SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir15. apríl 2023

RÓSRAUÐ ÆVINTÝRI OG KOLGRÁR RAUNVERULEIKI - Um Þetta rauða, það er ástin

Ragna Sigurðardóttir. Þetta rauða, það er ástin. Mál og menning. 2022, 272 bls.

 

Ragna Sigurðardóttir er bæði rithöfundur og myndlistarkona. Hún hefur sent frá sér smásögur og skáldsögur ásamt því að sinna þýðingum. Fyrsta verk Rögnu kom út árið 1987 og árið 1993 hlaut hún tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsögu sína Borg. Skáldsagan Þetta rauða, það er ástin er hennar tólfta, frumsamda verk.

Þetta rauða, það er ástin segir af Elsu sem er stödd í París ásamt vinkonu sinni um miðja 20. öld. Elsa sækir listaskóla og dreymir um að ná langt sem listmálari. Hún kynnist ástinni og stendur frammi fyrir afar erfiðum valkostum fyrir það eitt að vera kona.

Titill bókar „Þetta rauða, það er ástin“ er skemmtilega margræður. Hann er þannig til kominn að á einum stað í sögunni staldrar Bara-Jean, sem er þekktur galleríeigandi, við málverk Elsu af Lúxemborgargörðunum og sér þá Elsa strax eftir að hafa haft myndina til sýnis því henni finnst rauði flötur myndarinnar vera of sterkur. Rauði liturinn vekur hins vegar forvitni Bara-Jean og hann spyr út í hann:

 

  „Hvað er þetta rauða?“ spurði hann og benti.

   Ég vissi ekki hvað ég átti að segja. Ég hikaði. Vanþóknun Graniers helltist aftur yfir mig.

   „Þetta rauða …“ stamaði ég. „Kandinsky …“ bætti ég við. „Um litina …“ Ég var í þann mund að segja eitthvað um litakenningar Kandinskys þegar Marcel greip fram í fyrir mér.

   „Það er ástin,“ sagði hann.

(Bls. 214-215)

 

Málverkið af Lúxemborgargörðunum tengist rómantískri stund í huga Elsu og eftir samtalið við Bara-Jean fær það titilinn „Þetta rauða“.  Það er augljós vísun í ástina, líkt og felst í titli bókar, en ekki aðeins til annarrar manneskju heldur einnig og ekki síður til listarinnar. Það felur í sér upphaf en einnig viss endalok því rauði liturinn getur einnig verið táknrænn fyrir blóð (svita og tár); fyrir þá fórn sem kona á miðri 20. öld þarf að færa til að ná markmiði sínu og að sama skapi vísun til þess sem hefði getað orðið.

Ástin er alltumvefjandi enda sagan öðrum þræði næsta hefðbundin ástarsaga með klassískum ástarþríhyrningi og hinu kunnuglega stefi um fátæku stúlkuna sem er bjargað af ríka prinsinum. Sagan er þó litríkari en svo því við þessi kunnuglegu rósrauðu minni ástarævintýranna blandast kolgrár raunveruleikinn og dumbrauður sársauki. Það fer vel á þessari litapalettu.

 

Tengt efni