SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 4. febrúar 2018

SPENNANDI FRÁSÖGN BYGGÐ Á ÞJÓÐLEGUM ARFI. Garðurinn

Gerður Kristný, Garðurinn, Mál og menning 2008, 148 bls.

 

 

Garðurinn er fjórða skáldsaga Gerðar Kristnýjar sem ætluð er börnum og unglingum en fyrir þá fyrstu, Mörtu smörtu (2002), hlaut hún Bókaverðlaun barnanna. Land hinna týndu sokka (2006) og Ballið á Bessastöðum (2007) hlutu einnig mjög góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda.

Titill bókarinnar, Garðurinn, vísar til Hólavallagarðs, gamla kirkjugarðsins við Suðurgötu í Reykjavík. Aðalpersóna bókarinnar er unglingsstúlkan Eyja sem er nýflutt á Ljósvallagötuna, á þriðju hæð í húsi sem stendur gegnt garðinum og býður upp á gott útsýni yfir hann. Það vekur nokkurn óhug hjá Eyju að búa við hliðina á þeim dánu enda kemur á daginn að nokkrir „íbúar“ garðsins eiga eftir að snerta líf hennar svo um munar.

„Draugasagan“ myndar aðalfléttu frásagnarinnar og er hún vel saman fléttuð og verulega spennandi. En það eru fleiri þræðir sem mynda frásögnina; hér er líka fjallað um það að skipta um skóla og vini, sem og um veikindi innan fjölskyldunnar, svo fátt eitt sé talið.

Þegar pabbi Eyju kaupir gamlan hægindastól á fornsölu fer undarleg atburðarás af stað sem virðist tengjast stólnum; „það er sál í honum,“ eins og pabbi orðar það. Stóllinn er frá tíma spænsku veikinnar, en pabbi Eyju hefur sérstakan áhuga á því tímabili í íslenskri sögu og ætlar sér að skrifa um það bók. „Sálin“ í stólnum er þó langt frá því að vera góð sál og eftir að stóllinn er kominn á heimilið fer ískyggileg atburðarás af stað.

Það er hraði og spenna í þessari bók Gerðar Kristnýjar og ekki spillir fyrir að ungir lesendur fræðast um leið um íslenska sögu og kynnast þáttum úr íslenskri þjóðtrú. Garðurinn er ágætt dæmi um það hvernig hægt er að byggja samtímasögu á þjóðlegum arfi, eins og margir íslenskir höfundar hafa verið að gera undanfarin ár. Aðall bókarinnar er þó að frásögnin er fyrst og fremst spennandi og skemmtileg og ætti að geta höfðað til breiðs lesendahóps.

 

 

Ritdómurinn birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 8. nóvember 2008, bls. 12.