortíðar virðast hverfa og ljóðið tekur á sig stemningu fornrar bögu um leið og það lýsir kunnuglegu umhverfi úr nútímanum.
En í lokin rofar aftur til og ljóðið endar með sérlega skemmtilegri mynd þar sem ,,tíst tölvuspilanna“ hefur tekið við vorboðahlutverkinu af lóusöngnum.
„Lóusöngur“ er eitt af átta ljóðum í fyrsta hluta bókarinnar og eru þau ljóð efnislega tengd — í þeim flestum er ort um heim barnakennarans á einn eða annan hátt. Í ljóðunum „Vormorgunn“ og „Dýrleif grætur“ segir af börnum á leið í skólann. Í því fyrrnefnda er brugðið upp ákaflega fallegri mynd af dreng sem treður snjó í skólaporti: „treður sporaslóð / í sveiga / teiknar línur / ár og strendur / býr til landakort.“ Þetta ljóð er fyrsta ljóð fyrsta hluta og er það mjög viðeigandi — upphafið markar lítill drengur í ónumdu landi, hann er í senn landkönnuður og geimfari, framundan ónumin lönd og endalausir möguleikar. Í síðarnefnda ljóðinu fylgjum við hins vegar telpum sem eru að verða seinar í skólann — og ein þeirra grætur. Ljóðmælanda grunar að orsök gráts Dýrleifar sé einhver önnur og meiri en það að verða of sein í skólann og reynir: „að stugga burt angistinni / sem á sér dýpri rætur / handan við þennan hversdagsgráa morgun.“ Í ljóðinu „ í skriftartíma“ er einnig grunur um angistarfulla tilveru hjá litlu stúlkunni sem teiknar mynd af grátandi sól: „táralækir ná alveg niður í bláar öldurnar / og barmafylla hafið.“ Í þessu ljóði og ljóðinu „Á sjöunda degi“ sjáum við kennarann í skólastofunni, lýst er tengslum kennara og barna og því hvernig eitt tilsvar hjá barni, eða smáatriði í teikningu barns, getur vísað langt út fyrir sig. Þannig öðlast lítið ljóð aukna merkingu og hið ósagða leitar á lesandann. Fá vel völd orð vekja upp grun um aðrar og meiri sögur.
Í ljóðinu „Sérstakur dagur“ er ort beinlínis um hið stóra sem hið smáa getur geymt. Ljóðmælandi finnur perlu á götunni og fundurinn verður tilefni gleði og fullnægju fyrir finnandann sem skynjar leynda, persónulega merkingu í fundinum þó hann viti:
Þetta ljóð er það eina í fyrsta hluta sem ekki fellur beinlínis undir skilgreiningu mína á þeim hluta sem heimi barnakennarans. Hins vegar helst efni þess í hendur við efni annarra ljóða hlutans. Með því að nota 2. persónu fornafnið og ávarpa lesandann beint má kannski sjá í þessu ljóði áskorun til lesandans að gleyma ekki hinu smáa í tilverunni, hvort sem það eru mikilvæg smáatriði í lífi manns sjálfs — eða börnin, viska þeirra og sérstæð upplifun á veröldinni.
