BROTTREKNIR FLÓTTAMENN OG RAUÐAR NÆRBUXUR - Um Þar sem malbikið endar eftir Magneu J. Matthíasdóttur
Magnea J. Matthíasdóttir. Þar sem malbikið endar. JPV útgáfa. 2023, 69 bls.
Ljóðabókin Þar sem malbikið endar kom út í ár en það er þónokkur tími síðan Magnea sendi síðast frá sér frumsamið verk. Magnea hóf sinn rithöfundaferil með barnasögum fyrir RUV árið 1971 og síðan þá hefur hún fengist við flestar tegundir bókmennta. Hún vakti talsverða athygli með ljóðabókinni Kopar, sem kom út árið 1976, og síðan með umdeildum þríleik sínum um ungt fólk í Reykjavik sem kom út á árunum 1978-1981 og þurfti hún að þola talsvert áreiti fyrir þau skrif sem þóttu full hispurslaus.
Þar sem malbikið endar er önnur ljóðabók Magneu. Hún geymir 44 ljóð frá ýmsum tímum sem eiga það sammerkt að fjalla um manneskjuna og ekki hvað síst hana sjálfa og hennar nærumhverfi. Öll ljóðin bera titil utan það fyrsta sem er eins konar ávarp ljóðmælanda, sem minnir um nokkuð á völvu sem man tímana tvenna, og býr lesanda undir það sem koma skal. Í því ljóði kemur strax fram það sem einkennir mjög ljóð bókarinnar; hversdagslegt orðfæri er sett í frumlegan og hnyttinn búning:
Í ljóðum Magneu fær hversdagslegt líf gjarnan lýrískan blæ. Jafnvel ruslið sem fylgir manneskjunni fær skáldlegt rými: „hálfétið epli“ og „tómt plastglas undan gosi“ sem „hanga á nývöknuðu birki til minningar um liðna tíð/ og hverfa senn / í algleymi sumars“ (bls. 15).
Ljóðin eru þó flest raunsæ. Sum geyma vísanir í eldri ljóð og rómantískari en í þeim tilvikum er lesanda gjarna kippt niður á jörðina, líkt og sjá má t.d. í skemmtilegum leik hennar að þekktu ljóði Jónasar Hallgrímssonar, Ég bið að heilsa. Ljóðið skortir þó ekki myndmálið:
Magnea sækir sér einnig vísanir í ýmis fleyg orð og setningar úr pólitísku umhverfi, í beittum ádeiluljóðum sínum. Til dæmis í ljóðunum „Græðum á daginn“ sem fjallar um hvernig við græðum á túristum en fleygjum burt flóttamönnum (bls. 52) og „guðsblessun“ sem hefst á orðunum „guð blessi ísland“ en þeir reynast í raun margir guðirnir sem blessa okkur, m.a. mammon og loki. (bls. 54). Þá er ádeilan beitt í ljóðinu „úti og inni“ sem fjallar um hræsni, líkt og sjá má í öðru erindi ljóðsins:
Best tekst Magneu upp í því að draga upp lifandi og skemmtilegar myndir af flóru mannlífs og dýra í borginni. Dýraljóðin eru sérlega skemmtileg og er vert að enda á einu slíku en titill geymir vísun í samnefnt lag sem Helena Eyjólfsdóttir gerði ódauðlegt á sínum tíma: