SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir28. mars 2023

LEITAÐ LANGT YFIR SKAMMT

Leitin að Fjalla-Eyvindi eftir Höllu Gunnarsdóttur. Nykur 2007, 58 bls.

 

Í titli þessarar fyrstu ljóðabókar Höllu Gunnarsdóttur felst skemmtilegur leikur; hér er vísað til eins frægasta útilegumanns á Íslandi og um leið -  þar sem nafn höfundar er það sama - til Höllu sem fylgdi honum í útlegðina. Fjalla-Eyvindur og Halla eru að sjálfsögðu eitt frægasta par Íslandssögunnar og sá grunur vaknar strax að höfundur sé hér að lýsa leitinni að sínum „Fjalla-Eyvindi“; þær grunsemdir fást staðfestar við lestur ljóðanna. Um leið er lýst ferðalagi um heiminn, ljóðmælandi er sjálfur n.k. útilegumaður - eða útilegukona - sem ferðast víða um heim eins og yfirskriftir margra ljóðanna bera með sér. Ljóðin hafa öll staðarheiti að yfirskrift; hér er ferðast á milli Mosfellsbæjar, Kúpu og Kuala Lumpur og Singapúr, Sahara og Sóleyjargötu, svo dæmi séu tekin. 

Ljóðin fjalla allflest um það sem kalla mætti tilraun til sambands, eða bara einfaldlega leitina að ástinni. En þránni virðist erfitt að svala og um miðbik bókarinnar má lesa þetta:

 

Ég sit ein í Singapúr og velti því
fyrir mér hvort ég sé ef til vill
að leita langt yfir skammt.

 

Í ljóðinu Áttavillt er svipuð hugsun á ferðinni: „Á hrollköldum haustmorgni blæs / norðanáttin úr austri og vestri. // Ég hita mér te og hugsa suður, / til þín.“ Söknuður og glötuð augnablik koma víða fyrir en oftar virðist ljóðmælandinn láta sér aðskilnaðinn í léttu rúmi liggja: „Ég og þú erum eins og sandur og  / sandalar [...] / virkum engan / veginn saman.“

Leitin að Fjalla-Eyvindi inniheldur aðeins 27 ljóð og í flestum þeirra er brugðið upp hnitmiðuðum skyndimyndum á einföldu máli. Hér er lítið um skáldleg tilþrif, myndmálsnotkun í algjöru lágmarki og undirtexti lítill (vel heppnuð undantekning frá því er ljóðið Fossvogur).  Höfundur tekst ekki á við tungumálið sem slíkt heldur notar það aðeins til að miðla hugsun sinni. Að því leyti mætti tala um nokkurn byrjendabrag á ljóðunum. Styrkur bókarinnar liggur hins vegar í húmorískri sýn höfundar sem víða bregður fyrir og þeirri heild sem ljóðin saman ná að kalla fram.

Ritdómurinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. desember 2007