Kona úti í bæ setti saman texta um mig
Í öðrum hluta bókarinnar eru sex ljóð, það fyrsta nokkurs konar heimspekileg vangavelta um ástina og það síðasta brosleg mynd af persónugervingi þeirrar hinnar sömu ástar: Amor litla. Þessi tvö amorsljóð ramma síðan inn fjögur ljóð þar sem ort er í orðastað kvenna, þekktra og óþekktra. Ljóðin „Þjófsaugun“ og „Fedra“ falla í flokk með fyrri ljóðum Vilborgar, þar sem hún yrkir um konur í bókmenntum eða í orðastað þeirra. „Þjófsaugun“ er skemmtileg mynd og ný túlkun á hinu fræga atviki í upphafskafla Njáls sögu þegar Höskuldur spyr bróður sinn Hrút hvernig honum lítist á Hallgerði. Vilborg yrkir hér um stundina áður en hin frægu orð Hrúts um þjófsaugun falla og er sjónarhornið Hallgerðar. Auk þess að endurtúlka þennan atburð og líta á hann frá sjónarmiði Hallgerðar, kemur Vilborg með nýja skemmtilega skýringu á viðurnefni hennar:
Með orð Hrúts í huga (skemmtilega fjarverandi í ljóðinu) verður sérlega athyglisverð Iýsingin á augum og augnaráði Hrúts sjálfs. Myndin af Hrúti „hvimandi flóttalega út undan sér / litlum rauðsprengdum glymum“ og horfandi á Hallgerði barnunga „kámugu augnaráði“ verður að teljast sláandi mótmynd við þá mynd sem höfundur Njáls sögu dregur upp. Einhverjum lesendum verður kannski hugsað til auga Óðins í „Draumnum“, öðru ljóði Vilborgar, sem logaði af girnd til konunnar sem taldi sig vera skáld.
Í þessum hluta yrkir Vilborg einnig í orðastað Fedru, sem gert var að sæta þungum örlögum vegna ástar sem hún lagði á stjúpson sinn. Og annað ljóð er ort í orðastað Viv, þeirrar er gift var T.S. Eliot og átti (ekki síður en þær Hallgerður og Fedra) við óblíð örlög að glíma. Ljóðið „Spegilmynd“ fjallar hins vegar um óþekkta konu og minnir upphaf þess mjög á ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur, „Fyrir þína hönd“. „Spegilmynd“ hefst þannig:
Þessi ófagra sjálfslýsing fær þó nýja vídd með óvæntu framhaldinu:
Með hin ýmsu textatengsl í ljóðum Vilborgar í huga, er ekki fráleitt að ímynda sér að hér sé á ferð hin sama kona og í fyrrnefndu ljóði Steinunnar. Konan sú lýsir sér sem ófríðri og illa gefinni, hún vinnur við að flaka fisk í frystihúsi og lætur sig dreyma um annað líf. Í ljóði Steinunnar segir meðal annars:
Nú má velta því fyrir sér, til gamans ef ekki annars, hvort ljóð Vilborgar sé sprottið upp af þessu eldra ljóði Steinunnar. Er þarna komin sama konan — nú eldri og sáttari við sjálfa sig?
Maðurinn, náttúran, dauðinn
„Einn vakir þú og hlustar/ á andardrátt landsins þíns,“ segir í ljóðinu „Tanka“ sem er eitt af fimm ljóðum þriðja hluta. Sama ljóðlína gæti einnig vísað til sjómannsins í ljóðinu „Ættjarðarást“, í sama hluta, sem finnur sterka lyngangan leggja af landi og vekur hún með honum óvænta, sterka þrá. Í litlum ljóðabálki sem nefnist „Átta hækur“ er brugðið upp margræðum myndum þar sem maður og náttúra og samspil þeirra er í fyrirrúmi:
Ljóð þriðja hluta eru einkar myndvís og persónuleg. Í tveimur síðustu ljóðunum er ort um dauðann, einsemd og kyrrð og tengjast þau þannig vel síðasta hlutanum þar sem Vilborg birtir þýðingar sínar á tveimur ljóðabálkum sem báðir fjalla um dauðann.
Þýddu ljóðabálkarnir tveir eru afar ólíkir, eiga ekkert sameiginlegt utan efnið. Sá fyrri er eftir sænsku skáldkonuna Barbro Lindgren og samanstendur af fimm ljóðum sem hvert hefur sinn titil – yfirtitillinn er einfaldlega „Fimm ljóð um dauðann.“ Í þessum ljóðum er myndmál smæðar áberandi. Í fyrsta ljóðinu deyr fugl, lamb í öðru, fluga í því þriðja. Fjórða ljóðið fjallar um dauðleika allra manna, dýra og jurta, og fimmta ljóðið er hvatning um að gráta ekki þann dána því hann geti lifað að eilífu í brjósti syrgjandans. Í þessum ljóðabálki virðist einfaldleikinn verða hafður að leiðarljósi, bæði hvað varðar ljóðmál og efnistök. Lítið er um myndmál og líkingar eru einfaldar og barnalegar. Ekki veit ég hvort ljóð þessi séu sérstaklega ætluð börnum, en titill bókar Lindgren (Gröngöling ar pá vág — Dikter för barn och andra) bendir þó til þess að svo sé.
Síðari bálkurinn er eftir breska rithöfundinn D.H. Lawrence og nefnist hann „Skip dauðans“. Þetta er kvæði í tíu hlutum, þar sem hver hluti er nánari útfærsla á grundvallarhugmyndum og stefjum kvæðisins. Sömu stef og hugmyndir eru endurteknar með sífellt torráðnara og flóknara myndmáli. Í heild er kvæðið hugleiðing um endalok þessa tilverustigs, tvíhyggja er allsráðandi, líkaminn er bústaður sálarinnar; tóm skel þaðan sem hrunið sjálf verður að fínna sér útgönguleið. Leiðarminni kvæðisins er „ferðin langa, á vit gleymskunnar“ og áskorun ljóðmælanda til lesanda að undirbúa þessa ferð, gera sér skip dauðans og búa það vel út.
Það er fljótsagt að þýðing Vilborgar á þessum bálki D.H. Lawrence er hreint afbragð. Vilborg nær vel því andrúmslofti dauða og skelfingar sem er að finna í frumtextanum, jafnframt er þýðing hennar ótrúlega nálæg frumtextanum hvað varðar orðaval, orðaröð og setningaskipan. Útkoman er áhrifaríkur og magnaður texti. Ég get samt sem áður ekki annað en bent á eina þýðingarvillu sem er annaðhvort til komin vegna mislesturs eða (og það finnst mér líklegra) stafsetningarvillu í þeirri útgáfu af frumtextanum sem notuð er við þýðinguna. Í þriðju ljóðlínu annars hluta bálksins segir í frumtexta: „The grim frost is at hand, when the apples will fall.“ Í þýðingu Vilborgar segir hins vegar: „Framundan er skógurinn ógnlegi, þegar eplin hrynja." Greinilegt er að orðið „frost“ er (mis)- lesið sem „forest“ og þýtt samkvæmt því. Nú má segja að þýðingarlausn Vilborgar á þessari ljóðlínu er ágæt út af fyrir sig og gæti gengið í myndmáls-samhengi kvæðisins í heild. Hins vegar er orðið „frost“ samofið því andrúmslofti kulda og dauða sem ljóðið er spunnið úr og því æskilegra að nota það.
Að endingu er vert að geta fyrsta ljóðs bókarinnar, sem er ort í minningu Snorra Hjartarsonar og nefnist „Veturinn“. Ljóð þetta er minning um skáld sem ort hefur fegurri ljóð en flest önnur íslensk ljóðskáld og hér tekst Vilborgu vel upp. Ljóðmálið minnir á skáldskap Snorra og vel valin orðin vísa til þekktra ljóða hans. „Veturinn“ tilheyrir ekki neinum hluta bókarinnar, það stendur eitt og sér og kemur á eftir tilvitnun í John Keats sem líta má á sem einkunnarorð bókarinnar: „Were I dead, Sir, I should like / a Book dedicated to me.“ Af þessu má skilja að Vilborg tileinkar Snorra Hjartarsyni ljóðabók sína og er minningu hans sómi að þeim góða skáldskap sem hún hefur hér fram að færa.
Ritdómurinn birtist áður í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 1993, bls. 105-109.