SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir16. september 2023

HVAÐ GERIR SÁ SEM ER BANNAÐ AÐ BJARGA SÉR?

Ný bók eftir Lilju Magnúsdóttur (f. 1963) var að komin út. Nefnist hún Friðarsafnið. Lilja hóf nýlega sinn rithöfundarferil og er þetta þriðja skáldverk hennar.

Rakel, aðalsöguhetjan, fékk þá bráðsniðugu hugmynd að setja á laggirnar safn um frið i heiminum til mótvægis við stríð og hatur sem geisar svo víða. Á safninu sem er einkaframtak Rakelar er athyglinni beint að þeim sem hafa ýmist barist fyrir friði eða haldið friðinn og að fólki sem hrekst á flótta þegar friðurinn er úti.

Frank/Ahmed er flóttamaður sem leitar skjóls á safninu. Þau Rakel eiga uppbyggilegar og fræðandi samræður um flóttamannavandann, hann með sína stríðshrjáðu fortíð en hún með góðmennskuna að leiðarljósi. Milli reynslu þeirra, menningar, aðstöðu og skoðana er hyldjúp gjá:

„Rakel vissi ekki hvernig hún átti að vera. Þessi hryllingur var svo óralangt fyrir utan hennar lífsreynslu. Henni fannst hún ekki skilja þennan heim  þrátt fyrir að hún væri búin að lesa margt og horfa á fréttir og myndbönd. „MIg vantar meira af upplýsingum,“ sagði hún., af vettvangi, ekki bara úr fjölmiðlum.“ Frank horfði á hana smástund. „Hvaða upplýsingar vantar? Það eru fréttir af flóttamönnum og aðbúnaði þeirra á hverjum degi og auðvelt að finna opinberar tölur um stöðu mála á netinu. Viltu heyra grátinn i börnunum, öskur fólks sem skeytir skapi sínu hvert á öðru í vonlausum aðstæðum? Viltu finna fnykinn sem leggur um allar flóttamannabúðirnar, horfa upp á drulluna sem er á milli tjaldanna eftir rigningu eða mannaskítinn sem liggur hér og þar eftir litlu börnin sem flest eru með niðurgang alla daga? Hvaða upplýsingar vantar? Fólk vissi kannski ekki hvað gerðist í útrýmingarbúðunum á sínum tíma en núna vitum við nákvæmlega hvað er að gerast“ (47-48).

Varpað er upp siðferðislegum spurningum um ástandið í heiminum og það er alveg skýrt hvar afstaða höfundarins liggur. Tónninn er sleginn strax í upphafi sögunnar: „Hvað gerir sá sem er bannað að bjarga sér?“ (7)

En upp kemst um flóttamanninn í felum á safninu og Rakel setur i gang ansi djarft og fáránlegt ráðabrugg til að koma honum undan, með ófyrirséðum afleiðingum. Inn í spilið dragast þau Helena systir og Ragnar, kærasti Rakelar sem glímir við skap- og siðferðisbresti, hin fagra Linda sem leitar að ástinni og strákagrúppa sem safnar og dreifir óviðurkvæmilegum myndum af stelpum sem þeir hafa komist í kynni við. Hin framtakssama Rakel tekur einmitt að sér að reyna að koma þeim á kné í leiðinni. Meira er ekki gefið upp um söguþráðinn í bili en lofað ágætis afþreyingu með dágóðum skammti af áleitnum boðskap.

Verst að það er ekkert Friðarsafn til í alvörunni - það er alveg frábær viðskiptahugmynd. 

 

 

Tengt efni