SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir25. mars 2023

BIRNA „BYLTINGIN HOLDI KLÆDD“ - Var, er og verður Birna

Ingibjörg Hjartardóttir. Var, er og verður Birna: skáldveruleiki. Mál og menning, 2022, 206 bls.

Birna Þórðardóttir er flestu fólki vel kunnug enda hefur hún gjarnan verið í fararbroddi þegar barist hefur verið gegn hvers kyns óréttlæti; áberandi og ögrandi í rauðum leddara og stuttu pilsi. Í sögu hennar greinir Ingibjörg Hjartardóttir frá því helsta sem drifið hefur á daga þessarar eftirminnilegu konu samfara því að gefa innsýn í líf hennar á ritunartíma.

Birna fæddist á Borgarfirði eystri árið 1949. Hún gekk í Eiðaskóla og er leið að landsprófi „mætti hún til leiks íklædd töffaranum, óárennileg og ögrandi, reykti og drakk vodka.“ (bls. 25) Birna lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og sinnti ýmsum störfum í kjölfarið, m.a. sem ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins og framkvæmdastjóri Alnæmissamtakanna auk þess sem hún bauð upp á menningargöngur í Reykjavik. Þess má geta að hún sótti margoft um starf fréttamanns hjá RÚV, eða 23 sinnum, en fékk ekki þar sem skoðanir hennar féllu ekki í kramið. (bls. 150)

Bókin er skemmtilega uppbyggð. Henni er skipt upp í 11 kafla sem allir bera mánaðarheiti, og sumir eru ítarlegri og vísa í að snemma eða seint sé liðið á mánuðinn. Bókin hefst í maí 2020 og lýkur í janúar 2021. Á milli kaflanna eru afar vandaðar og fallegar ljósmyndir af Birnu sem Rannveig Einarsdóttir á heiðurinn af. Auk þeirra prýða bókina fjöldi ljósmynda frá ýmsum tímaskeiðum og er gerð grein fyrir þeim í myndaskrá á lokasíðu bókar. 

Sagan gerist bæði í nútíð og fortíð og textinn er ýmist rauður eða svartur. Rauðlituðu stafirnir fylgja Birnu eftir rétt liðlega sjötugri ásamt ýmsum bréfaskrifum og ummælum vel valinna vina og kunningja. Segja mætti því að sagan sé margradda og fer vel á því. Liðnir atburðir eru raktir með hefðbundinni prentsvertu. Í lok bókar renna tímarnir saman, í minningaróti Birnu sem vaknar við kunnuglega staði á bernskuslóðum hennar. Bókin ber undirtitilinn „skáldveruleiki“ og því er engin leið að vita fyrir víst hvort eitthvað sé orðum aukið eða að dregið sé úr. Það má svo sem segja um minningar almennt og því er mun heiðarlegra að taka það fram þegar rifjaðir eru upp löngu liðnir atburðir þar sem þeir eru vísir með að taka einhverjum breytingum í minningunni.

Það fer vel á fjölbreyttu og dálítið kaótísku formi bókar. Það endurspeglar vel söguhöfundinn sem er ekki þekkt fyrir að láta stjórnast af einhverju regluverki. Birna segir frá því að hún hafi fundið sinn tilgang í Keflavíkurgöngu og gerðist hún í kjölfarið „byltingin holdi klædd“ líkt og komist er að orði á einum stað. (109). Snemma lenti hún í átökum við lögregluna og er löngu orðið frægt hið fræga, meinta pungspark sem rataði í fréttir á sínum tíma. Þrátt fyrir að ganga til liðs við stjórnmálaflokka fór Birna jafnan eigin leiðir, trú sannfæringu sinni og samkvæm sjálfri sér. Hún lét ekki segja sér fyrir verkum og varð sjaldan svarafátt, líkt og sjá má t.d. af beittum húmor hennar í svari við athugasemdum um klæðaburð hennar á heimsþingi ungliðahreyfinga kommúnistaflokka i Norður-Kóreu:

Hún var á tréklossum sem þótti ekki fínt, í gallabuxum sem voru bannaðar og þegar henni var bent á að hún væri ekki í brjóstahaldara ofbauð henni. Hún spurði hneyksluð hvort þau hefðu virkilega verið að góna á brjóstin á sér, sagði að á Íslandi þætti slíkt argasti dónaskapur. Þá fóru allir hjá sér og hún var látin í friði með klæðaburð sinn. (bls. 99)

 

Birna giftist Guðmundi Ingólfssyni og eignaðist með honum tvö börn. Þau bera Birnu vel söguna en segja það ekki alltaf hafa verið auðvelt að eiga hana fyrir móður, líkt og sonur hennar lýsir á einum stað: „Kröfugöngur, handtökur og ákveðið orðspor gerði mann stundum „aðeins minna velkominn“ inn á sum heimili...“ (bls. 133) Birna er litríkur karakter og umgengst gjarnan sína líka, við sögu koma t.d. Róska, Alfreð Flóki, Dagur Sigurðarson og Elías Mar en það eru dregnar upp eftirminnilegar myndir af þeim í bókinni. Hún er skemmtileg frásögnin af því hvernig Birna kynntist Alfreð Flóka:

Það var í byrjun sumarsins 1970. Hún kom við á Mokka. Þar sat Dagur Sigurðarson á spjalli við mann með dökkt hár og gleraugu sem hún kannaðist ekki við. Þegar Dagur sá hana koma inn, spratt hann fagnandi upp og gaf henni bendingu um að koma og kynnti manninn:

- Hér situr Alfreð Flóki, undrabarn þjóðarinnar. Svo sagði hann að Flóka liði illa í dag, hann væri svo timbraður, og spurði hvort hún gæti ekki gert eitthvað fyrir hann. Hún fékk hvorki tækifæri til að játa því né neita, því Dagur var óðara rokinn út. Þannig sátu þau uppi hvort með annað allan þann dag og alla hina dagana sem eftir voru af nýbyrjuðu sumri og talsvert lengur. Þá var búið að berja Birnu út úr samfélaginu og hún úthrópuð. Hann tók vanlíðan hennar vegna þessa mjög alvarlega, hlustaði á hana, hjálpaði henni með blíðu sinni. (bls. 80)

 

Það kemur fram á bókarkápu að Birna hafði alltaf hugsað sér að skrifa sögu sína en ekki hafi orðið að því. Það er mikið lán að Ingibjörg Hjartardóttir hafi ráðist í verkið því nú er svo komið að Birna stríðir við heilabilun og er minnið farið að bregðast henni. Í frásögn Birnu fæst öðrum þræði einlæg innsýn í þennan miskunnarlausa sjúkdóm gleymskunnar en þessi mikla baráttukona mun seint gleymast og er ljóst að þessi bók mun verða fallegur minnisvarði um líf hennar.

 

Myndin af Birnu er fengin úr auglýsingu um menningargöngu hennar á Facebook.