SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Lilja Magnúsdóttir

Lilja Magnúsdóttir fæddist 30. ágúst 1963.

Hún ólst upp í Borgarfirði, var í Reykholtsskóla og lauk svo stúdentsprófi frá Fjölbrautarskólanum í Ármúla 1983. Lilja lauk BA námi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1990 og Uppeldis- og kennsluréttindanámi frá HÍ 1994. Hún var kennari við Kirkjubæjarskóla á Síðu, Kópavogsskóla, Fjölbrautarskólann í Garðabæ og Menntaskólann í Kópavogi, þar sem hún var einnig fagstjóri íslenskudeildar. Lilja hefur kennt íslensku sem annað mál, bæði börnum og fullorðnum og starfar við það með annarri vinnu í dag.

Árið 2014 lauk Lilja meistaraprófi í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands þar sem meistaraprófsritgerðin fjallaði um sögu, menningu og náttúru í sveitunum milli Mýrdalssands og Skeiðarársands sem oft voru nefndar Eldsveitirnar. Þetta efni er nú aðgengilegt á vefnum eldsveitir.is sem Lilja á og ritstýrir.

Lilja Magnúsdóttir býr á Kirkjubæjarklaustri þar sem hún er kynningarfulltrúi fyrir Skaftárhrepp í hálfu starfi en verkefnastjóri á Kirkjubæjarstofu að hluta. Verkefnin sem hún hefur haft umsjón með eru listaverkið Gullmolinn, verk sem minnir á litlu rafstöðvarnar í sveitum landsins, Myndspor, söfnun gamalla ljósmynda úr Skaftárhreppi sem margar má sjá á vefnum eldsveitir.is og verkefni sem enn er í gangi en það er söfnun þjóðsagna og skráning þeirra á vefinn sagnirafsudurlandi.is.

Lilja hefur fengið birtar eftir sig smásögur, Tvö lítil í Tímariti Máls og menningar árið 1991 og Svikarann árið 2008 í samnefndu smásagnahefti en hún hlaut Gaddakylfuna fyrir þá síðari. Árið 2018 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Svikarann.

Lilja skrifaði um sögu Sparisjóðs Vestur-Skaftafellssýslu í Héraðsritið Dynskógar 10, sem birtist árið 2006 og einnig hafa pistlar birst eftir Lilju í veftímaritinu Úr vör og í dálknum Tungutak í Morgunblaðinu.


Ritaskrá

  • 2023  Friðarsafnið
  • 2022  Gaddavír og gotterí
  • 2018  Svikarinn
  • 2009  Saga sparisjóðs Vestur-Skaftafellssýslu. Dynskógar. Rit Vestur-Skaftfellinga 10

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2008  Gaddakylfan fyrir smásöguna Svikarann

 

Tilnefningar

  • 2019  Til Íslensku hljóðbókaverðlaunanna fyrir skáldsöguna Svikarann

 

Tengt efni